Fjárlög 1994

70. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 18:43:51 (3098)


[18:43]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar er komið til 3. umr. í hv. Alþingi eftir að fjárln. hefur fjallað um frv. og ýmsar tillögur sem fyrir lágu, bæði óafgreiddar við 2. umr. og þær sem borist hafa nefndinni á milli umræðna. Um þessar tillögur allar hefur nefndin fjallað á fundum sínum frá því að 2. umr. fór fram í hv. Alþingi. Verð ég því miður að endurtaka það sem ég lét koma fram við 2. umr., er rætt var um störf nefndarinnar, að lítið breyttust vinnubrögðin við þessa yfirferð. Kannski var ekki von á því að þessu sinni að miklar breytingar yrðu á vinnutilhögun eða hvernig nefndin tæki á málum og hvert væri hlutverk fulltrúa stjórnarandstöðunnar í þeirri vinnu. En ég ítreka þær óskir mínar að á þessu verði breyting og það álit að ég tel til mikilla hagsbóta fyrir störf Alþingis að annars konar samstarf væri viðhaft í nefndinni milli meiri hluta og minni hluta en gert hefur verið á þessu hausti.
    Ég held að það sé til framdráttar vinnu Alþingis almennt að við fetum okkur meira inn á þá braut sem ég álít að hafi verið mörkuð með breytingum á þingsköpum Alþingis fyrir tveimur árum og síðan aftur á sl. hausti og það hafi verið hugsunin á bak við þær breytingar að gera þingið allt ábyrgara í störfum sínum og, eins og ég hef reyndar áður sagt úr þessum ræðustóli, sjálfstæðara gagnvart framkvæmdarvaldinu og hæstv. ríkisstjórn.

    Um þetta ætla ég ekki að hafa mikið fleiri orð, hæstv. forseti, en ég vildi aðeins ítreka þetta og undirstrika þessa skoðun mína og jafnframt láta í ljós óánægju okkar fulltrúa minni hlutans í fjárln. um það hvernig þessum vinnubrögðum hefur verið háttað.
    Það verður að taka það fram, eins og komið hefur fram hjá hv. þm. sem hafa talað á undan, að auðvitað hefur tímaleysi nokkuð háð störfum í nefndinni því það hefur staðið á ýmiss konar ákvörðunum frá hæstv. ríkisstjórn. Varðar það einkum ákvarðanir sem snúa að tekjuhlið frv. Það er reyndar ekki nýtt. Það er saga sem endurtekur sig á hverjum vetri að þegar kemur að lokaafgreiðslu fjárlaganna láta ákvarðanir um skattamál og ákvarðanir um hvernig staðið skuli að einstökum þáttum tekjugreinar frv. á sér standa. Það vefst fyrir þessari hæstv. ríkisstjórn eins og reyndar sumum öðrum áður að koma þessu saman.
    Það er því mjög brýnt að breyta einnig vinnubrögðum hvað þetta varðar. Á það við bæði störf í nefndinni sjálfri, þ.e. að nefndinni gefist tími og rúm til þess að fara fyrr að huga að þessum þáttum frv., og svo það að hæstv. ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar snúi sér fyrr að því að taka ákvarðanir um hvernig eigi að standa að tekjuhliðinni og ákvarða tekjuöflun og skattalagabreytingar.
    Eins og vinnunni hefur verið háttað á undanförnum dögum er vissulega hætta, hætta segi ég, á óvandaðri vinnubrögðum. Það er hætta á því að mistök geti átt sér stað þegar unnið er nánast nótt og dag og á það auðvitað bæði við um hv. þm. og svo einnig það ágæta starfslið sem leggur sig allt fram um það að vinna með nefndinni við að koma þessum tölum öllum saman á skjöl á réttan hátt þannig að ekkert beri á milli og allt megi vel fram ganga. Eins og þetta hefur verið undanfarna daga hafa þingfundir staðið fram á nætur og hafi ekki verið þingfundir þá hafa verið nefndarfundir á kvöldin. Þingmenn hafa því haft mikið að gera og þurft að vera bundnir meira og minna í umræðum í þingsalnum í stað þess að geta setið yfir einstökum málum, t.d. það að sitja óslitið við í þessari vinnu sem fyrir fjárln. liggur á hverju hausti. En þetta á líka við um, eins og ég nefndi, það ágæta fólk sem einnig hefur verið að vinna með þingmönnunum undanfarin kvöld og langt fram á nætur og ég hygg að á þessum síðasta sólarhring hafi mátt segja að einhver hópur fólks hafi vakað allan sólarhringinn við að klára þetta starf fyrir 3. umr.
