Réttarfar, atvinnuréttindi o.fl.

66. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 00:49:06 (3002)

[00:49]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Þau frv. sem hér eru til umræðu bera mikinn keim af þeirri staðreynd . . .  
    ( Forseti (VS) : Það er reyndar bara eitt á dagskrá.) . . .  að hæstv. ríkisstjórn er þess ekki of vel meðvitað hvað það er sem hún þarf að setja í lög. Þess vegna úir og grúir af texta á þann veg að ,,ráðherra er heimilt`` og ,,ráðherra setur``. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, grípa hér niður í 5. gr.: ,,Dómsmrh. getur sett nánari reglur um slík störf erlendra málflytjenda hér á landi.``
    Í lok 6. gr. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Dómsmrh. getur sett reglur um veitingu leyfis til málflutnings á grundvelli hliðstæðra réttinda í öðru ríki.`` --- Hann verður fyrst að lesa kverið og svo að afgreiða þetta.
    Og í lok 7. gr. stendur:
    ,,Dómsmrh. getur sett reglur um veitingu leyfis til málflutnings á grundvelli hliðstæðra réttinda í öðru ríki.`` --- Þetta er sem sagt haft á tveimur stöðum. Svo mikil nauðsyn er talin á að hafa þetta í textanum.
    Það er nú svo að þetta frv. fjallar um breytingu á hvorki meira né minna en eftirtöldum lögum, með leyfi hæstv. forseta:
    Lög um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns, nr. 74/1938.
    Almenn hegningarlög, nr. 19/1940.
    Lög um málflytjendur, nr. 61/1942.
    Lög um prentrétt, nr. 57/1956.
    Lög um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965.
    Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966.
    Lög um fasteigna- og skipasölu, nr. 34/1986.
    Lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989.
    Lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991.     Lagasetning sem þessi er ákaflega leiðinleg hvað það snertir að það eru ekki brtt. við einstök lög sem færast inn í viðkomandi lagabálk heldur er hér um svokallaðan bandorm að ræða í lagasetningu.
    Ég ætla ekki að bera það á þá sem eru stuðningsmenn hins Evrópska efnahagssvæðis að sá lagatexti sem hér er sé í ósamræmi við það sem Íslendingar hafa skrifað undir. Hins vegar fer það ekki milli mála að hann er rúmur. Hann er mjög rúmur fyrir framkvæmdarvaldið. Sum atriði sem voru í lögum áður og áttu við í þrengri ramma flytjast áfram til hins víða ramma sem nú er settur utan um athafnasvæðið, þ.e. eins og allir vita mestöll Vestur-Evrópa. Ég vil nefna sem dæmi um lagasetningu sem ég tel að sé svo rúm að venjulega á okkar dögum dettur engum í hug að setja slíkan texta á blað. Hún átti kannski við þegar ráðherrar höfðu öll völd og þingræðið var mjög veikt. En, með leyfi forseta, í frv. er lögð til svohljóðandi breyting á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19 6. apríl 1966:

