Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 09:19:55 (3022)


[09:19]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er að sjálfsögðu jákvætt að ríkisstjórnin og meiri hlutinn hefur tekið þessa ákvörðun en í reynd var búið að taka hana þegar það var ákveðið að endurgreiða virðisaukaskatt af almenningsvögnum eins og hér á höfuðborgarsvæðinu. Það gat náttúrlega ekki gengið að mismuna aðilum með þeim hætti eins og til stóð.
    Ég vil taka það fram að ég tel að þessi ákvörðun sé á engan hátt fullnægjandi í þessu máli. Ég ítreka fyrirvara mína í sambandi við virðisaukaskatt og hversu hættulegt það er að Alþingi taki nú þær ákvarðanir sem standa fyrir dyrum og bið menn að hlusta á allar þær aðvaranir sem koma frá fjölmörgum aðilum í landinu, ekki síst fagfólki sem telur að hér sé verið að stórskemma mikilvægasta tekjuöflunarkerfi ríkisins.
    Ég vil jafnframt taka það fram að áfram er haldið á þeirri braut að leggja virðisaukaskatt á mikilvægan þátt ferðaþjónustunnar innan lands, þ.e. gistingin, skattur sem mun koma á á næsta ári án þess að það hafi á nokkurn hátt verið gert ráð fyrir því í verðlagi sem ákveðið er á síðasta ári. Það er ekki hægt að hækka verð á gistingu um þessar mundir því ef það er gert þá mun Ísland eyðileggja sína samkeppnisstöðu á erlendum markaði. Ég vil biðja hæstv. fjmrh. að taka tillit til þessa og hugsa um það vegna þess að ef samkeppnisstaðan er eyðilögð þá munu Íslendingar verða af verulegum gjaldeyristekjum.