    Þetta eru auðvitað ekki góð vinnubrögð og ekki til eftirbreytni. Reyndar skil ég ekki heldur að þessu sinni hvað í raun ýtti svo mikið á að hafa þennan háttinn á varðandi vinnuna. Ég tel að það hefði vel verið hægt að gefa sér þessa helgi sem nú fer í hönd til þess að ganga frá þessu með skikkanlegum vinnubrögðum og tryggja það að allt gengi vel fram í nefndarstörfunum og vera þá jafnframt sannfærður um að allar tölur væru réttar og öllu væri til skila haldið.
    Nú ætla ég að vona að enginn taki orð mín svo að ég sé að fullyrða að eitthvað bjáti á í þessu og tölur séu ekki réttar eða allar brtt. hafi ekki komið fram. Ég vona að þetta sé allt saman pottþétt, eins og ég heyri að hv. formaður nefndarinnar segir úr hliðarsal. Ég tek undir það með honum, en ég hefði talið að það hefði verið öruggara að fara yfir þetta í meiri ró og með meiri gætni og taka síðan þessa lokaumræðu um fjárlög fyrir næsta ár, t.d. á mánudag eða eftir þessa í hönd farandi helgi.
    Fjárln. hefur að undanförnu rætt við fulltrúa Þjóðhagsstofnunar sem hafa gefið nefndinni, eins og reyndar þjóðinni allri, upplýsingar um að nokkuð hafi rofað til í framvindu efnahagsmála á síðustu vikum og mánuðum. Er það auðvitað ánægjulegt að sjá að nú skuli vera hægt að vænta þess að þjóðartekjur vaxi nokkuð á þessum vikum og jafnframt að hagur ríkissjóðs vænkist þá sem hlutfall af þeirri auknu veltu í þjóðfélaginu. Það er líka nokkuð athyglisvert og gaman að draga það fram að þessi bætti þjóðarhagur, ef það má orða það svo, er eingöngu tengdur fiskveiðum og sjósókn. Það er sjávarútvegurinn nú eins og svo oft áður sem hjálpar til. Þangað sækjum við okkar megintekjur og þess vegna munar auðvitað mikið um það þegar einhverjir ánægjulegir atburðir gerast á því sviði. Viðbótin sem við erum að fá inn í þjóðfélagið er vegna margumræddra Smuguveiða, vegna veiða á svokölluðum Flæmska hatti og vegna þess sem við höfum stundum kallað Rússaþorsk. Hefur sá ágæti fiskur þó ekki alltaf verið hátt skrifaður hjá ýmsum þegar fjallað hefur verið um þau skip sem hafa komið til löndunar á þeim fiski og ýmsir verið uppi með --- ég þori kannski ekki að segja lítilsvirðingu, en mér finnst oft að það hafi verið talað um það eins og það væri ekki mikils virði að fá þennan viðbótarafla af rússneskum togurum inn í okkar fiskvinnslustöðvar. En þegar upp er staðið og Þjóðhagsstofnun hefur sest yfir tölurnar þá kemur í ljós að þetta hefur haft umtalsverð áhrif á okkar þjóðarhag. Þessu ber að fagna.
    Þetta segi ég til að draga það sérstaklega fram að það er enn sjávarútvegurinn sem er okkar langsamlega mikilvægasti atvinnuvegur og þarf ekki miklar breytingar á því sviði til þess að það hafi fljótt afgerandi áhrif í þjóðfélaginu.
    Enn höfum við lítið haft upp úr því sem við höfum stundum kallað sókn á ný markaðssvæði, t.d. á margumræddum Evrópumarkaði í tengslum við samninga við Evrópubandalagið en vonandi á það eftir að sanna sig að það verði einnig þjóðinni til tekjuauka þegar til lengri tíma er litið. Þó má minna á og undirstrika það að ýmsir hafa haft uppi efasemdir um og fyrirvara um þær hliðarverkanir sem þeir samningar kunna að hafa á okkar íslenska þjóðfélag.
