Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

69. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 14:51:06 (3070)


[14:51]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 445 um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994 frá meiri hluta efn.- og viðskn.
    Nefndin vísaði einstökum ákvæðum frv. til félmn., heilbr.- og trn., landbn. og menntmn. Það kom því í hlut fagnefnda þessara fyrst og fremst að fjalla efnislega um þau ákvæði sem þeim tilheyrðu. Efh.- og viðskn. fór jafnframt yfir málið og á fund nefndarinnar komu Björn Matthíasson frá fjmrn., Guðmundur Lúther Hafsteinsson og Magnús Skúlason frá húsafriðunarsjóði, Heimir Steinsson útvarpsstjóri og Hörður Vilhjálmsson, fjármálastjóri Ríkisútvarpsins, Dögg Pálsdóttir frá heilbr.- og trmrn., Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þórður Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigurgeir Þorgeirsson frá landbrn., og Júlíus Vífill Ingvarsson formaður og Gunnar Gunnarsson, varaformaður Félags búvélainnflytjenda. Meiri hluti nefndarinnar hefur tekið upp í sínar brtt. þær tillögur sem heilbr.- og trn. sem og landbn. lögðu til að gerðar yrðu í umsögn sinni.
    Meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Þær breytingar eru eftirfarandi:
    Lagt er til að 7. gr. falli brott, en sú grein fól í sér álagningu sérstaks búvélagjalds. Þá er jafnframt lagt til að 10. gr. verði felld brott þar sem í nýsamþykktum lögum um félagslega aðstoð er veitt lagaheimild til að tengja greiðslu ekkjulífeyris við tekjur.
    Lagt er til að því markmiði, sem átti að ná með 16. gr. frv., verði frekar náð með nokkrum lagfæringum á 5. mgr. 24. gr. laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar. Þannig verði tryggt að ekki komi til misnotkun á þessu ákvæði.
    5. mgr. 24. gr. laganna verði svohljóðandi:
    Nú ber nauðsyn til að skerða dagvinnutíma starfsmanna vegna samdráttar í starfsemi fyrirtækis og skal þá greiða starfsmönnum þann hluta þeirra atvinnuleysisbóta sem þeir eiga rétt á sem svarar til skerðingar dagvinnutímans, enda taki ráðstafanir þessar almennt til starfsmanna fyrirtækisins eða starfsmanna í einstökum greinum starfsemi þess ef um fleiri en eina er að ræða. Fyrirsjáanlega skerðingu vinnutíma skal atvinnurekandi tilkynna fyrir fram til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og gera ítarlega grein fyrir ástæðum til samdráttar. Tilkynningu skal fylgja skrá um það starfsfólk sem ráðgert er að skerðingin taki til ásamt upplýsingum um dagvinnustundafjölda einstakra starfsmanna hjá fyrirtækinu á síðustu 12 mánuðum áður en til skerðingar kemur, svo og upplýsingum um stéttarfélög viðkomandi. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs staðreynir skrána svo og síðari upplýsingar um það fólk sem skerðingin tekur til og sendir til úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir þau félög sem starfsmenn eru félagar í sem síðan úrskurða um bótarétt. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að synja um greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt þessari málsgrein ef hún telur að fyrirtæki hafi ekki tilgreint nægilegar ástæður til samdráttar. Ekki verða greiddar bætur samkvæmt þessari grein lengur en 30 bótadaga fyrir hvern starfsmann á almanaksári. Komi til uppsagna starfsmanna falla greiðslur niður og eiga þeir ekki bótarétt að nýju fyrr en að loknum uppsagnarfresti.
    Þá er lögð til sú breyting á 11. gr. að þátttaka hins sjúkratryggða í kostnaði sé afmörkuð við dvöl á sérhæfðum meðferðarstofnunum. Með þessu er reynt að gera ákvæðið skýrara hvað það varðar að bráðameðferð drykkjusjúklinga, t.d. á geðdeild Landspítala, falli ekki þar undir.
    Þá er lögð til sú breyting á 20. gr., í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, að það fái einn fastan mann í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs á árinu 1994.
    Í 5. lið brtt. er tilgreind 20. gr., að við efnismálsgrein a-liðar bætist ný málsgrein er orðist svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 37. gr. skal stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt á árinu 1994 að gera tillögur um ráðstöfun á þessu fjármagni sem sveitarfélögin greiða til sjóðsins, auk allt að 600 millj. kr. af öðru ráðstöfunarfé sjóðsins á árinu 1994, til að styrkja sérstök verkefni á vegum sveitarfélaga til eflingar atvinnulífi, enda verði dregið samsvarandi úr greiðslum atvinnuleysisbóta á viðkomandi stað. Úthlutun styrkja skal vera í samræmi við reglur sem ráðherra setur að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á árinu 1994 skal einn fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga taka sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Tillögur sjóðstjórnar um styrkveitingu skulu staðfestar af ráðherra.
    Loks er lagt til að innheimtuhlutfall af búvörum til Bjargráðasjóðs lækki um helming á árinu 1994, eða úr 0,6% í 0,3%.
    Undir nál. þetta rita Rannveig Guðmundsdóttir, Guðjón Guðmundsson, Sólveig Pétursdóttir, Ingi Björn Albertsson, með fyrirvara, og Lára Margrét Ragnarsdóttir.