Málefni aldraðra

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 11:56:07 (3046)


[11:56]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra ber fremur brátt að svo að ekki sé meira sagt og vekur ýmsar spurningar þar af leiðandi. Þetta var lagt fram fyrir tveimur dögum síðan þannig að ég áttaði mig ekki almennilega á hvers vegna og það væri gott að fá það útskýrt hjá hæstv. heilbrrh. sem nú situr, fyrrv. heilbrrh., hvað það er nákvæmlega sem liggur svona mikið á að breyta. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því í fljótu bragði. Ég þykist nú þekkja nokkuð vel til þessa málaflokks en geri mér samt sem áður ekki grein fyrir því hvað það er sem gerir það að verkum að það liggur svona mikið á. ( SvG: Páll Gíslason er að fara í prófkjör.) Þetta er nú söguskýring frá hv. þm. Svavari Gestssyni, Alþb., og hann gerir grein fyrir því þá, sitjandi hæstv. heilbrrh., ef það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Ég endurtek það ekki úr þessum stóli en þetta er spurningin. Mér finnst mikilvægt að það sé heildarskipulag í öldrunarmálum og það sé skilvirkt, það sé eitt allsherjarskipulag á þessum málum. T.d. að heimahjúkrun og heimilishjálp séu undir sama hatti þannig að það yrði öldruðum til bóta. Hvaða breyting hér er lögð til bóta geri ég mér alls ekki grein fyrir og ég bið áður en ég held lengri ræðu um þetta mál, hvað er það nákvæmlega sem veldur því að það er beðið um að þetta mál sé afgreitt hér á síðasta degi þinghalds fyrir jól, einmitt núna þegar fólk er á kafi í öðrum störfum. Hvað er það sem gerir það að verkum að hæstv. ríkisstjórn vill fá þetta í gegn í einum grænum? Það er spurningin.