    ,,2. mgr. 1. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Ráðherra veitir leyfi til að víkja frá skilyrðum 1. mgr.:
    1. Samkvæmt umsókn frá þeim sem hefur rétt til að stunda atvinnurekstur hér á landi og vill öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni eða til að halda þar heimili.
    2. Ef annars þykir ástæða til.``
    Satt best að segja sé ég ekki tilganginn með fyrri skilyrðunum. Hér væri alveg nóg að stæði: Ráðherra veitir leyfi til að víkja frá skilyrðum 1. mgr. ef ástæða þykir til. Það er engin takmörkun. Lagasetning sem þessi færir okkur nær þeim veruleika sem við blasir að tilskipunarvald, reglugerðafargan og skrifræði sem fer svo ört vaxandi í Evrópu stendur hagvexti álfunnar fyrir þrifum og skapar þar kyrrstöðu á meðan hagvöxtur er víða annars staðar í heiminum.
    Ég get ekki látið hjá líða að fara örfáum orðum um vinsælasta slagorðið sem notað var þegar menn voru að berjast fyrir hinu Evrópska efnahagssvæði. Það var nokkurs konar Jónaslagorð og hljóðaði svo, með leyfi forseta. ,,Stórkostleg sóknarfæri fyrir íslenskt atvinnulíf.`` Það sem hefur vakið undrun mína er að Þjóðhagsstofnun skuli ekki spá stórkostlegum hagvexti á næsta ári í samræmi við þessi stórkostlegu sóknarfæri sem boðuð voru. Vissulega hafa Íslendingar verið í nokkurri sókn til athafna utan Íslands. En hvert hefur hún beinst? Jú, við hófum veiðar í Smugunni og nú er svo komið að ráðherrar una því bara nokkuð vel, smuguveiðunum. Ekki var það nú beinlínis í samræmi við þessi stórkostlegu nýju sóknarfæri sem talað var um. Við erum þátttakendur í lakkrísframleiðslu í Kína og gengur bara vel að sagt er. Og það merkilega var að dökkblár ráðherra hélt til Kína til að fylgja því sóknarfæri eftir. Ekki er það nú innan EES-svæðisins. En við hófum eitt sóknarfæri innan EES. Það var keypt heilt skipafélag í Þýskalandi, 60% í skipafélaginu, ef ég man rétt. Það er bara eina sóknarfærið sem hefur ekki gengið nógu vel af þessum erlendu sóknarfærum sem Ísland hefur verið að tileinka sér. Það heppnaðist sóknarfærið í Kína, það heppnaðist sóknarfærið í Smuguna en sóknarfærið inn til Þýskalands það heppnaðist bara alls ekki. Merkilegt nokk. Og það sækir að mér sú hugsun: Hvers vegna þegja þessir stórsnillingar sem töluðu um sóknarfærin inn á EES-svæðið yfir því hvar ætti að taka land? Mér er ljóst að í heimsstyrjöldinni síðari var það haft sem hernaðarleyndarmál fram á seinasta dag hvar menn ætluðu að taka land á meginlandinu þegar árásin hófst frá Bretlandi yfir Ermarsund. En ég skil ekki hvers vegna þeir sem voru svona vissir um þessi stórkostlegu sóknarfæri eru ekki búnir að benda mönnum á það hvar skynsamlegt sé að hefja sóknina. Hver er skýringin? Hvers vegna er Þjóðhagsstofnun ekki sagt frá þessu svo hún geti boðað vorið í íslensku efnahagslífi? Hver er skýringin? Hvers vegna þarf það að vera færeyska leiðin inn í Smuguna sem bjargar í stöðunni fyrst þessi stórkostlegu sóknarfæri á þurru landi voru til staðar? Er nú ekki von til að ráðherrar Íslands fylgi eftir sóknarfærunum inn í Evrópu alveg eins og ráðherrar Íslands fylgdu eftir sóknarfærinu inn í Kína á eftir lakkrísnum eins og frægt er? Auðvitað er eðlilegt að taka þessa umræðu síðar, herra forseti, auðvitað er eðlilegt að taka hana upp síðar. En mér finnst nú rétt að koma henni á framfæri hér og nú til þess að íslenskir ráðherrar standi ekki eins og glópar þegar eftir því verður leitað: Hvar eru þessi stórkostlegu sóknarfæri? Hver ætlar að vera hershöfðinginn? Hvenær hefst landgangan og hvenær sér íslenska þjóðin þetta stórkostlega vor í efnahagsmálunum sem hlýst af því að menn hafa ákveðið að gerast aðilar að EES?
    Það nær ekki nokkurri átt að ráðherrar láti það ganga fyrir að fara til Kína á eftir lakkrís þegar aðrir eins möguleikar eru á meginlandi Evrópu. Þeir meira að segja geta orðið til þess að villa öðrum sýn. Því eins og allir vita elta menn forustusauðina þegar þeir eru farnir af stað. Hefði ekki verið réttara að þeir tækju land í Evrópu og sýndu þjóðinni fram á að nú væru gróðamöguleikar hjá Íslendingum? Nú gæti Þjóðhagsstofnun lofað því að hagvöxturinn ykist og allt væri í lagi? Nei, það var hafin landganga á einum stað í Þýskalandi. Með myndarlegum hætti. Það var keyptur meiri hluti í þýsku fyrirtæki en það er eina sóknarfærið sem ekki hefur skilað árangri.