Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 10:54:04 (3037)


[10:54]
     Jón Helgason :
    Herra forseti. Hæstv. fjmrh. vék að því síðast í andsvari við hv. þm. Kvennalistans, hv. 6. þm. Vestf., að Framsfl. fylgdi ekki stefnu sinni í söluskattsmálinu og væri í andstöðu við Stéttarsamband bænda. Ég vil í því sambandi leggja áherslu á nokkur atriði.
    Í fyrsta lagi þegar farið var að skoða þetta frv. og þennan málatilbúnað hæstv. ríkisstjórnar, m.a. í nefndastarfi á Alþingi, kom í ljós að undirbúningurinn var svo slæmur að þar má segja að sé algjört öngþveiti eins og hefur komið fram í málflutningi þeirra sem um þetta hafa rætt á undan mér. Það væri því algjört ábyrgðarleysi hversu mikinn áhuga og mikið kapp sem Framsfl. legði á að koma þessari skipan á að fara af stað með það við slíkar kringumstæður. En það virðist ekki vera að það skipti hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstjórn og fylgismenn hennar á Alþingi nokkurn skapaðan hlut þó að þessi staðreynd blasi við öllum og fulltrúar þeirra viðurkenna það alveg opinskátt að þannig sé málinu varið.
    Af þeim sökum er með brtt. 2. minni hluta efh.- og viðskn., sem Framsfl. og fulltrúi Kvennalistans standa að, gert ráð fyrir því að þessu máli sé frestað með bráðabirgðaákvæði og tóm gefist til að skoða þetta betur og undirbúa það þannig að eitthvert vit sé í framkvæmdinni.
    Í þriðja lagi, og það vil ég leggja mikla áherslu á, er í 10. liður brtt., sem er brtt. við 28. gr. frv., lögbundið lægra skattþrep á öllum íslenskum matvælum, en hins vegar haft það form á að þar sé um endurgreiðslu að ræða. Það er kerfi sem er nú til og því tiltölulega auðvelt að koma því á og meira að segja samræma það þannig að það verði betra en það er nú með því að lögbinda það og samræma. Þannig er samkvæmt tillögu 2. minni hluta efh.- og viðskn., tillögur framsóknarmanna og fulltrúa Kvennalista, verið að lögfesta tveggja þrepa virðisaukaskatt með endurgreiðslu þar sem öll íslensk matvæli eru í lægra skattþrepi sem er 14%.
    Það hefur komið fram, m.a. frá Stéttarsambandi bænda, fulltrúum ASÍ og fleiri, að ekki sé gott að hafa þetta svona því þarna sé ekki um varanlega skipun að ræða. En ég minnist þess að fyrir u.þ.b. þremur árum var ég staddur í Norræna húsinu á samkomu bókaútgefenda. Þar voru bókaútgefendur að fagna því að virðisaukaskattur yrði ekki lengur á bókum. Þar voru fulltrúar allra stjórnmálaflokkar að taka við sérstakri viðurkenningu frá bókaútgefendum fyrir það að þessi skipan yrði til frambúðar og varanleg. Mig minnir helst að það hafi verið þáv. þingflokksformaður Sjálfstfl., Ólafur G. Einarsson, þó skal ég ekki fullyrða það hvort það var einhver annar, sem veitti viðurkenningu þessari móttöku fyrir hönd Sjálfstfl. En hvað gerist? Við vitum það öll að nú er aftur kominn virðisaukaskattur á bækur. Var það varanleg aðgerð, afnám virðisaukaskatts á bókum þó með lögum væri gerð? Ég get ekki séð það. Það er því miður svo að öllu er hægt að breyta með lögum og reynslan sýnir að hlutunum er breytt fljótt með lögum og þar er því miður fátt heilagt, þó að menn lofi einhverju. Því er það mikil blekking að halda því fram að þarna sé varanleg trygging þó með þessari skipan sé.
