Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

69. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 16:10:16 (3087)

[16:10]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég ætlaði aðeins að víkja orðum mínum að hæstv. umhvrh. í lok máls míns vegna þess máls sem var til umræðu milli síðustu ræðumanna en erindi mitt hingað er fyrst og fremst að fjalla nokkuð um þann hluta þessa frv. sem snertir landbúnaðarmál. Ég gerði það við 1. umr. málsins og sé að sem betur fer hafa þau atriði sum tekið breytingum, þ.e. að í brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. kemur fram að þar hefur verið tekið tillit til ábendingar landbn. um að fella niður 7. gr. þessa frv. Það er byggt á því sem segir um það í áliti frá landbn. til efh.- og viðskn. og er birt hér með nál. frá meiri hluta efh.- og viðskn. Og þar sem ég held að það hafi ekki komið skýrt fram í þessari umræðu þá ætla ég að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa þennan hluta:
    ,,Nefndin [þ.e. landbn.] leitaði álits Lárusar Ögmundssonar, lögfræðings Ríkisendurskoðunar, á því hvort gjaldtaka sú á allar seldar búvélar, sem lögð er til í 7. gr. frv., væri í raun þjónustugjald eða skattur til ríkissjóðs. Í frv. er ekki að finna neina skírskotun til þess að Rannsóknastofnun landbúnaðarins muni veita þeim sem kann að flytja inn, framleiða eða selja búvélar tiltekna þjónustu vegna hverrar gjaldskyldrar vélar. Þar með liggur fyrir að ofangreint gjald uppfyllir ekki þau skilyrði að geta talist opinbert þjónustugjald heldur skattur sem á sér margar hliðstæður. Þetta er í samræmi við álit lögfræðings Ríkisendurskoðunar.
    Þá vill nefndin enn fremur geta þess að búvélasalar greiða gjald til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins vegna prófana á tækjum þeirra sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins er í sjálfsvald sett að ákveða. Samkvæmt framansögðu eru þær forsendur gjaldtökunnar sem byggt er á í 7. gr. ekki fyrir hendi og getur landbn. þar af leiðandi ekki mælt með því að ákvæðið verði lögfest.``
    Þessi umsögn landbn. er athyglisverð vegna þess að hér kemur fram að í þessu frv. frá ríkisstjórninni, sem hæstv. forsrh. mælti fyrir, er gert ráð fyrir gjaldtöku sem byggist á fölskum forsendum eins og fram kemur skýrt í þessari umsögn landbn. Það minnir okkur á hversu mikilvægt það er að þau frumvörp sem fyrir þingið eru lögð séu skoðuð í smáatriðum þannig að ekkert fari fram hjá hv. alþm. þar sem hér hefur frv. verið lagt fram með þessum hætti og reyndar var efni þess, eins og ég benti á í 1. umr. þessa máls, lagt fram í sérstöku frv. á síðasta þingi og kom óbreytt nú inn í þetta frv. í þessum bandormi. En það kemur fram í áliti landbn. að til hennar hafi fyrst og fremst verið vikið 5.--7. gr. En í þessu frv. eru nokkur atriði sem snerta landbúnaðinn og vildi ég koma með ábendingar um þau atriði til hv. formanns landbn. sem var hér rétt áðan, ef hann væri nærstaddur.
     (Forseti (VS): Hann kemur vonandi. Það sást aðeins í hann.)
    Já, það er í mörg horn að líta nú á þessum klukkutímum.
    Ég þakka hv. formanni landbn. fyrir að koma hér. Ég var að vekja athygli á því að það hefði borið góðan árangur að mínu mati að senda eitt þeirra atriða sem ég nefndi áðan til landbn. og því vildi ég víkja aðeins að nokkrum öðrum atriðum sem landbn. virðist ekki hafa verið falið að fjalla um í þessu frv. Og þá er á sama átt og hér var rætt um áðan atvinnuleysistryggingar gagnvart vörubílstjórum og ég vil taka undir sem þarfa ábendingu og benda hv. landbn. á að það væri að mínu mati full ástæða fyrir nefndina að fjalla um það og taka til athugunar í starfi sínu eftir áramótin hvernig hin nýja reglugerð um atvinnuleysistryggingar komi til með að nýtast bændum. Þetta er geysimikið hagsmunamál og ég held að það sé mjög mikilvægt að landbn. Alþingis fylgist með því hvernig þau lög sem samþykkt voru á síðasta þingi gagnast landbn.
    Síðan eru í II. kafla frv. nokkur atriði þar sem vikið er að landbúnaðinum. Það er sérstaklega 25.,

26. og 27. gr. Mér sýnist að 25. og 27. gr. séu samhljóða greinum sem voru í lánsfjárlögum á síðasta ári eða fyrir þetta ár, en hins vegar segir í 26. gr. að framlag ríkissjóðs til launa og aksturs héraðsráðunauta skuli eigi vera hærra en 37,5 millj. kr. á árinu 1994 sem er lækkun úr 40,1 millj. á yfirstandandi ári. Ég teldi að það væri æskilegt að landbn. mundi líta á þetta atriði milli 2. og 3. umr.
    Þá ætla ég að lokum þrátt fyrir það að hæstv. umhvrh. --- hann var hér rétt áðan, ætli hann sé fjarri . . .  ?.
    ( Forseti (VS) : Forseti mun kalla hann til fundar.)
    Í 37. gr. er fjallað um eyðingu refa og minka. Þessi málaflokkur heyrir undir umhvn. en þrátt fyrir það fékk umhvn. ekki þessa grein senda frá efh.- og viðskn. til umfjöllunar vegna þessa frv. og ég mun ekki út af fyrir sig gera athugasemdir við það en það gæti verið ástæða til að nefndin kynnti sér þetta mál þá í upphafi næsta árs og þess vegna langaði mig að spyrja hæstv. umhvrh. að því hvort hann viti að það hafi verið notuð sú heimild sem var í mjög líkri grein í lánsfjárlögum sem ég heyrði að hann er kunnugur, þ.e. þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Umhverfisráðherra er heimilt að fengnum tillögum veiðistjóra að ákveða að ríkissjóður taki ekki þátt í kostnaði við minkaveiðar, grenjaleit og grenjavinnslu á tilteknum svæðum. Umhvrn. skal auglýsa fyrir 1. maí til hvaða landsvæða ákvörðunin tekur.``
    Mig langaði að spyrja sem sagt að hve miklu leyti þessi heimild hafi verið notuð. Þetta er aðeins breytt nú í 37. gr. þessa frv. þar sem segir að það skuli auglýsa fyrir 1. maí 1994. Í yfirstandandi heimild var ekkert ártal, aðeins sagt fyrir 1. maí. Því vil ég spyrja hvort nú eigi að auglýsa þetta í eitt skipti fyrir öll og eftir það muni heimildin ekki verða fyrir hendi eða hvort þetta sé vegna þess að þetta ákvæði gildi aðeins fyrir þetta ár.
    Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta frv. að þessu sinni.