Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 09:26:33 (3025)


[09:26]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að ætla að boða fund í nefndinni og jafnframt fyrir framlag hans til slysavarna hér í þessum umræðum en sjálfsagt eru einhverjir því miður sem taka ekkert tillit til óska hans í þeim efnum.
    Varðandi virðisaukaskattinn á gistirýminu skal það tekið fram að fyrir ári síðan voru þessi lög sett. Þá þegar gátu gistihúsin látið skrá sig sem þýðir það að sú fjárfesting, sem hefur átt sér stað í greininni, kemur að sjálfsögðu til frádráttar. Það vandamál sem hv. þm. er hins vegar að nefna hefur verið þrautkannað í fjmrn. Það verður að fara eins með þetta mál núna og þegar virðisaukaskatturinn var tekinn upp almennt. En það vandamál er auðvitað þekkt að ýmis stofnkostnaður, sem efnt hefur verið til, hefur fallið til áður en virðisaukaskatturinn tók gildi og þess vegna kemur stofnkostnaðurinn, þ.e. skatturinn á stofnkostnað, ekki til frádráttar útskattinum. Það er sjálfsagt í dag á fundi nefndarinnar að fara yfir þetta mál en ég bendi á að við stöndum frammi fyrir nákvæmlega sömu vandamálum í þessari grein þegar virðisaukaskatturinn er settur á eins og í öllum greinum fyrir örfáum árum þegar þetta sama gerðist í öðrum greinum. Og það hefur kannski verið tekið meira tillit til þess í þessu máli heldur en í öllum öðrum vegna þess að fyrirtækin höfðu heimild til að skrá sig með árs fyrirvara þannig að hægt væri að taka tillit til stofnkostnaðarins allt þetta ár. Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi fram í umræðunni. En ég skil hv. þm. þannig að hann muni vilja greiða fyrir þessu máli með því að halda fund í nefndinni strax að þessum umræðum loknum en þessar umræður hafa staðið nú þegar alllengi eins og ég veit að hv. þm. geta tekið undir með mér.