    Ég sagði að hér væri verið að lögbinda tveggja þrepa virðisaukaskatt þar sem íslensk matvæli væru í reynd með 14% skatt. En mér fundust athyglisverð orð hv. 18. þm. Reykv. áðan þar sem hún lét í ljós þá skoðun sína að hún sæi ekki rök fyrir því eða vildi endilega styðja að innfluttur pakkamatur væri með 14% virðisaukaskatti en ekki 23% eins og 2. minni hluti leggur til að verði. Í því sambandi datt mér í hug sjónvarpsviðtal sem ég fékk skrifað út og þýtt eða umræðuþáttur úr sænska sjónvarpinu frá 5. október sl. Vegna þess að nú er líka til meðferðar á Alþingi frv. sem afnemur magntakmarkanir á innfluttum búvörum, þannig að þær eiga að verða frjálsar vegna EES-samnings og GATT, langar mig að rifja upp eða rekja fáein atriði úr þessu sjónvarpsviðtali um þann mat sem hér er í boði. Í inngangi stjórnanda þessa sænska sjónvarpsþáttar segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það gerist bráðlega, eftir tvo eða þrjá mánuði, að EES-samningurinn gengur í gildi. EES, þessi skrýtna skammstöfun sem fundin var upp til að rugla almenning í ríminu, er stærsti alþjóðasamningur sem Svíþjóð hefur nokkru sinni gerst aðili að. Hann er að sögn að 4 / 5 ígildi aðildar að Evrópubandalaginu. Þessu var rennt í gegnum þingið án umtalsverðrar umræðu og ekki hvað síst án þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þýðir að fjöldinn allur af lögum og reglum Evrópubandalagsins verða allt í einu sænsk lög, umræðulaust, án þess að margir þeirra sem málið snertir viti hvað það í raun og veru fjallar um. Í kvöld ætlum við aðeins að líta nánar á það sem við látum upp í okkur, þ.e. mat og drykk.``
    Og síðar segir þulurinn, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,EES-samningurinn sem brátt tekur gildi tekur eiginlega ekki til landbúnaðarmála, matvæla eða fiskveiða, en hann hefur þrátt fyrir það fjölmargar breytingar í för með sér. Ef við höldum okkur við það sem við látum upp í okkur, þá verður að merkja ýmislegt upp á nýtt. Sultan verður að innihalda a.m.k. 45% sætu sem ekki tíðkast hér í Svíþjóð. Við getum kannski vanið okkur við þetta svo það er ekki alvarlegt. Hins vegar eru margir Svíar haldnir ofnæmi af einhverju tagi og þeim fer fjölgandi. Það sem þeir óttast mest eru svokallaðar samsettar vörur. Hér er ein slík, jógúrt með ávöxtum eða sultu. Samkvæmt sænskum reglum verður að geta innihalds þess sem bætt er í dósina, fyrir utan jógúrtina, ef það er yfir 5% að magni. Hvað er t.d. í sultunni? Samkvæmt reglum EES getur 25%, fjórðungur af innihaldi dósarinnar, verið eitthvað sem ekki þarf að geta um í innihaldslýsingu. Ofnæmissjúklingar eru dauðhræddir. Þeir verða að vera á varðbergi. EES-samningurinn gengur bráðlega í gildi.``
    Og áfram heldur, með leyfi hæstv. forseta, með mynd frá eldhúsi:
    ,,Þeir sem eru hér í eldhúsinu eru með ofnæmi. Fyrir þá getur maturinn verið lífshættulegur, þ.e. ef þeim verða á mistök og þeir fá í sig eitthvað sem þeir þola ekki. Við vildum bjóða þeim upp á matvæli eins og þau koma til með að verða eftir að EES-samningurinn tekur gildi. Þá þarf ekki að geta á umbúðum alls þess sem er í matnum. Við tókum okkur því penna í hönd og merktum við það sem verður ósýnilegt, t.d. í kartöflusalati. Svo buðum við einum ofæmissjúklinganna að bragða á því. En hann svarar: Nei takk, ég sleppi því. Og hvers vegna? Ég verð veik, ég fæ mígreni, nefnið stíflast, fæ nefrennsli og magaverk. Ég vil ekki fá það heldur sleppi ég að borða. En hvernig er hægt að vita hvað er í dósinni? Jú, sjúklingurinn verður að prófa sig áfram og sjá hvort hann veikist. Hann verður að veikjast til þess að sjá hvað hann þolir, hann hefur ekki aðra möguleika.``
    Og kvenþulurinn segir að sjúklingunum finnist bæði stjórmálamenn og matvælastofnunin sænska hafa brugðist þeim í samningum við Evrópubandalagið því að ekki er tekið tillit til þeirrar lífshættu sem ofnæmissjúklingar eru stöðugt í.
