Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 10:08:08 (3032)


[10:08]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða geysilega stórt mál, breytingar á átta lögum og ég verð að lýsa því yfir að ég lít ekki svo á að þetta mál sé búið að taka langan tíma, síður en svo. Það hefur hins vegar gerst nokkuð mikið á meðan málið hefur verið í umræðu, fallið hefur verið frá því að hluta að leggja virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna, þ.e. það sem hér hefur áður komið fram, á innanlandsflugið, samgöngumálin sjálf og jafnframt á þjónustu ferðaskrifstofa. Það er hins vegar stórt mál enn þá eftir í ferðaþjónustunni og það er gistingin, eins og einnig hefur komið fram í morgun. Ég vil taka undir það að ég tel að hér sé verið að fremja mikil afglöp ef haldið verður fast við það sem ríkisstjórnin ákvað fyrir tæpu ári síðan, að setja skatt á ferðaþjónustu, og þetta stendur þá enn eftir, eftir þær ákvarðanir sem hér hafa verið teknar.
    Það getur orðið mjög erfitt fyrir bændur sem hafa verið að breyta sínum búskaparháttum með því að fara út í aðrar atvinnugreinar eins og bændagistingu, til þess að reyna að halda búsetu á jörðum sínum og þar að auki eru hótelin þar sem gisting er auðvitað stór hluti af þeirra tekjum. Þau eru mörg hver skuldum vafin og hafa á undanförnum árum tæpast getað staðið undir rekstri án þess að um mikinn halla væri að ræða. Ég hygg að fari svo að ekki takist að breyta þessu ákvæði líka, með því að reyna að leiða mönnum þetta fyrir sjónir, þá horfum við upp á það á næstu mánuðum og e.t.v. ekki fyrr en eftir næsta reikningsár, að þeir sem stjórna hér hótelrekstri og gistiheimilum verði gjaldþrota. Það er auðvitað nokkuð sem á endanum lendir á okkur sjálfum, sem lendir á ríkissjóði og öllum borgurum þessa lands, að standa undir því ef mörg hótel verða gjaldþrota. Það er alla vega verið að gera þeim hér mjög erfitt fyrir með reksturinn og verður ekki til þess að bæta stöðu þeirra.
    Það er líka vert að geta þess, af því að við erum að ræða um ferðaþjónustuna, að þá hefur það komið fram að ferðaþjónustan almennt er sú atvinnugrein sem hefur verið í mestum vexti þegar aðrar undirstöðuatvinnugreinar okkar hafa verið á fallanda fæti, liggur mér við að segja, þ.e. með kvóta í landbúnaði og sjávarútvegi hefur orðið mikill samdráttur þar. En ferðaþjónustan hefur verið vaxandi og mun skila að álitið er um tveimur milljörðum í auknar tekjur á yfirstandandi ári.
    Það hefur líka oft komið hér fram og rétt að minna á það líka, að ferðaþjónustan hefur gefið það út í sínum áætlunum fyrir næstu sjö ár að hún muni geta tekið við fjórða hverjum nýjum einstaklingi sem kemur fram á vinnumarkaðinn til aldamóta. Mér finnst nokkurs um vert að vera meðvitaður um það að hér er þó atvinnugrein sem er í vexti, sem við horfum fram á að geti tekið við nýjum einstaklingum á vinnumarkaði og sem geti skilað þjóðarbúinu auknum tekjum ef vel er að málum staðið.
    Það er þá líka rétt að minna á þær nýjustu fréttir sem nú hafa komið um ástandið í atvinnumálum. Í gærkvöldi voru birtar nýjustu fréttir um það og þær staðfesta að atvinnuleysið fer vaxandi og það er ekki bara tímabundið eftir árstíðum. Það er oft sem atvinnuleysi hefur aukist sérstaklega í desember og hugsanlega í janúar. Nú byrjar þetta atvinnuleysi þegar í nóvember og hefur komið í ljós að í nóvember eru skráðir atvinnuleysisdagar sem svara til 4,7% atvinnuleysis og það hefur aldrei mælst meira í þeim mánuði. Það hefur einnig nær tvöfaldast á sumum svæðum á landinu og ég held ég hafi heyrt það rétt í gær að það væri á Norðurl. v. sem atvinnuleysi á milli mánaðanna október og nóvember hefði nær tvöfaldast, þ.e. vaxið um 90%.