    Við höfum einnig fengið til fundar í fjárln. fulltrúa frá hagdeild fjmrn. sem fjallar mest um tekjuáætlanir og skattamál í því ágæta ráðuneyti. Hafa fulltrúar þeirrar deildar gert nefndarmönnum grein fyrir því hvert stefni varðandi tekjuhliðina. Því miður, má kannski bæta við, er það svo að þó að nokkuð hafi ræst úr með efnahagsmál síðustu vikur þess árs sem nú er að líða eru ekki miklar væntingar byggðar inn í frv. eða þjóðhagsspána um að þetta hafi afgerandi áhrif á næsta ári, þannig að við búum við það enn að horfast í augu við samdrátt í efnahagslífinu á ýmsum sviðum og það að ekki er útlit fyrir að tekjur ríkisins vaxi mikið.
    Þessi umræða um tekjuáætlun ríkissjóðs var hins vegar mjög seint á ferðinni í fjárln. af þeim ástæðum sem ég rakti í upphafi máls míns vegna þess að allar umræður um tekjuhlið frv. voru svo mikilli óvissu háðar og breytingar var verið að gera á ýmsum þáttum alveg fram á síðasta dag. Um þetta hefur verið mikil umræða í hv. þingi undanfarna daga í tengslum við umræður um skattafrv. hæstv. ríkisstjórnar og ég ætla því ekki, hæstv. forseti, að eyða löngum tíma í að fjalla um þau mál. Það hafa aðrir gert sem hafa unnið þau mál betur og fylgst nánar með breytingum eða hreyfingum þar frá degi til dags. Á ég þar við hv. þm. sem starfa í efh.- og viðskn. en þar er fjallað um skattamálin og reyndar einnig um tekjuhlið fjárlagafrv. svo sem lög um þingsköp Alþingis kveða á um.
    Mig langar þó að mæla fyrir brtt. sem við flytjum, auk mín hv. þm. Jón Kristjánsson, og tengist brtt. sem fulltrúar Framsfl. og Kvennalista í efh.- og viðskn. fluttu varðandi skattafrv. hæstv. ríkisstjórnar. Við höfum talið rétt að fylgja því eftir við umræður og umfjöllun þingsins á fjárlagafrv. að gera grein fyrir því hvaða áhrif þessar skattalagabreytingar hefðu á tekjuhlið fjárlagafrv. ef þær yrðu samþykktar. Eins og hér hefur komið fram áður hefur umræðu um þetta skattalagafrv. verið frestað þannig að ekki er enn séð hver endanlega framvinda mála verður á því sviði. Hefði það mál verið útrætt og afgreitt þá hefðum við vitað um afdrif þeirra brtt. og þá hefði vissulega getað farið svo að þessar brtt. hefðu verið óþarfar eða ekki átt sér neina stoð. En þar sem fyrir þinginu liggja brtt. á skattalögunum frá, eins og ég hef nefnt áður, nokkrum hv. þm. þá höfum við fulltrúar Framsfl. í fjárln. talið rétt að fylgja þeim eftir með brtt. við tekjugrein frv.
    Mig langar nú, hæstv. forseti, að gera nokkuð grein fyrir þeim brtt. sem fluttar eru á þskj. 463.
    Þar er í fyrsta lagi breyting á eignarskatti einstaklinga og gert ráð fyrir því að hann hækki um 750 millj. kr., úr 1.545 millj. í 2.295 millj. Hér er um það að ræða að eignarskattstofn einstaklinga verði breikkaður sem mundi leiða til þess að tekjur ríkissjóðs mundu hækka um 750 millj. kr. Við gerum ráð fyrir því, eins og segir í áliti sem þeir hv. þm. sem flytja brtt. við skattalögin hafa sent fjárln., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á undanförnum árum hefur verið mikið umræða um að taka upp fjármagnstekjuskatt. Ríkisstjórnin hefur lofað aðgerðum á hverju ári en ekkert orðið úr því. Einfaldasta leiðin til að hefja skattlagningu fjármagns er að taka fjármagnseignir inn í eignarskattsstofn, eins og víðast er gert. Fyrsti minni hluti [efh.- og viðskn.] gefur sér þá forsendu að helmingur þeirra fjármagnseigna sem ekki eru taldar fram í dag komi inn í eignarskattsstofn. Lagt er til að skattfrjáls eignarskattsstofn verði hækkaður um 500 þús. kr. hjá einstaklingum og 1 millj. kr. hjá hjónum. Jafnframt er lagt til að sérstakur eignarskattur, eða svokallaður ,,ekknaskattur`` verði felldur niður.``
    Þessar breytingar munu skila ríkissjóði upphæðum eins og ég hef áður getið um.