    Ég vil því spyrja: Er það andstætt hagsmunum íslenskra neytenda að það sé hærri virðisaukaskattur á vöru sem þannig er lýst? Ég get ekki skilið það. Og enn þá síður skil ég að það sé andstætt hagsmunum íslenskra bænda að það sé hærri virðisaukaskattur á slíkri vöru.
    Síðar í þessu viðtali fer stjórnandinn og fleiri með honum í ferðalag til nokkurra Evrópubandalagslanda og sem formála að því segir þulurinn, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það mætti halda að best væri að halda sig við hreinar náttúruafurðir, t.d. hreint kjöt án aukefna, en þar eru einnig mörg vandamál á ferðinni. Við höfum ekki flutt inn kjöt frá Evrópubandalaginu vegna sjúkdóma í dýrum þar og þá að sjálfsögðu einnig í kjöti þeirra. Þetta á við um salmonellu, sérstaklega í grísum og kjúklingum, og gin- og klaufaveiki í nautgripum. EB á hins vegar heilmikið kjötfjall þannig að

þeir gátu ekki beðið þangað til EES-samningurinn tekur gildi. En eins og skepnuhaldi er háttað í Evrópu, koma ný og óvænt vandamál í ljós. Það er ætlunin að flutningur verði frjáls og óhindraður á öllum vörum, einnig á matvælum og þeir sem til þekkja vita hvaða dýr það eru sem geta lent síðar á diskum neytenda.``
    Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það sem við finnum eru kýr og grísir á lyfjum. Gyltan er föst, hún er keðjuð við gólfið. Hún getur ekki gengið um og skoðað afkvæmin. Hún getur ekki rótað með trýninu, það vilja svín. Það er þeim eðlislægt og þeim líður illa geti þau það ekki. Svínin fá ekki að haga sér eins og þeim er tamt. Þau verða stressuð og hafa enga ónæmisvörn. Ef gyltan hefur enga ónæmisvörn er hana ekki að finna í mjólkinni sem grísinn fær og því verður hér að gefa fúkkalyf.``
    Og vegna þessarar meðferðar er grísunum lýst þannig, að lungun eyðileggist eftir 5--6 mánuði við slíka meðferð. Þá eru lungu gríssins sundurtærð og þá verður að nota fúkkalyf.
    Og áfram segir þulurinn: ,,Nýir og einkennilegir sjúkdómar koma einnig stöðugt fram. Á þessum bæ hafa grísirnir fengið nýjan dularfullan sjúkdóm sem kallaður er blá eyru. Þetta gerist þrátt fyrir mikla notkun fúkkalyfja eða vegna hennar. Bakteríurnar verða þolnar, það verður að nota æ stærri skammta eða aðrar tegundir fúkkalyfja og bráðum verða ekki fleiri tegundir til að grípa til og ekki er hægt að pumpa grísina fulla með fúkkalyfjum eins og blöðru. Ef við getum ekki stoppað þetta tímanlega held ég að það endi með því að mannkynið missi úr höndum sér mikilvægustu lyfjategundina, fúkkalyfin. Með þeim höfum við læknað þá smitsjúkdóma sem menn dóu úr á unga aldri hér áður fyrr. Það voru fúkkalyfin sem björguðu okkur. Nú erum við á góðri leið með að eyðileggja þessi lyf til þess að fá ódýrt svínakjöt.``
    Er það andstætt hagsmunum íslenskra neytenda að það sé eitthvað hærri virðisaukaskattur á vöru sem þannig er lýst og er það andstætt hagsmunum íslenskra bænda að skatturinn sé hærri? Ég á erfitt með að finna rök fyrir því.