    Það er auðvitað mjög alvarlegt umhugsunarefni að atvinnulausum hafi fjölgað um 40% á einu ári. Það er sú staða sem við stöndum frammi fyrir nú þegar er miður desember og við vitum að janúar og febrúar eru oft erfiðir mánuðir í atvinnulegu tilliti og þeir munu verða margfalt erfiðari nú heldur en nokkru sinni áður. Og á sama tíma finnst mér það skjóta mjög skökku við hjá ábyrgum stjórnvöldum gagnvart þeim atvinnurekstri sem skilar milljörðum í auknar tekjur, sem getur tekið við þó nokkru af nýju vinnuafli á markaðinum, að vera að skattleggja þá atvinnugrein alveg sérstaklega.
    Ég ætla ekki að rekja hér hvert einstakt mál enda hefur það verið gert mjög vel, sérstaklega af nefndarmönnum í efh.- og viðskn. Ég vil bara nota þetta tækifæri til að þakka nefndarmönnum í efh.- og viðskn. fyrir mikla vinnu við þetta frv. og kannski ekki hvað síst að hér skuli vera komin fram fjögur nál. sem sýnir það best hversu mikla vinnu og mikla umhugsun nefndarmenn hafa lagt í að skoða þessi mál. Það verður ekki sagt að þeir hafi ekki gert það mjög vel og rækilega þrátt fyrir það að málið sé seint fram komið, eins og við höfum gagnrýnt áður, --- maður er sífellt að endurtaka það sem maður hefur sagt áður. Það er auðvitað alveg óviðunandi að breytingar í skattamálum skuli koma svona seint fram og eiga að taka gildi eftir nokkra daga. Mér liggur við að segja að það sé algjörlega óviðunandi og ætti ekki að tíðkast hjá siðuðum þjóðum að fara þannig að. Þeir sem þurfa að búa við þessi skattalög sem við hér á Alþingi erum að setja hafa engan tíma til að búa sig undir þetta og það er þá kannski ekki óeðlilegt að eitthvað geti farið úr böndunum.
    Við verðum sem sagt ár eftir ár vitni að slíkum vinnubrögðum og ég verð nú að segja hæstv. ríkisstjórn það til hróss eða afsaka hana kannski öllu heldur, þó það sé ekki í mínum verkahring, að það er víst ekki bundið við þessa einu ríkisstjórn, aðrar ríkisstjórnir á undan hafa víst hagað sér með svipuðum hætti. Ég legg bara áherslu á það að ég tel að þetta séu vinnubrögð sem ekki eigi að viðgangast hér, hver sem í hlut á.
    Síðan kemur það líka, sem kemur einmitt fram í því þegar við erum að ræða þessa skattalagabreytingar, að með þeim fylgir að framlengt er ákveðið löggjafarvald til ráðherra, sem eiga svo eftir að gefa út reglugerðir samkvæmt þessum lögum. Það hefur einnig oft gerst og er heldur ekki bundið við þessa ríkisstjórn, að ráðherrar fari frjálslega með þetta reglugerðarvald og jafnvel að í reglugerðum komi fram ákvarðanir um framkvæmd laga sem ekki voru ræddar í tengslum við lagasetninguna sjálfa. Það er e.t.v. nærtækast að vísa í lög um Lánasjóð ísl. námsmanna sem samþykkt voru fyrir tveimur árum síðan, þar sem reglugerðum hefur verið breytt árlega þrátt fyrir að engar breytingar hafi verið gerðar á lögunum. Þá hefur það framkvæmdarvald sem þar á í hlut tekið sér það vald að gera ýmsar breytingar á útfærslu þeirra laga án þess að það komi til kasta Alþingis að fjalla um það. Það væri því einnig til bóta í vinnubrögðum hér á Alþingi að reglugerðir væru kynntar um leið og lög eru samþykkt eða lögum er breytt, þannig að hv. alþm. fái að sjá hvernig framkvæmdarvaldið hyggst útfæra þau lög sem þar er verið að samþykkja.
    Hér á Alþingi og raunar úti í þjóðfélaginu eru uppi margar skoðanir um það hvort lækka eigi virðisaukaskatt á matvælum og hvort yfirleitt eigi að taka upp tvö skattþrep í virðisaukaskatti. Það kristallast síðan í afgreiðslu nefndarmanna í hv. efh.- og viðskn. Þar hafa menn legið yfir þessum tölum og reiknað og reiknað fram og til baka, tekið á því hverju þetta skili láglaunafólkinu, hvernig þetta skili sér í verðlagi og hvernig framkvæma eigi skatteftirlitið. Þetta eru í raun nokkrir aðskildir þættir.
