Málefni aldraðra

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 11:50:58 (3045)


[11:50]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er flutt sem stjfrv. lætur ekki mikið yfir sér en það er nokkuð sérkennilegt mál. Þannig er að samkvæmt lögunum um málefni aldraðra er gert ráð fyrir því að öldrunarþjónusta sveitarfélaga sé tengd almennri félagsþjónustu sveitarfélaganna og hefur verið gengið út frá því hér á undanförnum árum og það hefur verið byggt upp í Reykjavík þrátt fyrir allt tiltölulega mjög gott þjónustunet við aldraða. Það er að vísu ljóst að það vantar um 150 hjúkrunarrými í Reykjavík fyrir gamalt fólk en þjónustukerfi við aldraða í Reykjavík er að mörgu leyti mjög gott, bæði að því er varðar heimlishjálp, að því er varðar heimsendingar á mat, að því er varðar hjúkrun o.fl. og o.fl., þá hygg ég að megi segja að þjónustukerfið við það gamla fólk sem komið er inn í þjónustukerfi á annað borð sé tiltölulega mjög gott. Þetta þjónustukerfi hefur verið byggt upp af Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar undir stjórn félagsmálaráðs Reykjavíkur og það hefur verið ætlunin og m.a. lögð á það mikil áhersla af öldrunarlæknum eins og Þór Halldórssyni að þjónustusvæði öldrunarmála verði þau sömu og hinnar almennu félagsmálaþjónustu og heilsugæslusvæðin líka þannig að þetta allt fari saman með skipulegum hætti svo það sé sem best nýting á starfsliði og fjármunum í þágu hinna öldruðu.
    Svo gerist það að innan borgarstjórnarflokks Sjálfstfl. kemur upp tiltekinn vandi þar sem vissir aðilar telja óhjákvæmilegt fyrir sig og prófkjörsstöðu sína að koma upp sérstakri nefnd til að fara með málefni aldraðra í Reykjavík í raun og veru fram hjá þessu kerfi og fram hjá því góða starfsliði sem skipulagt hefur málin á vegum Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Og þess vegna er ákveðið að þessi þjónusta í Reykjavík eigi að vera öðruvísi en alls staðar annars staðar, hún eigi að vera undir öldrunarráði. Fulltrúar minnihlutaflokkanna í félagsmálaráði Reykjavíkurborgar snerust gegn þessari skipan, þeir töldu þetta óþarfa. Og hið sama er að segja í raun og veru um fjölmarga, faglega forustumenn Reykjavíkurborgar á þessu sviði en það var auðvitað ekki hlustað á það fólk þegar hinir pólitísku hagsmunir Sjálfstfl. innan húss voru annars vegar. Þess vegna varð niðurstaðan sú að þetta öldrunarráð varð til. Ég segi fyrir mitt leyti, ég tel enga þörf á því og í raun og veru gæti það orðið til þess að spilla fyrir þjónustu við aldraða í Reykjavík vegna þess að hún yrði á tekin til hliðar við félagsmálaþjónustuna almennt.
    Hv. heilbr.- og trn. fær auðvitað þetta mál til meðferðar og ég vil hvetja hana til þess að kalla til það fólk sem hefur með að gera þjónustu við aldraða í Reykjavík vegna þess að þetta snýr eingöngu að Reykjavík. En á þeim grundvelli að ég vil að sveitarfélögin ráði svona málum sjálf og líka Reykjavík mun ég ekki snúast gegn þessu frv. Ég mun sitja hjá þegar það kemur til atkvæða en ekki snúast gegn því. Ég tel það vitlaust en ég mun sitja hjá um málið af því að ég tel að Reykjavík eigi að hafa möguleika til að gera þetta þó að vitlaust sé.
    Ég er sem sagt ósammála þeirri forræðishyggju sem birtist í afstöðu núv. ríkisstjórnar til sveitarfélaganna þar sem það er eins og kunnugt er bannað að lækka útsvör. Það hefur ekki komið fram við hvaða refsingum menn mega búast í sveitarstjórnum á Íslandi ef menn lækka útsvörin niður í 8,3%. En það er yfirvofandi stórfelld refsing fyrir það eins og kunnugt er vegna þess að hæstv. félmrh. hefur í samvinnu við fjmrh. og forsrh. ákveðið að enginn megi leggja á lægra útsvar en 8,4%. Menn eru beinlínis kúgaðir til þess að leggja á 8,4% útsvar hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þessi ótrúlega tillaga félmrh. lýsir náttúrlega ekki mikilli virðingu fyrir sveitarfélögunum að ekki sé fastar að orði kveðið og hefur aldrei áður verið sett inn í tekjustofnalög ákvæði af þessu tagi sem tekur fram fyrir hendurnar á sveitarfélögunum með þessum hætti sem hér er ætlunin að gera í frv. til tejustofnalaga. Ég er andvígur slíkri forræðishyggju gagnvart sveitarfélögum og af þeim ástæðum mun ég, þar sem borgarstjórn Reykjavíkur hefur með lögformlegum hætti og eðlilegum óskað eftir þessari breytingu á lögum um málefni aldraðra, sitja hjá um það mál þegar þar að kemur sem þingmaður Reykjavíkur. En ég veit að þetta er ekki til bóta fyrir aldraða hér í borginni. Ég er sannfærður um það. En þann slag verður að heyja í ráðhúsinu hérna handan við Vonarstrætið og í kosningunum næsta vor en ekki í þessum sal.