Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 09:59:42 (3028)


[09:59]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi fsp. hv. þm. vil ég einungis vísa til svars félmrh. sem kom fram í umræðum um tekjustofnafrumvarpið þar sem þetta atriði er til meðferðar og benda á að það sé eðlilegt að nokkuð samræmi sé á milli sveitarfélaga um ákvörðun útsvarsprósentunnar.
    Hv. þm. gerði nokkuð mikið úr því að ríkisstjórnin hlustaði ekki á starfsmenn ríkisins í sambandi við viðhorf til tveggja þrepa virðisaukaskatts. Það er rétt að BSRB og samtök opinberra starfsmanna stóðu ekki að samkomulaginu í vor og hafa haft aðra afstöðu til málsins. Ég skal taka undir það að það hefði verið miklu þægilegra fyrir okkur ef samflot hefði verið í kjarasamningunum, en svo var ekki, og það var ákvörðun BSRB og Kennarasambandsins að bíða til haustsins. En á móti mætti spyrja hv. þm. hvernig á því stendur að þingmenn Framsfl. hlusta ekki á Stéttarsamband bænda, því stjórn Stéttarsambandsins samþykkti sérstaklega að mæla með því að álagning virðisaukaskatts væri í tveimur þrepum og matvæli höfð í því lægra, eins og hv. þm. veit.
    Ég vil loks segja frá því þegar þær umræður fara hér fram um að það sé eðlilegt að við föllum frá breytingum á lögum vegna virðisaukaskatts á fólksflutninga og ferðaskrifstofur, að þá verður það um breytingu á lögum að ræða vegna þess að það er þegar í lögum að þessi skattur skuli upp tekinn og í raun er það svo að ríkisstjórnin stefnir að stórkostlegum skattalækkunum. Þannig að verði þetta mál tafið eða náist ekki fram að ganga fyrir jól þá verður um stórfelldar skattahækkanir að ræða að sjálfu sér.