Montreal-bókun um efni sem valda rýrnun ósonlagsins

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 11:45:19 (3043)


[11:45]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Sú breyting sem hér er verið að gera á Montreal-bókuninni um efni sem valda rýrnun ósonlagsins er í rétta átt og umhvn. sem fór yfir málið taldi að það væri eðlilegt að samþykkja þessa bókun og þessa till. til þál. sem hér liggur fyrir. Það er ánægjulegt til þess að vita hver þróun er á alþjóðavettvangi í sambandi við þá vá sem stafar af rýrnun ósonlagsins en þó er ljóst að þjóðir heims verða þar að herða róðurinn mjög verulega frá því sem þær tímasetningar gera ráð fyrir sem eru í núverandi samningsákvæðum. Ósonlagið er að rýrna verulega. Upplýsingar sem fram koma um það efni eru nokkuð ótvíræðar og sjaldan sem ósonlagið hefur verið jafnveikt, einkum yfir heimsskautasvæðum eins og á yfirstandandi ári. Það er því ljóst og vonandi að það verði sett og sameinast um harðari ákvæði varðandi þessi mál heldur en nú er verið að samþykkja og nú hafa verið samþykkt enda er hreyfing í þá átt hjá öðrum þjóðum. En jafnvel þótt tækist að stöðva notkun ósoneyðandi efna nú þegar þá hefur safnast fyrir í neðri lögum andrúmsloftsins það mikið af ósoneyðandi efnum að það mun hafa áhrif til veikingar á ósonlagið í háloftunum um langan tíma enn.
    Það er ánægjulegt að Íslendingar slógust í hóp þeirra ríkja sem vildu herða ákvæði varðandi notkun ósoneyðandi efna umfram það sem skyldur buðu samkvæmt alþjóðasamningum. Sá sem hér talar ýtti

mjög á það efni með fyrirspurnum til fyrrv. hæstv. utanrrh. sem tók á þeim málum gagnvart ríkisstjórn og er von til að það verði unnið að þessum málum m.a. með nýrri reglugerð þannig að unnt verði í reynd að standa við þær skuldbidingar sem menn eru að setja sér.