Skattamál

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 11:38:47 (3039)


[11:38]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Herra forseti. Ég sagði að ég teldi að það væri ekki óhagkvæmt fyrir íslenska neytendur eða íslenska bændur að það væri lægri virðisaukaskattur á íslenskum matvælum sem við vitum að eru holl og heilnæm heldur en þeim sem því miður munu verða á boðstólum hér á næstunni erlendis frá og eru eins og ég lýsti hér áðan. Ég tel að þessar staðreyndir eigi vissulega erindi til Íslendinga alveg eins og Svía þar sem aðstaða okkar er nú sú sama.
    Ég get fullyrt og huggað hæstv. fjmrh. með því að mér líður vel með að styðja þetta sem ég var að rökstyðja hér og benda á með rökum að væri að mínu mati skynsamlegara. Ég benti á það einmitt í sambandi við bókaskattinn að reynslan sýndi að þó að einhver vara sé færð niður um þrep eins og hér á að gera eða virðisaukaskattur jafnvel afnuminn þá er það ekki varanleg aðgerð. Það hefur ekki reynst það

eins og ég nefndi dæmið um með bókaskattinn sem núv. hæstv. ríkisstjórn tók upp aftur. Því miður er það tálvon að halda að slíkt sé. Ég hef ekki tíma til að endurtaka þau rök sem ég færði fyrir minni afstöðu en hún er af fullri sannfæringu fyrir hagsmuni íslenskra neytenda og íslenskra bænda.