Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 10:02:10 (3029)


[10:02]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin stefnir að stórfelldum skattalækkunum en bannar sveitarfélögunum að lækka skatta. Ég spyr aftur hæstv. fjmrh., virðulegur forseti, hvaðan í ósköpunum kom þetta inn í þingið, milli umræðna, að banna sveitarfélögunum að lækka útsvar? Hvaða hagsmunaaðilar voru það sem þrýstu á þetta? Ég tek fram að félmrh. vék sér undan að svara þessu í nótt. Hún svaraði engu til um nema því að eðlilegt væri að það væri samræmi milli skattlagningar sveitarfélaga. Það er bara ekkert gefið að það sé eðlilegt. Það er verið að ganga freklega á sjálfstæði og rétt sveitarfélaganna og við hljótum að krefjast þess að fá skýringu á því af hverju í ósköpunum þetta er gert.
    Í öðru lagi varðandi afstöðu Stéttarsambands bænda. Þó hæstv. ráðherra lesi allar flokkssamþykktir Framsfl. þá mun hann hvergi nokkurs staðar finna þar nokkuð sem segir að Framsfl. sé skylt að hafa sömu afstöðu til allra mála og Stéttarsamband bænda.
    Ég er þeirrar skoðunar í þessu máli, virðulegi forseti, að meðan okkur er stætt á því vegna þeirra skuldbindinga sem við höfum gert annars staðar, þá eigum við að haga skattlagningu þannig að hún ívilni innlendri framleiðslu og það er mín stefna og skoðun í þessu máli.