    En áfram heldur lýsingin á þessari vöru sem nú er verið að opna fyrir hér með afnámi magntakmarkana og lýst undrun yfir því að Framsfl. vilji ekki á stundinni setja lægri virðisaukaskatt á þessar vörur. Áfram segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þessi skrýtna kýr er oft meðhöndluð eins og vaxtaræktarmaður. Hún er á lyfjum, vaxtarhormónum. Og alveg eins og hjá vaxtaræktarmönnum og íþróttafólki er það ólöglegt en mjög arðbært og hættulegt. Það má segja sem svo að íþróttamaður geti kennt sér sjálfum um ef hann dælir í sig efnum til þess að verða fljótari og sterkari en veikist af því. En þegar hormónum er dælt í dýrin bitnar það á okkur, saklausum kjötætum og það er verra. Bóndinn hér segir að sjálfsögðu að hann gefi dýrunum enga hormóna, það segja þeir allir. En merkilegt nokk er nákvæmlega vitað hvernig það er gert. Ungnaut þyngist um kíló eða svo á dag við eðlilegar aðstæður. Fái það hins vegar sprautu öðru hvoru eða því sé blandað í fóðrið, hormónunum, þá þyngist það um 2,5 kg á dag og svo étur það minna. Tvöfaldur gróði fyrir bóndann, að sjálfsögðu freistandi.``     Í þessu sænska sjónvarpsviðtali er síðan sýnt naut sem er sagt að henti óvanalega vel til hormónameðferðar. En svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ástæðan getur einnig verið að Belgía er í miðri Evrópu og öll landamæri eru nú opin.`` --- Eins og við erum að opna hér á Íslandi. ,,Miðstöð hormónamafíunnar er alla vega í Belgíu.`` Og Belgíumaður segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég hef unnið í þessu í 5 ár og niðurstaðan er að um 80% af kjötframleiðslu okkar er hormónakjöt. Að baki stendur lítil hormónamafía, hámark 40 manns. Hún stjórnar þessum geira sem veltir um 5 milljörðum belgískra franka á ári.``
    Síðan segir þulurinn, með leyfi hæstv. forseta, að Evrópubandalagið banni algerlega notkun allra hormóna og stera. Bann sem hefur greinilega lítið að segja. En það er hættulegt að afhjúpa leyndarmálin eins og einn maður gerði. Það er þingmaður á Evrópuþinginu. Þegar hann heldur fréttamannafund vega nýrrar bókar sem hann gaf út, þá eru þar ekki bara fréttamenn og stjórnmálamenn. Þar eru einnig vopnaðir lögreglumenn og í hverju horni er maður sem ekki fylgist með því sem sagt er, heldur fylgist vel með því sem gerist í salnum. Kjötmálin eru orðin svona hættuleg í Evrópu. Það er ekki að furða að menn séu á varðbergi.
    Hér býr einn af þeim dýralæknum sem fylgist með því hvort kjöt sé hormónaalið. Mafían sprengdi bílinn hans. Þarna er annar dýralæknir. Það var skotið á hann. Þetta líkist allt meira venjulegu stríði eiturlyfjasala. Hér var bíl ekið í fyrrinótt eftir götunni. Gluggi opnaðist og fyrsta skotið fór í gegnum rúðuna beint inn í stofu. Næsta skotið fór í hurðina og þarna býr einn af dýralæknum sem lögreglan notaði til að kanna hvort hormónar væru notaðir. Það átti að hræða hann til að þegja.
