Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

69. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 16:06:05 (3083)


[16:06]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon færði kollega sínum hv. þm. Svavari Gestssyni miklar þakkir fyrir að taka upp málstað vörubílstjóra. Ég vil sömuleiðis færa honum miklar þakkir fyrir að taka hér málstað tófunnar. Ég veit að hv. þm. er áhugamaður um varg og hefur gert sitt til að útrýma vargi á þeim slóðum sem honum hefur þótt of mikið af honum vera.
    Hann gerir hér athugasemdir við orðalag í 37. gr., þar sem talað er um að ríkissjóður taki ekki þátt í kostnaði við leit að áður óþekktum tófugrenjum. Ég fellst á þessa málfarslegu athugasemd sem hann hefur gert. Ástæðan fyrir því að hún er inni er einfaldlega sú að hinn árvakri þingmaður var þrátt fyrir allt ekki nógu árvökull á síðasta þingi þegar nákvæmlega sama orðalag var inni. Að vísu þá í lánsfjárlögum í þrátt-fyrir-ákvæðum þar. Það er nú kannski skýringin fyrir því og kannski ættu menn að breyta þessu og segja fremur eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon stakk upp á í samtölum áðan ,,nýjum og óþekktum tófugrenjum``. Að öðru leyti er rétt að það komi hér fram að þær breytingar sem hafa verið gerðar á undanförnum árum miða að tvennu. Í fyrsta lagi að koma í veg fyrir þá sjálftöku sem segja má að hafi nánast verið orðin hefð í þessum veiðum og hins vegar að tryggja hag minnstu sveitarfélaganna sem gjarnan hafa haft mestan kostnaðinn einmitt af þessari iðju. Það er þess vegna sem talað er um m.a., virðulegur forseti, með góðu leyfi: ,,Ríkissjóður endurgreiðir ekki á árinu 1994 kostnað við refa- og minkaveiðar í sveitarfélögum þar sem íbúar eru fleiri en 2.000``. Það er af þessum sökum. Að öðru leyti tek ég undir ábendingarnar og vænti þess að þingmaðurinn haldi áfram að sýna skolla svona góðan og farsælan áhuga.