Prestssetur

66. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 00:06:04 (2991)


[00:06]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég undirstrika það aðalatriði sem ég lagði áherslu á hér fyrr í kvöld. Hér er fyrst og fremst um að ræða ákvörðun sem tekin er með hliðsjón af því að Alþingi vilji ekki á þessu stigi blanda sér í vinnu kirkjueignanefndar. Þetta hef ég margsagt. Þess vegna er það ósanngjarnt af hv. þm., sem jafnframt er einn af starfsmönnum þjóðkirkjunnar, að gefa það í skyn að með þessari tillögu og afgreiðslu hennar sé Alþingi í raun og veru að reyna að sölsa undir sig vald sem hæstv. kirkjumrh. hafði lagt til að það gæfi frá sér. Ég held að menn verði að gæta þess hvernig þeir túlka hlutina. Ég vil enn fremur segja að ég er sammála því að það eigi að stuðla að sem allra mestu sjálfstæði kirkjunnar. Um grundvallaratriði þess máls hefur hins vegar engin umræða farið fram hér, hvorki af hálfu ríkisstjórnarinnar né einstakra þingmanna. Og ég segi að lokum að ég tel eðlilegt, í tilefni af þessu máli, að það fari fram rækileg úttekt á þessum samskiptum, t.d. í samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar. Þar held ég að menn eigi að temja sér að ræða alvarlega hluti í stað þess að blaða í pappírum.