    Síðan er það rakið að dýralæknarnir verða fyrir þrýstingi vegna þess að þeir eiga að vera þarna á verði, en því miður virðist mafían vera sterkari en lögreglan. Dýralæknirinn segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það er ekki hægt að láta lögregluna gæta allra eftirlitsmanna allan sólarhringinn. Það er ómögulegt að vernda þá og það væri óbærilegt líf.``
    Ég les þetta til að undirstrika að ég tel ekki vera óeðlilegt eða verið að gera rangt þó að við viljum hafa lægri virðisaukaskatt á íslenskum matvælum heldur en matvælum sem þannig eru framleidd. Og áfram heldur þulurinn í sænska sjónvarpinu lýsingu sinni:

    ,,Mafíuna er aðallega að finna í vesturhluta Belgíu, í Flandri. Þar eru leyniverksmiðjur og þar er hægt að sjá venjulega bændur lifa óvenjugóðu lífi. Þar búa þrír bræður og þeir búa í höllum. Einn er sérstaklega nefndur, traustvekjandi maður sem meira að segja veitir sjónvarpsviðtöl þar sem hann vísar á bug öllu því sem um hann er sagt. Það sem um hann er sagt er að hann er eða var guðfaðirinn í mafíunni. Þessi mafía hefur sambönd um alla Evrópu og græðir milljarða. Hún er í tengslum við belgíska stjórnmálamenn og verður sífellt öflugri.``
    Síðan er farið að kjötborði og skoðað kjöt og þá segir áfram, með leyfi forseta: ,,Þetta kjöt er sennilega hormónaalið. Vöðvaþræðirnir eru grófir og sjást greinilega og vatn kemur út úr þeim. Það er bannað að nota hormóna og það eru til lög um það en það eru engin lög sem banna sölu á kjötinu.``
    Síðan fara fréttamennirnir í rannsóknastofu og þar lýsa þeir því sem þar fer fram og þeim er sagt á þennan hátt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í rannsóknastofunni sýnir prófessorinn okkur nokkra stungustaði sem hann hefur geymt. Í einum þeirra situr meira að segja brotin nál eftir. Samþjöppunin á hættulegum efnum á stungustaðnum veldur örugglega vanlíðan allt frá skjálfta, augnverkja, hjartsláttar til mun hörmulegri afleiðinga og krabbamein hefur þar verið nefnt. Í Belgíu leita menn nú að einföldum aðgerðum til að koma upp um hormónanotkun. Mafían er hins vegar duglegri en vísindamennirnir og hún hefur mörghundruð mismunandi efni að velja á milli. Þeir eru að sögn a.m.k. ári á undan eftirlitsmönnum í þróuninni. Áhrifin ráðast sem sagt af því hvaða efni maður fær í sig og hversu oft. Hormónaframleiðsla mannslíkamans verður fyrir óbætanlegum skemmdum ef hann fær utanaðkomandi hormón of lengi, það er vitað. Nú er sagt alveg opinskátt að eftir nokkur ár getum við átt von á óvæntum hrolli og einkennilegum áhrifum á heilar þjóðir. Konur gætu t.d. orðið karlmannlegar, karlar misst skeggvöxt og rödd þeirra hækkað. Enn er þetta frekar óljóst, en bara hugsunin hræðir.
    Þegar þessar staðreyndir blasa við verður kjötið í kjötborðinu ekki eins girnilegt. Það er og mun hættulegra þótt það sé selt fyrir opnum tjöldum eins og við sjáum. Þetta á við um alla Evrópu.
    Frjálsir vöruflutningar.