    Ef ég tek það fyrst að hér er um það ræða að lögbinda þessa aðgerð í tengslum við kjarasamninga sem gerðir voru í maí í vor þá hefur það verið viðtekin venja að hér á Alþingi hefur verið staðfest það samkomulag sem náðst hefur með kjarasamningum og ríkisstjórn á hverjum tíma hefur lofað að beita sér fyrir til að þeir kjarasamningar næðust. Hins vegar er mjög óeðlilegt að nokkur ríkisstjórn geti lofað því að breyta skattalögum án þess að Alþingi sé kallað saman, án þess að nokkur umfjöllun fari fram um málið og það þegar störfum Alþingis hefur verið breytt í þá veru að það starfar nú allt árið og hægt að kalla það saman með stuttum fyrirvara. Það hefur hins vegar gefist nægur tími til þess hvað ríkisstjórnina varðar ef hún gefur sér að þetta sé orðið að lögum um leið og hún lofar því í kjarasamningum að koma þessu máli frá sér. Henni hefur gefist nægur tími til þess. Þessir kjarasamningar voru gerðir í lok apríl og byrjun maí í vor.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur gefist nægur tími til að leggja þetta mál fram á Alþingi, vinna það og undirbúa framkvæmdina með reglugerðum. Þar hafa ráðherrar hins vegar ekki unnið heimavinnuna í þessu máli frekar en mörgum öðrum og nú á haustdögum upphófst ágreiningur milli stjórnarflokkanna um einmitt það hvort lækka ætti virðisaukaskatt á matvæli, hvort taka ætti upp tvö þrep, hvort það skilaði því sem til væri ætlast í kjarasamningum, að bæta kjör láglaunafólksins.
    Hæstv. viðskrh. lætur ekki einu sinni svo lítið að heiðra okkur með nærveru sinni. Það gerir hins vegar hæstv. fjmrh. og verður að telja honum til hróss hversu iðinn hann er að sitja og hlusta á þau mál sem snerta hans málaflokk. En ég tel að þetta mál snerti ekki síður hæstv. viðskrh. og óska eftir því að hann verði hér viðstaddur. Mér skilst að eftir þær yfirlýsingar sem hann og fleiri alþýðuflokksmenn gáfu á haustdögum ætli þeir að éta það allt ofan í sig í væntanlegri atkvæðagreiðslu og greiða atkvæði með lækkun virðisaukaskattsins þrátt fyrir að þeir hafi haft hátt um hversu vitlaus og ómögulegur hann væri.
    Mín skoðun er að hvað það varðar að jafna kjör launafólks er ég ekki viss um að akkúrat þessi aðgerð sé best til þess. Ýmsar aðrar aðgerðir hefðu verið fullt eins góðar og sumar betri, t.d. að niðurgreiða nauðsynlegustu vörur. En að lækka virðisaukaskatt á matvæli er stór áfangi í að lækka þann kostnaðarlið heimilanna. Það er í dag einn stærsti póstur láglaunafólks að kaupa í matinn ásamt húsnæðiskostnaði. Það kemur öllum heimilum til góða og ekki síst láglaunafólkinu. Og líka barnmörgum fjölskyldum sem

greiða stærstan hluta tekna sinna í mat.
    Þegar tekinn var upp söluskattur á matvæli börðust kvennalistakonur hatrammlega á móti því. Við höfum alltaf haldið því fram að matarskattinn ætti að afnema með öllu. Matarskatturinn svonefndi hélst síðan þegar upp var tekinn virðisaukaskattur í stað söluskatts. Menn muna það e.t.v. ekki en virðisaukaskatturinn átti að vera svo miklu betri og réttlátari skattur, betra að hafa eftirlit með innheimtunni, engar undanþágur áttu að vera, eitt skattþrep átti að vera o.s.frv. Ég man mjög vel eftir ummælum og öllu því sem hæstv. formaður Alþfl. og núv. utanrrh. hélt fram um það mál en þá var hann fjmrh.
