Prestssetur

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 23:58:24 (2990)


[23:58]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Þær miklu umræður sem verið hafa á hinu háa Alþingi undanfarna klukkutíma um kirkjuna hljóta að bera þess vitni að hv. alþm. hafi mikinn áhuga á málefnum kirkjunnar og vonandi vitnar hann líka um umhyggju í garð þjóðkirkjunnar á Íslandi.
    Þau tvö mál sem hér eru til umræðu, frv. til laga um kirkjumálasjóð og frv. til laga um prestssetur, marka að mínu mati tímamót í samskiptum ríkis og kirkju. Og mig langar til þess að þakka sérstaklega hæstv. kirkjumrh. framgöngu hans í undirbúningi málsins þar sem sannarlega hefur verið vel að verki staðið.
    Þetta mál hefur fengið rækilega meðferð, a.m.k. á tveimur kirkjuþingum og það hefur verið til umræðu innan kirkjunnar og utan og verið skoðað gaumgæfilega. En það kemur ekki á óvart að þegar samskipti ríkis og kirkju koma til umræðu á Alþingi, að um þau efni verði miklar umræður nú eins og alltaf áður. Sagan vitnar um það að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða sem margir vilja hafa skoðun á. Og þær umræður sem hér hafa orðið á Alþingi nú vitna um slíkt.
    Síðustu ár hefur verið vilji til þess að efla sjálfstæði og sjálfsforræði kirkjunnar í sínum málum og ég hef skilið það svo að þessi vilji í garð kirkjunnar eða í garð samskipta ríkis og kirkju væri til staðar innan allra stjórnmálaflokka. Það er rétt að fara ekki of hratt. Það er skynsamlegt að taka þessi skref af öruggi og festu og fara sér ekki hratt.
    Mitt mat er að þessi tvö frumvörp marki tiltekna stefnu og marki um leið leiðina, vegvísir, og þannig hefur málið verið undirbúið og kynnt af hæstv. kirkjumrh. og það gefur vonandi vísbendingu um

framhaldið. Það kemur því satt að segja nokkuð á óvart að nú skuli þess krafist af nokkrum hv. þm. að eiga enn ítök um ráðin innan kirkjunnar og hika við að veita henni það sjálfsforræði sem þessi frumvörp bera með sér og fara fram á. Sagan vitnar einmitt um slíkt í samskiptum ríkis og kirkju, ekki aðeins á þessari öld heldur jafnan í gegnum aldirnar. Þess vegna er þessi niðurstaða engin tilviljun í sjálfu sér. En ég trúi því samt að það sé ekki um stefnumótun að ræða hér á þessu kvöldi heldur fyrst og fremst samkomulag til bráðabirgða til að leysa úr tilteknum hnút sem hér er til staðar.
    Þess vegna vildi ég að það kæmi greinilega fram í þingtíðindum, og ég undirstrika það, að þó að ég greiði þessari tillögu atkvæði mitt þá geri ég það ekki með því að greiða slíkri stefnumótun atkvæði mitt, heldur að það komi skýrt fram að hér sé fyrst og fremst um skipan mála að ræða til bráðabirgða og, eins og greinilega hefur komið fram í máli flestra hv. þm. sem um þessa tillögu hafa fjallað núna, að þetta skuli gilda á meðan kirkjueignanefnd er að störfum og hefur ekki lokið skýrslu sinni. Eða réttara sagt, meðan eignaskipti milli ríkis og kirkju hafa ekki farið fram. Og sannarlega ber að taka tillit til þeirra raka. Eigi að síður var þannig frá málinu gengið í 4. gr. í frv. til laga um prestssetur, að að sölu prestssetra skyldu koma kirkjuþing og dóms- og kirkjumrh. og þá má líta þannig á að framkvæmdarvaldið komi þar að nokkru leyti fram fyrir hönd Alþingis vegna þess að hæstv. kirkjumrh. ber ábyrgð á gerðum sínum gagnvart þinginu.
    Virðulegi forseti. Um þetta mætti hafa langt og mikið mál. Þannig hefur það jafnan verið þegar svo ríkir hagsmunir eru til umræðu á Alþingi að þá viljum við hafa um það langt og mikið mál. Ég mun styðja þessa brtt. í ljósi þeirra aðstæðna sem hér ríkja, bæði í þinginu og almennt um stöðu málsins, til þess að það nái í heild sinni að öðru leyti fram vegna þess að ég tel að hér sé um svo merk mál að ræða, sem marka tímamót, sannarlega kaflaskipti í samskiptum ríkis og kirkju, þó þarna hafi í nokkuð ríkum mæli verið sveigt af leið í gamla farið sem við erum lengi búin að bíða eftir og berjast fyrir að komast upp úr. En svo verður að vera enn um stund.