    Að lokum, sem er alvarlegt fyrir okkur, segir frá því að ef svona kjöt er flutt inn til Svíþjóðar og þá einnig hingað og það unnið má setja á merkimiðana á þeirri vöru að það sé innlent. Þá verður ekki hægt að greina í sundur hvaðan varan kemur. Þetta er m.a. staðfest af viðtali í lok þessa sænska þáttar við landbúnaðarráðherrann þar sem við hann er sagt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þú veist að þetta kjöt er flutt inn frá Evrópubandalaginu, það hakkað, saltað og unnið hér, þá er það selt hér sem sænskt kjöt.`` Og áfram: ,,En það er verra að þegar EES-samningurinn tekur gildi þá þurfum við ekki einu sinni að geta upprunalands, ekki einu sinni að það sé unnið í Svíþjóð.``
    Ég hef hér rakið þetta sænska sjónvarpsviðtal vegna þess að þær staðreyndir sem þarna koma fram finnast mér ákaflega athyglisverðar og nauðsynlegt fyrir menn að gera sér grein fyrir þessum staðreyndum því við Íslendingar erum nú að lenda í þessari sömu aðstöðu. Og ég vil enn einu sinni segja það að ég tel að það sé ekki andstætt hagsmunum íslenskra neytenda þó það sé hærri virðisaukaskattur á slíkri vöru en heilnæmum íslenskum landbúnaðarafurðum. Og ég tel enn þá síður að það sé andstætt hagsmunum íslenskra bænda.
    Þá vil ég víkja að hinu atriðinu sem ég ætlaði að ræða hér en það er skatturinn á ferðaþjónustu. Það eru alveg ótrúleg vinnubrögð hjá hæstv. ríkisstjórn og stuðningsflokkum hennar hvernig hún ætlað sér að ganga þar áfram af mikilli hörku. Ég vil segja að þar er á ferðinni hrein hryðjuverkastarfsemi gagnvart þessum atvinnuvegi sem flestir hafa hingað til sagt að væri vaxtarbroddur um þessar mundir í íslensku atvinnulífi.
    Hæstv. fjmrh. sagði að vísu áðan að þetta ætti ekki að vera vandamál fyrir ferðaþjónustuna, þetta hefði verið samþykkt fyrir ári síðan og því gæti hún bara verið búin að undirbúa sig og hækka. En veit ekki hæstv. fjmrh. að málið er ekki svona einfalt? Við höfum ekki trygga komu erlendra ferðamanna til Íslands. Koma þeirra byggist á því hvað við höfum að bjóða. Við höfum vissulega margt gott að bjóða, íslenska náttúru og heilnæman mat. En þegar ferðamenn ákveða hvert þeir fara þá er það samt sem áður verðið sem hefur gífurleg áhrif. Það fundu Svíar, svo ég vitni aftur til Svíþjóðar, þegar þeir fyrir fáum árum lögðu skatt á ferðaþjónustuna. Þá hrapaði á einu ári koma erlendra ferðamanna til Svíþjóðar. Ég hygg að það hafi verið upp undir 30%. Þeir lærðu af reynslunni og lækkuðu skattana. En af hverju eigum við ekki að læra líka af reynslu þeirra og leggja skattana alls ekki á? Það er ekki í einu búið að bæta fyrir skaðann ef hann er unninn. Það hlýtur að vera ömurlegt fyrir hæstv. samgrh. sem er að láta sína menn vinna mjög athyglisverða áætlun um ferðalag fjölskyldunnar um Ísland á næsta ári að standa síðan í því að leggja hvern skattinn eftir annan á ferðaþjónustuna á sama tíma og vafalaust er réttilega sagt að slíkur skattur getur ekki náð til ferðalaga út úr landi og jafnvel ekki ferðalaga um Ísland ef fyrirheitna landið er utan landsteinanna.