    En lögin um virðisaukaskattinn héldu ekki lengi frekar en önnur skattalög hér á landi. Strax var tekið til við að gera undanþágur og endurgeiða síðan huta af virðisaukanum í vöruverði samanber nokkrar landbúnaðarvörur. Um síðustu áramót var svo tekinn upp 14% virðisaukaskattur á húshitun. Því gleyma menn stundum í þessari umræðu að 14% virðisaukaskattur er kominn á. Hann var tekinn upp um síðustu áramót á húshitun. Hann var tekinn upp 1. júlí sl. á bækur, blöð og afnotagjöld útvarps og sjónvarps.
    Hvað varðar húshitun, sem nú er komin u.þ.b. ársreynsla á var líka tekin sú ákvörðun að endurgreiða hluta af virðisaukaskatti til orkufyrirtækjanna til að jafna út þennan kostnað þannig að að hver notandi greiddi sömu krónutölu um allt land í þessum hækkunum. Þetta var auðvitað ákveðin jöfnunaraðgerð og mátti fagna í sjálfu sér. En hvernig skyldi þetta vera útfært? Það er útfært á þann hátt að það er, eins og ég sagði, endurgreitt að hluta til orkufyrirtækjanna en sú prósenta sem greidd er til baka aftur af þessum 14% virðisaukaskatti er hvergi sú sama á öllu landinu. Hún er 5,32% hjá Orkubúi Vestfjarða og hún er bæði hærri og lægri hjá hinum ýmsu hitaveitum úti um allt land. Þar er því ansi skrautleg flóra á ferðinni.
    Eins og ég sagði áðan var þann 1. júlí lagður m.a. 14% virðisaukaskattur á bækur, blöð og tímarit. Bókaverslanir hafa núna í sex mánuði þurft að vera með í sölu vörur sem eru í fyrsta lagi virðisaukaskattsfrjálsar t.d. orðabækur, vörur með 14% virðisaukaskatti og aðrar með 24,5% virðisaukaskatti. Það hefur mjög lítið heyrst talað um að þetta væri erfitt og óframkvæmanlegt og kallaði á skattsvik o.s.frv. Starfsfólk í bókabúð sem ég hafði samband við fyrir nokkrum dögum taldi þetta ekki mjög mikið mál. En nú fer allt kerfið í gang og nú á þetta allt í einu að vera liggur við óframkvæmanlegt ef um matvöru er að ræða.
    Ég spurði að gamni mínu að því í gærkvöldi í einni matvöruverslun hvort þar væru ekki farið að undirbúa 14% virðisaukaskattinn. Nei, það var ekki byrjað vegna þess að engar reglugerðir eru komnar fram um hvernig á að útfæra hann, hvaða vörutegundir nákvæmlega er hér um að ræða o.s.frv. En eigandinn svaraði ósköp rólega: ,,Þetta kemur náttúrlega og þá byrjum við að vinna í þessu á milli jóla og nýárs þegar traffíkin er búin.`` Það geta vissulega orðið byrjunarörðugleikar. Þeir verða alltaf þegar verið er að breyta ekki hvað síst jafnstóru máli og virðisaukaskattinum. Og núna stendur fyrst og fremst á skattayfirvöldum að útbúa lista yfir þetta. En ég tel að það sé vel hægt.
    Í þriðja lagi er svo eftirlitið með framkvæmdinni. Það þarf að breyta eyðublöðum og það kostar sitt en mér þætti líka gaman að fá að vita hvað allur sparnaðurinn í heilbrigðiskerfinu í formi breyttra regla og breyttra reikningsforma kostar hinn almenna borgara og hefur kostað ríkissjóð. Höfum við nokkurs staðar séð það? Höfum við nokkurs staðar séð í fjárlögum eða í útfærslu hvað allar þær breytingar í heilbrigðiskerfinu sem hafa átt sér stað á síðustu tveimur árum hafa kostað? Það er búið að gefa út ótal eyðublöð þar. Það er búið að gefa út vottorð og ég veit ekki hvað og hvað. Það átti að gefa út heilsukort sem reyndar er hætt við núna. Kostnaðurinn við það átti að verða 30--40 millj. kr. Hvað hefur kostað að gefa út alla upplýsingabæklingana frá Tryggingastofnun ríkisins um breytta bótatilhögun og hver er kostnaðurinn við upplýsingabækling LÍN um breytt lög og breyttar reglur sem breytt er árlega? Stjórnvöld eru sí og æ að breyta lögum og reglum. Og allar þessar breytingar kalla á kostnaðarauka. Þess vegna segi ég það að kostnaður við breytingar á virðisaukaskattsprósentunni er sennilega ekki meiri en margt annað sem búið er að gera algerlega út í loftið.
