Málefni aldraðra

67. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 12:07:15 (3049)


[12:07]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan beina spurningum til starfandi heilbrrh. ef hann er einhvers staðar nálægt og heyrir í mér. Í fyrsta lagi vil ég taka undir þær spurningar sem hafa komið fram um af hverju þessi áhersla sé lögð á það að þetta frv. verði samþykkt fyrir áramót með tilliti til þess, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að sveitarstjórnarkosningar eru eftir örfáa mánuði og þá verða skipaðar nýjar öldrunarnefndir eða öldrunarmálaráð ef frv. hlýtur samþykki fyrir vorið. Ég tel að það þurfi að kalla til ýmsa þá aðila sem hafa starfað að málefnum aldraðra, ekki eingöngu í Reykjavík heldur fulltrúar sveitarstjórna annars staðar á landinu vegna þess að þetta frv. felur í sér heimild til allra sveitarfélaga, líka þeirra smæstu, að skipa öldrunarmálaráð. Öldrunarmálaráð sem þá þarf ekki lengur að hafa nokkurt samstarf við heilsugæslustöðvar á viðkomandi þjónustusvæði heilsugæslustöðva. Þegar lög um málefni aldraðra voru samþykkt var lögð mikil áhersla á samstarf heilsugæslunnar og þeirra sem sæju um þjónustu aldraðra og að þjónustusvæðin væru þau sömu. Ef þetta frv. verður samþykkt þá verður sú breyting á að ekki þarf lengur að taka tillit til þess vilja sem fram kemur hjá fulltrúum heilsugæslustöðva á viðkomandi svæði hvað varðar þjónustu við aldraða, hvorki heimilishjálp né heimilishjúkrun því sveitarstjórnin eða öldrunarmálaráðið mun þá ákveða með hvaða hætti skuli staðið að þessum verkefnum. Mér finnst þetta ekki rétt og e.t.v. er þetta fyrirkomulag sem hentar í stórum byggðarlögum eins og í Reykjavík, það get ég ekki dæmt um, en ég sé það fyrir mér að litlar sveitarstjórnir úti á landi sem þurfa að sækja þjónustu fyrir aldraða til heilsugæslustöðva um langan veg og eru með fulltrúa frá þessum heilsugæslustöðvum í öldrunarmálanefndum, sem hafa eftirlit með framkvæmd öldrunarmála í viðkomandi sveitarfélagi, munu jafnvel sjá sér leik á borði að stofna slíkt öldrunarmálaráð vegna þess að þá eru þær ekki lengur tilbúnar til þess að hafa tvo fulltrúa frá viðkomandi stjórn heilsugæslustöðvar. Þannig að þetta frv. felur í sér miklu meiri breytingar en maður gerði sér grein fyrir við fyrstu yfirsýn og ég tel að við þurfum að taka nokkuð góðan tíma í að skoða þetta og kalla til viðtals ýmsa þá aðila sem að öldrunarþjónustunni koma. Ég ítreka það enn og aftur að ég sé ekki ástæðu til þess að breyta þessum lögum ef það yrði samþykkt hér fyrr en bara rétt undir vorið því breytingin tekur þá gildi eftir næstu sveitarstjórnarkosningar sem hlýtur að vera það sem menn eru að horfa á því varla á að fara að stofna slíkt öldrunarmálaráð til starfa í örfáa mánuði. Þess vegna legg ég til, virðulegi forseti, að hv. heilbr.- og trn. taki sér góðan tíma í að skoða þetta.