    Það hefur því miður verið svo á þessu ári sem nú er að líða að þrátt fyrir að talað sé um að ferðamönnum hafi fjölgað þá hefur nýting á flestum hótelum landsins verið lakari á þessu ári en áður. Það virðist sýna það að ferðamenn dvelja hér skemmri tíma og eyða minnu hver einstaklingur. Svo það er vissulega alvarlegt ef nú á að fara að leggja nýjar byrðar á mörgum sviðum á þessa atvinnugrein.
    Ég vil því vona að öllum þeim mörgu sem hafa bent hæstv. ríkisstjórn og stuðningsmönnum hennar á þessa staðreynd takist áður en þetta mál er afgreitt hér frá Alþingi að sannfæra þá um í hvaða ógöngur þarna er verið að fara og afnema líka skattinn á gistinguna til viðbótar því sem hæstv. fjmrh. var nú að gefa fyrirheit um. Sú yfirlýsing hæstv. fjmrh. sýnir sem betur fer hversu gagnlegar málefnalegar umræður eru og að ekki er öllum alls varnað að taka mark á þeim. Við vitum að við þær aðstæður sem við búum nú við, þetta gífurlega atvinnuleysi, þá hefur auðvitað hver einasti erlendi ferðamaður sem bætist í hóp þeirra sem kemur til landsins margfalda þýðingu því það skapar vinnu. Og meiri atvinna er auðvitað það sem þjóðinni er allra brýnast um þessar mundir.
    Að vísu hefur hæstv. forsrh. talað mjög um það síðustu daga og vikur að nú sé allt að batna, nú sé þetta allt í sómanum, ríkisstjórnin stjórni svo vel. En því miður tala staðreyndirnar allt öðru máli. Og í frétt í Morgunblaðinu í morgun segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þrjú þúsund sjötíu og níu atvinnulausir í borginni, rúmlega 1.000 fleiri en í fyrra. Samtals 3.079 manns voru skráðir atvinnulausir á ráðningarstofu Reykjavíkurborgar 15. des. sl. Telst það um 4,5% atvinnuleysi. Á sama tíma í fyrra voru samtals 2.000 manns á skrá.``
    Áfram segir, með leyfi hæstv. forseta: ,, . . .  formaður atvinnumálanefndar Reykjavíkur sagði þessar tölur ekki koma sér á óvart og taldi hún að atvinnuástandið gæti orðið erfitt, jafnvel allt fram í mars eða apríl á næsta ári. Fyrirtæki hafa verið að leggja upp laupana og það er samdráttur í verslun eins og sjá má af því hvernig atvinnuleysið kemur niður á starfsstéttunum. Af fjölgun upp á 1.079 milli ára eru 704 verslunar- og verkamenn,`` þ.e. þeir sem lægst hafa launin.
    Hver einasti ferðamaður sem kæmi til landsins, dveldi hér á hótelum, mundi draga eitthvað úr þessu atvinnuleysi. Það eru allar aðstæður fyrir hendi, enginn aukakostnaður, allt saman ávinningur. Og að vera því að leggja slíkan stein í götu þessa atvinnuvegar eins og hæstv. ríkisstjórn og stuðningslið hennar eru hér að gera, er óskiljanlegt því það er alveg öruggt miðað við það hvað lítil fjölgun ferðamanna gæti aukið tekjurnar að hér er beinlínis um skaða fyrir ríkissjóð að ræða. Það er ekki aðeins að við missum gjaldeyristekjur sem auka veltu í þjóðfélaginu heldur verður ríkissjóður líka að greiða atvinnuleysisbætur til þeirra sem ekki fá atvinnu. Það hefur verið rakið hér í umræðu áður að þau útgjöld fyrir ríkissjóð á starfstíma þessarar hæstv. ríkisstjórnar eru að nálgast 20 milljarða. Þannig að vandinn sem við erum að tala um í fjárlagagerð virðist því miður vera sá að stærsti einstaki þátturinn sé afleiðing atvinnuleysisins.