Prestssetur

66. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 00:21:56 (2998)


[00:21]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson fyrir þessa ágætu ræðu. Satt er það að þetta mál var unnið við mjög erfiðar aðstæður og ég kom inn á það í minni fyrstu ræðu að það væru þannig aðstæður hér í þinginu núna að það þyrfti að ná samkomulagi og hér hefði orðið niðurstaða. En ég vildi leggja áherslu á það að sú niðurstaða markaði ekki stefnubreytingu og vildi að það kæmi fram í þingtíðindum.
    Almennt um afstöðu Kvennalistans til þessa máls, þá kom greinilega fram hjá hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson áhersla á að það væri stefna samtakanna að stuðla að því að kirkjan nyti sjálfsforræðis og aukins sjálfstæðis. Það hefur án efa komið fram hér í umræðunni áður, en það var rækilega staðfest núna og örugglega verið stefna Kvennalistans allt fram að þessu. Þannig að ef ég hef sagt orð um hið gagnstæða, þá hefur það sannarlega komið í ljós núna að þetta er málstaður Kvennalistans og vil ég fagna því og biðst afsökunar á orðum mínum ef þau hafa fallið á röngum málstað.