Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 10:52:43 (3036)


[10:52]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ágætt til þess að vita að afnám aðstöðugjaldsins hafi skilað sér í verðlagi. Mun ekki af veita því þó að lítils háttar breyting yrði á kaupmætti ráðstöfunartekna vil ég einnig minna á það að kaupmátturinn hefur hrapað alveg geysilega síðustu ár. Hann hefur hrapað um 20% á einum þremur til fjórum árum eða frá árinu 1989. Það er alveg geysileg afturför í þjóðfélaginu hversu kaupmátturinn hefur hrapað. Ég hygg að þó umdeilanlegt sé hvort lækkun virðisaukaskatts á matvæli skili akkúrat því sem ASÍ ætlaðist til þá held ég að hún komi öllum til góða. Lækkunin kemur öllum heimilum til góða, hún kemur atvinnulausum til góða, hún kemur eldri borgurum til góða og ég hygg að það muni vel vera hægt að útfæra þessa breytingu hjá okkur á Íslandi eins og í öðrum löndum.