    Hvað þá fullyrðingu varðar að eftirlitið verði mun erfiðara þegar tvö skattþrep eru þá kallar það á eitthvað meiri vinnu sérstaklega í fyrstu. En hafa menn ekki verið að tala um meira og hertara eftirlit í skattamálum áður en þessi breyting kom til? Og er ekki full þörf á því að það eftirlit sé virkara? Það þarf líka að skoða hvort það hefur orðið til lækkunar á vöruverði að nú þurfa fyrirtækin ekki að greiða aðstöðugjald. Það er búið að létta því af þeim. Ég hef ekki orðið vör við það enn þá að það hafi komið fram í vöruverðinu. Það er full ástæða til að fara að fylgja því eftir. Þau ættu að geta lækkað álagningarprósentuna sem þessu nemur.
    Ég tel það ekki óyfirstíganlegt að fylgja því eftirliti eftir sem leiðir af lækkun virðisaukaskatts og tveimur þrepum. Við horfum upp á það í löndunum í kringum okkur að það eru víðast hvar tvö skattþrep í virðisaukaskatti þar sem matvara og nauðsynjavörur eru í lægra þrepi. Hins vegar, og á það vil ég leggja sérstaka áherslu, hefði ég gjarnan viljað sjá það verða að veruleika að matarskatturinn væri algjörlega afnuminn. Þess vegna lít ég á þessa lækkun sem nú er verið að gera á nauðsynjavörum niður í 14% sem áfanga að því marki.
    Það hefði verið mun skynsamlegra að lækka ákveðnar vörutegundir í núll-skatt en að taka upp tvö þrep. En það er ekki verið að byrja á þessum tveimur þrepum núna. Það er ár síðan það var gert. Og það var ríkisstjórnin sem reið á vaðið með þær breytingar. Hún hefur sennilega ekki hugsað dæmið til enda þar

sem hefur líka komið í ljós í sambandi við að leggja 14% virðisaukaskatt á ferðaþjónustu þar sem nú hefur verið bakkað með það enda útfærslan á því mjög miklum erfiðleikum háð. Ég ætla ekki að lengja mál mitt með að fara út í það. Það hafa nógu margir gert á undan mér. Ég ræddi raunar mjög um þann skatt við 2. umr. um fjárlög og hvernig hann gæti komið út mismunandi hjá hinum ýmsu fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Það mál hefur verið kynnt rækilega fyrir þingmönnum.
    Hvað varðar tillögur 2. minni hluta um frv. til laga um breytingar í skattamálum þá tel ég margt ágætt í þeim. Ég vil nefna það að koma á fjármagnseignaskatti sem einu sinni enn hefur reynst óframkvæmanlegt að því er ríkisstjórnin hæstv. tilkynnir. Það er mikil lifandis skelfing hvað það er erfitt mál að koma á fjármagnstekjuskatti á Íslandi. Það virðist vera svo margfalt erfiðara en í öllum öðrum löndum sem maður hefur spurnir af.
    Í nál. 2. minni hluta efh.- og viðskn. benda þeir á að leggja á fjármagnseignaskatt, sem er raunar ekki vaxtaskattur sem einnig hefur verið rætt um og ríkisstjórnin hefur lofað að koma á en fjármagnseignaskattur er líka spor í þá átt að eignir hér á landi séu skattlagðar á eðlilegan hátt. Þær séu skattlagðar sambærilega og ekki aðeins fasteignir heldur séu fjármagnseignir einnig skattlagðar. Tillögurnar ganga út á að barnabætur séu hækkaðar og dregið úr skerðingu vaxtabóta. Hins vegar finnst mér sú hugmynd þeirra að lækka virðisaukaskattinn um 1,5% sé of lítil breyting. Ég held að það muni mjög lítið um það í innkaupum nauðsynjavara. Og eins og ég sagði áðan hef ég heldur séð að útfærð væri hugmyndin um að virðisaukaskattur væri algjörlega felldur niður á ákveðnum tegundum matvöru.