    Ég vil aðeins ítreka það, virðulegur forseti, að gert er ráð fyrir því á móti breikkun skattstofnsins, að taka inn í hann eignir sem ekki hafa áður verið taldar til eignarskattsstofnsins, að hækka hinn skattfrjálsa eignarskattsstofn um 500 þús. hjá einstaklingum og 1 millj. hjá hjónum.
    Þetta vil ég undirstrika að auk þess, eins og ég gat um áðan, er líka gert ráð fyrir því að sérstakur eignarskattur, sem stundum hefur verið nefndur ekknaskattur, er felldur niður. Er það einmitt 2. liður brtt. okkar á þskj. 463. Þar er gert ráð fyrir því að þessi skattur falli brott og er þar um að ræða 150 millj. kr.
    Þriðji liður brtt. er við tekjuskatt einstaklinga. Gert er ráð fyrir því að hann lækki um 550 millj. kr., úr 14.500 millj. í 13.950 millj. Hér er lagt til að tekjuskattur einstaklinga lækki um þessa áðurgreindu upphæð. Annars vegar er um að ræða að vaxtabæturnar hækki um 200 millj. kr. og hins vegar að barnabótaaukinn hækki um 350 millj. kr.
    Hér er lagt til að verulega sé komið til móts við þá einstaklinga sem verst eru settir, barnafjölskyldur og þá sem þurfa að greiða háan vaxtakostnað. Telja flm. að með þessu móti sé betur komið til móts við þá sem þurfa á aðstoð að halda en með þeim hugmyndum sem mest hafa verið í umræðunni að undanförnu að koma upp lægra skattþrepi í virðisaukaskattinum. Kem ég aðeins nánar að því á eftir.
    Í fjórðu brtt. er gert ráð fyrir því að tekjuskattur félaga hækki um 150 millj. kr., úr 2.460 millj. í 2.610 millj. kr. Þar er tillagan sú að hætt verði við þau áform, sem eru í fjárlagafrv., að lækka tekjuskatt félaganna í 33%, og verði álagningin miðuð við 35%. Þetta mundi auka tekjur ríkissjóðs um 150 millj.
    Fimmta brtt. er við liðinn Vörugjald þar sem gert er ráð fyrir að vörugjald gefi 160 millj. kr. tekjuauka, eða hækki úr 3.350 millj. í 3.510 millj. Hér er lagt til að hætt verði við lækkun vörugjalds á nokkrar tegundir sem tengd var lækkun virðisaukaskattsins á matvæli. Ef ég man rétt þá mun þar hafa verið sælgæti, gosdrykkir og eitthvað slíkt, en hér er gert ráð fyrir því að hætta við þessa tilfærslu.
    Í sjöttu brtt. er fjallað um virðisaukaskattinn. Þar er gert ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs aukist um 600 millj. kr., eða úr 37.950 millj. í 38.550 millj. Hér er gert ráð fyrir því að hætt verði við að leggja virðisaukaskatt á fólksflutninga og gistingu sem kosti ríkissjóð 500 millj. Á móti kemur aukin velta miðað við nýja þjóðhagsspá sem talin er skila um 600 millj. kr. og bætt innheimta sem á að skila um 500 millj. Fyrir þessu hefur verið gerð ágæt grein í umræðum um skattalagafrv. og eyði ég því ekki tíma í það, virðulegur forseti, að rekja þetta nánar nú.
    Sjöunda brtt. gerir síðan ráð fyrir því að tekjur minnki af tryggingagjaldinu um 310 millj. kr., eða lækki úr 10.850 millj. í 10.540 millj. kr. Hérna er lagt til að tryggingagjaldið lækki nettó um 310 millj. Annars vegar er lagt til að hætt verði við áform um sérstakt 0,35% tryggingagjald, sem þýðir um 560 millj. kr. minni tekjur, og að tryggingagjald vegna fólksflutninga og gistingar verði fært í það form sem er í dag, sem þýðir um 250 millj. kr. hærri tekjur. Nettóáhrifin á fólksflutninga og ferðaþjónustu eru því um 250 millj. kr. greininni í hag samkvæmt þessu.
