Prestssetur

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 23:56:02 (2989)


[23:56]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er nauðsynlegt að það sé upplýst að það er venja þegar mál eru send út til umsagnar að ætla þeim sem fá málin nokkurn tíma til að fara yfir þau. Algengt er þrjár vikur til mánuður, stundum skemmra ef þannig stendur á. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég lesa upp svar Ríkisendurskoðunar sem er stofnun sem undir Alþingi heyrir og við hv. þm. leitum gjarnan til. Ég les aðeins hið efnislega svar:
    ,,Í ljósi hins skamma tíma sem veittur er í þessu sambandi treystir Ríkisendurskoðun sér ekki til þess að fjalla efnislega um mál þessi á nokkurn hátt. Á hinn bóginn gerir hún að tillögu sinni að 2. mgr. 9. gr. frv. til laga um prestssetur hljóði svo.`` Þar er lögð til smábrtt. Það var ekki farið eftir því. ( Gripið fram í: Jú, brtt. sem . . .  ) Jú, það var farið eftir því. En kjarni málsins er þessi. Hún fær tillögurnar þann 9. des. Svarið berst --- hér stendur reyndar berst 14. des., en það er dagsett 13. des. Nefndadeild þingsins skráir svarið inn til sín 14. des., en það er dags. 13. des. hjá Ríkisendurskoðun. Það er náttúrlega ekki boðlegt að ætla stofnun eins og þessari svo stuttan tíma að hún treysti sér ekki til að svara. Það eru vinnubrögð sem eru hreint út sagt ekki boðleg og menn verða að skilja það. Það er ekki boðlegt að standa þannig að málum.