Tekjustofnar sveitarfélaga

66. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 02:23:11 (3014)


[02:23]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að þetta orð ,,sniðugt`` eigi að vera hól um fjmrh. En nú ætla ég að taka annað mál fyrir sem hv. þm. nefndi í sinni ræðu. Það var að verið væri að flytja mikið af skattheimtu af fyrirtækjunum yfir á einstaklinga. Það er vissulega rétt. En nú skulum við kanna það hvernig kaupmáttur ráðstöfunartekna breytist á milli áranna 1993 og 1994 verði fyrirliggjandi frv. samþykkt.
    Það kemur nefnilega í ljós að kaupmáttur ráðstöfunartekna vegna skattbreytinganna breytist þannig að hann eykst um 0,5%. Með öðrum orðum leiðir skattalækkun ríkisstjórnarinnar núna til þess að kaupmáttur einstaklinganna, en hv. þm. segist bera hag þeirra mjög fyrir brjósti, batnar um hvorki meira né minna en 0,5%. Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi fram en hv. þm. skýldi sér á bak við þetta þegar hann gafst upp á rökum sínum varðandi sína eigin uppfinningu, skrifstofu- og verslunarskattinn.