    Þegar þessar sjö fyrstu tillögur eru lagðar saman, virðulegur forseti, er um það að ræða að auka tekjur ríkissjóðs um 1 milljarð 660 millj., en þeir liðir sem frá dragast vegna lækkunar eru hins vegar upp á 1 milljarð og 10 millj. þannig að nettótekjuauki fyrir ríkissjóð væri 650 millj. kr. Það er skoðun okkar að með þessum tillögum, eins og ítarlega hefur verið rakið í þingi við umræður við annað mál, muni leiða til skilvirkara skattkerfis og nýtast betur þeim einstaklingum sem verið er að reyna að koma til móts við með breytingum á skattkerfinu. Það muni koma þeim meira til góða og auk þess muni ríkissjóður einnig fá umtalsverðan hag út úr þessum breytingum.
    Við leggjum því til í áttundu brtt. að áætlanir hæstv. ríkisstjórnar um sölu eigna verði teknar til endurskoðunar og í staðinn fyrir 500 millj. komi 300 millj., eða áætlaðar tekjur af þessum lið lækki um 200 millj. kr. Þetta gerum við þar sem við höfum margsinnis haldið því fram að áform hæstv. ríkisstjórnar um einkavæðinguna séu ekki á rökum reistar. Þar fari menn offari og ekki sé líklegt að það takist að selja eignir fyrir hálfan milljarð eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Þar byggjum við m.a. á reynslu frá síðasta ári þar sem ekki náðist markmið fjárlaganna. Ég hygg að ekki hafi náðst nema u.þ.b. helmingurinn sem áætlað var, líklega verið hugsað að afla tekna fyrir milljarð en ekki náðist nema u.þ.b. hálfur milljarður.
    Eins og allir vita er langur vegur frá því að markmiðin í ár náist. Í fjárlögum ársins 1993 er gert ráð fyrir því að selja eignir fyrir 1,5 milljarða kr. en útlit er fyrir að ekki náist að selja eignir nema fyrir u.þ.b. kannski 100 millj. þannig að við teljum að 500 millj. sé ofáætlað og leggjum til að það verði lækkað nokkuð og gerum þó ráð fyrir því að ríkissjóður hagnist þrátt fyrir allt á þessum brtt. okkar um nær hálfan milljarð kr. eða 450 millj.
    Virðulegur forseti. Ég hef nú reynt að gera nokkuð ítarlega grein fyrir þessum brtt. sem við hv. þm. Jón Kristjánsson, sem báðir eigum sæti í fjárln., leggjum til. Við lýsum ánægju okkar með að ríkisstjórnin hefur hopað ögn í hugmyndum sínum um álagningu virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna þó svo við teljum að þar sé ekki enn nóg að gert því eðlilegt hefði verið að fella einnig niður þau áform sem uppi eru um að leggja virðisaukaskatt á gistingu. Ferðaþjónustan er vissulega sú atvinnugreinin sem við höfum bundið miklar vonir við að undanförnu. Þar hefur átt sér stað mikil uppbygging og við væntum þess að á næstu árum muni ferðaþjónustan skila umtalsverðum tekjum í þjóðarbúið og á meðan verið er að byggja þessa þjónustu upp hlýtur það að vera með ólíkindum að íþyngja nýrri atvinnugrein sem er í svo örri uppbyggingu með nýjum skattálögum og þess vegna leggjum við til að horfið verði frá því.
    Þá mundi ég kannski, virðulegur forseti, víkja nokkuð að gjaldahliðinni. Hv. 4. þm. Suðurl., Margrét Frímannsdóttir, sem mælti fyrir nál. minni hluta fjárln., hefur vissulega gert ítarlega grein fyrir bæði tekjuhliðinni, þjóðhagshorfunum og nokkrum þáttum á gjaldahlið sem við teljum ástæðu til þess að fjalla um í okkar nál. og benda á í ræðum okkar í þinginu. Ég vildi þó ítreka og undirstrika frekar nokkur atriði.
