Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 09:28:39 (3026)


[09:28]
     Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Fyrst í sambandi við að þessar umræður hafi staðið alllengi. Það er verið að ræða hérna átta lagafrv. í einum bandormi og ég kalla það ekki lengi þó hér hafi staðið framsöguræður fyrir fjórum minnihlutaálitum nefndarinnar í nokkra klukkutíma. Ég fagna því að sjálfsögðu að hæstv. fjmrh. opnar á það að lagfæra þetta mál og við hljótum að taka því tilboði hans að halda þegar fund í efh.- og viðskn. og fara yfir það. Ég bauð reyndar upp á það í minni ræðu og nefndi þá sérstaklega þessa þætti sem hér hefur verið opnað á að gangi til baka. Hitt er svo annað mál að auðvitað hefðum við viljað sjá þar að betur væri tekið til hendinni og menn viðurkenndu það sem hreinlegast væri að þessi skattlagning á ferðaþjónustuna sem heild er mjög misráðin. En við hljótum að viðurkenna að þetta er í rétta átt að fella þó út það sem að mínu mati var allra óréttlátasti hluti hennar sem var sú skattlagning sem átti að standa eftir á öðrum almenningssamgöngum en þeim sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu fyrst og fremst með því að ríkisstjórnin hafði þegar ákveðið endurgreiðslu á þeim. En ég tel að þetta þurfi sem sagt að skoða út frá innbyrðisstöðu einstakra greina ferðaþjónustunnar því þá er auðvitað orðið ljóst að það vakna spurningar um samræmingu í þeim efnum. Það er sjálfsagt mál að taka brtt. til baka nú við 2. umr. og eðlilegt að þær komi síðan fram eftir að ljóst er hver verður endanleg gerð málsins.
    Varðandi það sem hér varð tilefni orðaskipta um endurgreiðslu uppsafnaðs virðisaukaskatts þá minni ég hæstv. fjmrh. á að það er nærtækt að vísa til endurgreiðslna á uppsöfnuðum söluskatti sem var tíðkað í stórum stíl á umliðnum árum til samanburðar gagnvart t.d. stöðu gistingarinnar núna. (Forseti hringir.) Og í raun réttlætismál að hún fái þann hluta að einhverju bættan þó það kunni að vera talsvert flókið útfærsluatriði að ganga frá slíkum reglum.