Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 10:05:06 (3031)


[10:05]

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Varðandi afstöðu Framsfl. til skattlagningar á matvæli þá byggjum við þar fyrst og fremst á heilbrigðri skynsemi og því sem skynsamlegt er að gera við þær aðstæður sem við búum við núna og þar held ég reyndar að hæstv. fjmrh. sé okkur framsóknarmönnum algjörlega sammála. Við lokum ekkert á það að sú staða komi upp að það sé best að framkvæma þessa aðgerð, þ.e. lægra verð á matvælum, með því að hafa tvö þrep á virðisaukaskattinum. En við segjum hins vegar að þessi framkvæmd er afar illa undirbúin núna þannig að hún er nánast óframkvæmanleg. Við segjum einnig að við viljum skoða þann möguleika í botn á hvern hátt við getum hyglað innlendri framleiðslu á kostnað þeirrar innfluttu. Það tel ég, eins og aðstæður eru núna, að sé betur gert með endurgreiðsluleiðinni ef hún er rækilega tryggð í lögum.
    Hæstv. fjmrh. sagði að það hefði verið Samband ísl. sveitarfélaga sem kom og fór fram á það að ekki mætti lækka útsvar. Ég vissi reyndar af því að hér var framkvæmdastjóri þeirra samtaka með formanninum, sem er einn af borgarfulltrúum Reykjavíkurborgar. Ég held reyndar, hæstv. ráðherra, að það liggi alveg ljóst fyrir, þó að ráðherrarnir þori ekki að segja það hér úr ræðustól, að ástæðan fyrir þessu sé afar einföld. Hún er sú að Reykjavíkurborg má ekki til þess vita á kosningaári að það komi upp að nágrannasveitarfélag og önnur sveitarfélög lengra í burtu geti lagt á lægra útsvar en Reykjavíkurborg og það afhjúpist þar með að góð fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar á umliðnum árum byggðist ekki á góðum rekstri heldur því að Reykjavíkurborg hafði í gegnum aðstöðugjaldið tækifæri til þess að skattleggja atvinnulífið umfram nokkurt annað sveitarfélag.