    Mun ég fyrst snúa mér að því að ræða nokkuð um heilbrigðismálin vegna þess að þar sýnist mér að forsendurnar sem fjárlagafrv. gengur út frá, nú þegar komið er að lokaafgreiðslu þess og við erum að ræða það við 3. umr., séu allar á mjög veikum grunni reistar. Nú vil ég ítreka og undirstrika það, sem ég hef út af fyrir sig oft sagt áður, að ég tel að í svo útgjaldasömum málaflokki sem heilbrigðis- og tryggingamálin eru þurfi að gæta ýtrasta aðhalds og það þurfi að leita allra leiða til að vel sé farið með þá miklu fjármuni og þess gætt að þeir skili því til þegnanna sem ætlað er, bæði í bótum svo sem tryggingakerfið gerir ráð fyrir og í þjónustu eins og heilbrigðisstofnununum er ætlað að gera. En ég hef haft uppi vissar efasemdir um að hugmyndir hæstv. ríkisstjórnar og þá einkum hæstv. heilbrrh., þess sem nú situr og þess sem sat næst á undan honum, hafi ekki verið vel grundaðar og ekki líklegar til að leiða til þess sparnaðar og hagræðingar sem nauðsynleg er á þessu sviði. Um það höfum við oft fjallað áður, hæstv. forseti, og mætti reyndar tala um það langt mál en ég ætla ekki að rifja upp söguna mikið heldur snúa mér að því fyrst og fremst að ræða um þær hugmyndir sem núna eru uppi í fjárlagafrv. og tengjast þeim brtt. sem meiri hluti fjárln. hefur lagt til við 3. og lokaumræðu um fjárlagafrv. fyrir árið 1994.
    Eins og fram kom hjá hv. framsögumanni minni hluta nefndarinnar áðan voru dregnar til baka tillögur meiri hluta nefndarinnar við 2. umr. um að skera niður tæpar 200 millj. kr. til sjúkratrygginga. Okkur virðist við umræður í nefndinni þessa dagana og við athugun á þeim tillögum sem fyrir okkur hafa verið lagðar að þar sé ýmislegt athugavert og það sem brtt. nú byggja á sé ekki mjög traustur grunnur.

    Ég spurði að því við 2. umr. hvernig hæstv. ráðherrar, hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh., hugsuðu sér að mæta hallanum af heilsukortunum svokölluðu sem áttu að gefa ríkissjóði 400 millj. kr. en hefur nú verið horfið frá. Ég fékk ekki ítarleg svör við því þá en nú hafa hins vegar komið svör í þremur erindum sem fjárln. hefur borist á undanförnum dögum. Langar mig til að gera þeim erindum nokkur skil. Fyrst ætla ég þó að rifja upp þær hugmyndir sem voru settar fram strax við framlagningu fjárlagafrv. þegar það var lagt hér fyrir þingið á haustmánuðum.
    Þá var gert ráð fyrir að spara í sjúkratryggingum 730 millj. kr. Þar munaði vissulega mest um fyrirhugaða sölu heilsukorta svokallaðra. Auk þess var gert ráð fyrir að endurskoða greiðslufyrirkomulag til lækna og átti það að lækka útgjöldin um 30 millj. kr. Þá átti í þriðja lagi að endurskoða greiðslu fyrir röntgenmyndatöku og rannsóknir og lækka útgjöldin um 120 millj. kr. við það. Í fjórða lagi átti að endurskoða fyrirkomulag lyfjaverðlagningar sem átti að leiða til 150 millj. kr. sparnaðar. Loks átti að bjóða út tannlækningar og spara með því 30 millj. kr. Þetta munu hafa verið þær tannlækningar sem tryggingakerfið greiðir fyrir aldraða og öryrkja.
    Þegar ljóst var að ekki yrði af útgáfu heilsukortanna kom fyrsta bréfið til fjárln. Er það bréf dags. 2. des. og gerir ráð fyrir því í nokkrum liðum hvernig mæta megi þessari fjárvöntun. Þá ber svo við að menn komast að þeirri niðurstöðu að nokkurt svigrúm sé í sjúkratryggingakerfinu sem muni geta mætt u.þ.b. þessari sömu upphæð. Virtist það eins og vekja nokkra athygli sumra hv. ágætra viðmælenda nefndarinnar að svo undarlega skyldi vilja til að mögulegur sparnaður skyldi vera nánast alveg sá sami og heilsukortin áttu að gefa af sér þegar farið var að skoða málin --- mikil tilviljun það!
