Fjárlög 1994

70. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 17:29:16 (3094)

     Forseti (Pálmi Jónsson) :
    Forseti vill greina frá því að það er í fyrsta lagi altítt, eins og hv. þm. er kunnugt, að málum sé skotið aftur fyrir í miðri umræðu og önnur tekin fram fyrir svo sem hér

er gert á nýjum fundi. Formenn þingflokka og forseti hafa leitast við að ná samkomulagi um störf þingsins á þessu síðdegi og e.t.v. fram eftir nóttu ef það mætti takast að ljúka þingi í kvöld eða nótt. Ætlunin er að taka nú umræðu um fjárlög og ljúka þeirri umræðu og ekki að haga því á þann máta eins og hv. þm. gerði hér hálfvegis skóna að nú skyldu einvörðungu tala framsögumenn eða ræðumenn stjórnarflokka og þeir síðan sitja heima á meðan aðrir töluðu. Slíkt er auðvitað alveg út í bláinn og forseti mun hlutast til um að málum verði ekki hagað þannig hér á hinu háa Alþingi.