    Það er endalaust hægt að velta fyrir sér ýmsum útfærslum á þessum hugmyndum um lækkun virðisaukaskatts. Efh.- og viðskn. hefur gert það rækilega og skilar hér fjórum útfærslum og nál. með því. Ég ætla ekki að bæta frekar við það úr þessum ræðustól eða lengja umræður um það mál. Ég vil að það komi skýrt fram að lækkun virðisaukaskatts á matvæli sé áfangi að því markmiði að fella hann algerlega niður, ekki aðeins að lækka hann niður í 14% heldur fella algerlega niður matarskattinn. Það má hins vegar gagnrýna það hvernig þetta mál hefur komið hér inn í þingið. Ég geri mér fullkomlega ljóst að það eru ýmsir annmarkar á þeirri framkvæmd, eins og ég hef lýst, en þeir eru ekki óyfirstíganlegir og best væri að sem fyrst yrði ákveðið að lækka matarskattinn í núll-skatt. Þá komast menn fram hjá þeim erfiðleikum sem hér er verið að tala um.
    Ég ætla að nefna að lokum, virðulegur forseti, vaxtabæturnar sem á að fara að skerða umtalsvert. Til þess að vera ekki sífellt að finna upp hjólið að nýju þá ætla ég að vitna í umsögn um frv. þar sem tekið er sérstaklega á þessari breytingu um vaxtabætur í áliti frá ASÍ, sem dagsett er 7. des. Útreikningur vaxtabóta er flókið dæmi og menn hafa kannski ekki mjög mikið verið að reyna að setja sig inn í það mál en í áliti ASÍ segir, með leyfi forseta:
    ,,Verulegar breytingar eru fyrirhugaðar á útreikningi vaxtabóta í þessu lagafrv. Hér er um grundvallarbreytingar á kerfinu að ræða sem margar hverjar eru duldar í tæknilegri útfærslu kerfisins án þess að um þær sé fjallað í athugasemdum með frv. Vegna umfangs breytinganna er afar erfitt að átta sig á endanlegum áhrifum þess. Í fyrsta lagi verður að líta til þess kerfis sem fyrir er og hvaða áhrif þessar breytingar hafa á kjör fólks. Í öðru lagi verður að líta á þessa nýju tilhögun án tillits til þess fortíðarvanda sem er í kerfinu.``
    Í lagafrv. er gert ráð fyrir að gjaldfallnir vextir og gjaldfallnar verðbætur á afborgun og vexti ásamt afföllum og lántökukostnaði myndi stofn til útreiknings vaxtabóta. Hins vegar er hér í þessum breytingum verið að þrengja þetta þannig að nú munu dráttarvextir og vanskilakostnaður ekki lengur mynda stofn til útreiknings vaxtabóta. Þeir sem standa frammi fyrir því að geta ekki greitt sínar áföllnu afborganir og safna þar af leiðandi upp dráttarvöxtum og ýmsum vanskilakostnaði fá það á engan hátt metið þegar útreikningur vaxtabóta fer fram. Sem dæmi er tekið að raunverulegir vextir lántakanda séu 7%, vegna þess að nú á útreikningur vaxtabóta að miðast við 7% af uppreiknuðum skuldum sem er einnig nokkur breyting frá því sem áður hefur verið. Ef þetta gengur eftir mun hámarkið leiða til þess að gjaldfallnar verðbætur vegna þessarar afborgunar koma ekki til með að mynda stofn til greiðslu vaxtabóta. Þetta er líka grundvallarbreyting frá fyrra kerfi.
    Raunverulegir vextir eru hins vegar oft hærri en sem nemur þessum 7% og gildir það sjálfsagt fyrir stóran hóp fólks, ekki síst þann hóp sem hefur tekið lán í húsbréfakerfinu. Sá hópur hefur e.t.v. ekki fengið greiddar út nema, eins og hér var rakið í gær held ég, 3 millj. kr. af 4 millj. kr. láni því afföll hafa verið það mikil. Fólk hefur þurft eftir sem áður að standa skil á afborgunum og vöxtum af 4 millj. kr. Þar verða því allir vextir ef allt er reiknað með, lántökukostnaður, afföll og þess háttar, að sjálfsögðu miklu meira en 7% af uppreiknuðum skuldum. Það er líklega a.m.k. 15--20%. Í þessu felst sú grundvallarbreyting að nú er miðað við þessar uppreiknuðu skuldir og ekki notað nema 7% af þeim til útreiknings vaxtabóta.