    Þessu átti að ná, virðulegur forseti, ef ég má rekja upp úr þessu bréfi, í fyrsta lagi með því að lækka útgjöld vegna hjálpartækja um 100 millj. kr.
    Í bréfinu segir, með leyfi forseta:
    ,,Ráðuneytið telur að á grundvelli þríþættra aðgerða verði hægt að lækka kostnað vegna hjálpartækja um 100 millj. kr. en aðgerðirnar eru þessar:
    1. Á grundvelli upplýsinga um verð í nágrannalöndunum verði leitað magnafsláttar frá framleiðendum hjálpartækja.
    2. Hjálpartækin verði boðin út.
    3. Í ríkari mæli verði stuðst við upphaflega kostnaðaráætlun seljanda þegar til greiðslu kemur.``
    Í öðru lagi er í þessu bréfi gert ráð fyrir því að lækka kostnað vegna utanferða. Það er kallaður ,,erlendur sjúkrakostnaður`` og þar á að spara 60 millj. kr. Það á að gera í fyrsta lagi með því eins og segir, með leyfi forseta:
  ,,1. Utanferðum vegna valbráraðgerða verði að mestu hætt.
    2. Utanferðum vegna nýrnasteinaaðgerða verði hætt.
    3. Utanferðum vegna glasafrjóvgunar verði að mestu hætt.
    4. Utanferðum vegna hjartaaðgerða verði fækkað verulega.``
    Ekki er nú út af fyrir sig sundurliðað hvernig þessir fjórir liðir eigi að spara 60 millj. en gott ef það tekst. Ekki ætla ég að gera lítið úr því.
    Í þriðja lagi átti síðan tannlæknakostnaður að gefa í viðbót upp í þessa fjárvöntun 100 millj. kr. Það átti að lækka tannlæknakostnaðinn með eftirfarandi aðgerðum:
  ,,1. Eftirlit verði hert með endurgreiðslu ferðakostnaðar vegna tannviðgerða.
    2. Eftirlit verði hert með greiðslu vegna tannviðgerða þannig að einungis verði greitt fyrir meiri háttar meðfædda galla.
    3. Reglur um endurnýjun tanngóma verði hertar verulega.``
    Þessir þrír liðir eiga að spara ríkissjóði 100 millj. kr.
    Ég verð að segja það strax, virðulegur forseti, að ég hef efasemdir um að þetta gangi upp. Auðvitað hef ég það ekki fyrir framan mig hvað ferðakostnaður vegna tannviðgerða er hár en skil ekki að með því einu að herða eftirlit með þessari endurgreiðslu sé hægt að spara umtalsverðar upphæðir. Í öðru lagi skil ég ekki næsta lið sem gerir ráð fyrir að með því að herða eftirlit með greiðslum vegna tannviðgerða þannig að einungis

verði greitt fyrir meiri háttar meðfædda galla. Hvernig á þetta yfirleitt að hljóma saman? Kannski er hér átt við tannréttingar. En almennt held ég að menn kalli tannviðgerðir eitthvað annað en það sem tilheyrir meiri háttar meðfæddum göllum. A.m.k. er þá hér verið að fara algerlega yfir á nýja braut og væri fróðlegt og hefði náttúrlega verið nauðsynlegt, virðulegur forseti, að geta spurt hæstv. heilbr.- og trmrh. út í þetta mál. En mér skilst að hann sé því miður forfallaður í dag og ekki von á upplýsingum að þessu sinni. En ég óttast að þær upplýsingar sem við fáum þegar upp verður staðið verði þær að það hafi ekki tekist að ná fram þessum áætlaða sparnaði.
    Þriðja liðnum ætla ég ekki að gleyma en hann er dálítið sérstakur líka. Ég veit ekki hversu mikill kostnaður hvílir á sjúkratryggingum vegna þess sem þar er nefnt, en þar hlýtur að eiga að spara umtalsverðar fjárhæðir, en það var að herða verulega reglur um endurnýjun tanngóma. Á þessum þremur þáttum á að spara 100 millj. kr.
    Síðan eru hér nefndir tveir litlir liðir. Sjúkradagpeningagreiðslur á að lækka um 20 millj. með því að herða eftirlit, eins og segir reyndar um flesta þessa liði, með greiðslum sjúkradagpeninga til einstaklinga sem dvelja til lengri tíma á stofnunum. Sjúkraþjálfun á einnig að lækka með því að endurskoða reglur um greiðslu kostnaðar vegna sjúkraþjálfunar um aðrar 20 millj.
