Réttarfar, atvinnuréttindi o.fl.

66. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 01:08:45 (3004)


[01:08]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Þegar rammi þessara laga er víkkaður jafnmikið og hann er víkkaður nú er það náttúrlega spurning hvort slík heimildagrein eins og gerð var hér að umtalsefni, ,,ef annars þykir nauðsyn til`` á nokkurn rétt á sér. Auðvitað er endalaust hægt að rökstyðja að framkvæmdarvaldið vilji hafa svo rúmar heimildir að það geti dansað fram og til baka. Það þarf að sjálfsögðu að vera heimild til að erlent sendiráð megi fá hér fasteignir. Og það er hægt að fara yfir það undir hvaða kringumstæðum þessi heimild þurfti að vera. Það er ákaflega auðvelt að fara yfir það allan tímann. Sannleikurinn er aftur á móti sá að þeir sem sitja að samningu þessa frv. meta það svo að þeir treysti sér ekki til að setja í lagatexta það sem þeir telja að ráðherrann eigi að hafa heimildir til. Þeir vilja hafa þetta galopið. Þetta var gamla stefnan í lagasetningu frá konungsins tíð því kóngarnir vildu helst minnst með þingin hafa. Þeir vildu stjórna með tilskipunum. Þeir vildu hafa heimildir og þannig hefur þetta löngum verið.
    Ég út af fyrir sig vakti fyrst og fremst athygli á því hvað þessi lagasetning er opin. Ég hef aldrei efað það eitt augnablik að lögfræðingar gætu ekki rökstutt það hvers vegna þeir vildu hafa þetta svona opið fyrir ráðherra. Það er allt annað mál. En þetta, ásamt mörgu öðru, segir okkur þá einföldu sögu að jafnvel þeir sem nú stjórna og telja sig hafa lesið þessi EES-ákvæði treysta sér ekki til þess að aga sitt mál þannig að hugsunin komi fram um það hvað þeir þurfa að hafa í lögunum. Þeir vilja hafa rýmið hér um

bil ótakmarkað.