Tekjustofnar sveitarfélaga

66. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 01:50:26 (3007)


[01:50]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins eitt mál sem ég vil gera athugasemd við í ræðu hv. þm. Það er þegar hann segir að það sé verið að lauma inn 400 millj. kr. skattheimtu vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á tekjustofnum sveitarfélaga annars vegar og skattheimtu ríkisins hins vegar. Þetta er auðvitað alrangt. Hér er verið að rugla saman því máli þegar áformum ríkisstjórnarinnar um launaskatt upp á hálft prósent var breytt í 0,35% tekjuskatt annars vegar og bifreiðagjöld hins vegar. Það mál er sett fram til mótvægis við lækkun á virðisaukaskatti enda eru skattar stórkostlega að lækka ef skattafrv. ríkisstjórnarinnar nær fram.
    Sannleikurinn er sá að þetta frv. sem hér er til umræðu byggir á samningi milli ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífsins og ríkið hagnast ekkert á þeim samningi, ekki sveitarfélögin í heild né heldur atvinnulífið. Það sem hins vegar gerist er það að á milli sveitarfélaganna verður nokkur munur því öllum er ljóst að það er ekki hægt fyrir sveitarfélögin að fá nákvæmlega sömu tekjur út úr því þegar tekjurnar flytjast frá aðstöðugjaldi yfir í útsvar.
    Þetta sem ég hef hér lýst kemur mjög rækilega fram í bréfi sem ég skrifaði hv. félmn. Þar er sýnt fram á að ríkið er ekki að hagnast nema í hæsta lagi um 50 millj. á þessari breytingu sem hér er verið að gera og er það innan allra skekkjumarka.
    Ég bið þess vegna hv. þm. að sýna a.m.k. þá sanngirni í málflutningi að rugla ekki saman tveimur allsóskyldum efnum. Annars vegar lækkun á virðisaukaskatti og þeim tekjum sem ríkissjóður er að ná fram þess vegna, sem hvergi nærri duga, og svo þeim breytingum sem gerðar eru á tekjustofnalögum og skattalögum vegna samninga við sveitarfélögin.