    Það er einnig verið að kynna hér þá breytingu að ákvæði verði um að hætta að viðurkenna gjaldfallnar verðbætur vegna afborgunar. Nú vitum við það að á undanförnum árum höfum við búið við verðtryggingu. Við höfum búið við þannig verðtryggingu að vextir hafa ekki sagt alla stöðuna heldur eru raunvextir það sem upp kemur þegar búið er að skoða bæði vexti og verðtryggingu. Ef ekki á lengur að viðurkenna verðtryggingu eða verðbæturnar sem hluta af vöxtum þá er illa komið fyrir mörgum þeim sem eru með verðtryggð lán þar sem verðbæturnar eru stór hluti af vöxtunum.

    Þar er enn einu sinni verið að raska því sem fólk hefur reiknað með þegar það gerir sínar framtíðaráætlanir. Það reiknar með því að það geti átt von á ákveðnum vaxtabótum út á þau lán sem það er að taka til að standa undir því að kaupa húsnæði. Þegar fólk gerir sínar áætlanir, ekki hvað síst við húsnæðiskaup, þá reynir allt venjulegt fólk að gera áætlanir um hvernig það ætli að standa við afborganir og vexti og það reiknar með því sem í gildi er þegar það er að taka sínar ákvarðanir. Það skoðar þau lög og reglur sem í gildi eru og reiknar með þeim. Það er líka vert að leggja áherslu á að bankar, sparisjóðir og aðrar lánastofnanir taka líka mið af þessu og veita fólki lán samkvæmt því sem þá er í gildi. Svo breyta stjórnvöld ári seinna öllum forsendum sem notaðar voru við að kaupa það húsnæði sem um ræðir. Það getur meira að segja verið svo að lánastofnanir, Húsnæðisstofnun og bankarnir, hafi í greiðslumati tekið mið af því hvernig ástandið var þegar viðkomandi umsækjandi var að sækja um lánið og jafnvel beinlínis hvatt til lántöku á þeim forsendum sem þá giltu.
    Það er alveg ljóst að þetta nýja fyrirkomulag sem hér er verið að kynna á greiðslu vaxtabóta mun valda mestri skerðingu á lægstu lánunum en því sem næst engri skerðingu á mjög háum lánum. Nú veit ég að þeir sem eru að kaupa litlar íbúðir hafa lágar tekjur. Þeir geta að sjálfsögðu ekki tekið mjög há lán, þ.e. þeir taka kannski 3 millj. kr. lán, en þeir sem hafa góðar tekjur geta fengið greiðslumat upp á 6 millj. kr. lán. En þeir sem taka minnstu lánin verða fyrir mestri skerðingu en þeir sem eru með hæstu lánin fá minnsta skerðingu. Þetta ákveðna atriði er því ekki til þess að bæta hag hinna lægst launuðu.
    Virðulegi forseti. Ég hef í máli mínu um skattalagafrumvarpið ákveðið að taka ekki fyrir nema þessi tvö atriði sérstaklega, virðisaukaskattinn og vaxtabæturnar. Ég tel að í umræðum hafi menn, sérstaklega þeir sem höfðu framsögu fyrir nál., kynnt mjög vel hinar ýmsu greinar og hinar ýmsu skoðanir á þessum málum.
    Ég sé að hæstv. fjmrh. er mjög ánægður með það að ég skuli ekki ætla að taka meira fyrir. Ég vil að lokum beina þeirri spurningu til hans hvort ríkisstjórnin sé ekki að hugsa um að skoða það betur hvort ekki ætti að fella algjörlega út virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Á þessa atvinnugrein sem er í örum vexti, skilar vaxandi tekjum inn í þjóðarbúið, sem munu nálgast a.m.k. 2 milljarða í auknum tekjum á yfirstandandi ári, og mun taka í vaxandi mæli við nýjum einstaklingum á vinnumarkaðinum. Hvað annað þurfum við? Eða er það ekki eitt af því nauðsynlegasta sem við þurfum að hugsa um á næstu mánuðum og árum þó vonandi batni atvinnuástandið síðar? Það væru mikil mistök hjá hæstv. ríkisstjórn að halda fast við þennan skatt og skattleggja sérstaklega þá atvinnugrein sem er í stakk búin til að taka á þeim vandamálum sem við erum að fást við.