    Til þess að ná upp í 400 millj. kr. áætlaða sparnaðinn er loks gert ráð fyrir því að spara í lyfjakostnaði í viðbót við það sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. sjálfu. Þar voru nefndar 150 millj. kr. en á nú að endurskoða, eins og segir, með leyfi forseta, í þessu bréfi: ,,Gengið verði enn lengra en forsendur fjárlagafrv. gera ráð fyrir í sparnaði lyfjakostnaðar þannig að til viðbótar fyrri áformum náist 100 millj. kr. sparnaður, m.a. með sértækum aðgerðum til lækkunar á kostnaði vegna magasárslyfja.`` Ég endurtek af því að þetta mun endurtekið síðar hér í ræðu minni, virðulegur forseti, ,,sértækar aðgerðir til lækkunar kostnaðar vegna magasárslyfja upp á 100 millj. kr.``
    Þetta bréf var dags. 2. des. og átti að spara sjúkratryggingunum 400 millj. kr. á móti því sem gert hafði verið ráð fyrir að innheimta með álagningu svokallaðra heilsukorta.
    En fjórum dögum seinna berst hv. nefnd nýtt bréf frá heilbr.- og trmrn. það er dags. 6. des. þar er verið að leita leiða til að mæta þeim 180 millj. kr. sem reyndar voru lagðar fram sem sparnaðartillögur við 2. umr. en dregnar til baka til 3. umr. og eru nú endurfluttar eins og fram kom í framsöguræðu hv. formanns nefndarinnar áðan.
    Þá ber svo við að í þessu bréfi segir, með leyfi forseta, og er þá verið að fjalla um sjúkratryggingar.
    ,,Ráðuneytið hefur endurskoðað áætlanir sínar um sjúkratryggingar fyrir árið 1994. Svo virðist sem ýmsar þær sparnaðaraðgerðir sem gripið var til á síðasta ári hafi skilað meiri árangri en tekið var tillit til í forsendum áætlunarinnar fyrir árið 1994.``
    Því ber vissulega að fagna ef þær aðgerðir sem gripið var til hafa náð meiri árangri en áður hafði verið gert ráð fyrir, þ.e. meiri en gert hafði verið ráð fyrir þegar fjárlagafrv. var samið í sumar og lagt fram í haust og meiri árangri en gert hafði verið ráð fyrir þegar verið var að leita sparnaðarleiða til að mæta 400 millj. kr. nokkrum dögum áður. Þá hefur þetta allt í einu komið í ljós, milli 2. og 6. des. Er þess þó ekki að neinu getið í því fjáraukalagafrv. sem við erum rétt búinn að fjalla um. Þar var a.m.k. ekki sýnt fram á viðbótarsparnað í sjúkratryggingunum en ánægjulegt væri ef sú yrði niðurstaðan þegar upp er staðið og við sjáum endanlegar tölur um útgjöld almannatryggingakerfisins okkar við áramót.
    En hvernig á að ná þessum 180 millj. kr. sem á að spara til viðbótar, virðulegur forseti. Þar segir, ef ég má enn vitna í þetta nýja bréf, með leyfi:
    ,,Ráðuneytið gerir ráð fyrir að heildaráætlunartala sjúkratrygginga lækki um 180 millj., úr 9.540 millj. í 9.360 millj. kr. Í þessari endurskoðuðu áætlunartölu er ekki gert ráð fyrir tekjum af heilsukortum en gert er ráð fyrir að önnur áform frv. til sparnaðar haldist, þ.e. áform um 150 millj. kr. lækkun lyfjakostnaðar, 120 millj. kr. lækkun röntgenrannsóknakostnaðar, 30 millj. kr. lækkun lækniskostnaðar og 30 millj. kr. lækkun tannlæknakostnaðar. Þessu til viðbótar komi ný sparnaðaráform sem áætlað er að skili 180 millj. kr.

sparnaði en viðbótaraðgerðirnar eru þessar.``
    Ég vil benda hv. þm. á að þessi upptalning er úr fjárlagafrv. sem lagt var fram í haust og inn í það hafa þessar tölur verið reiknaðar einhvern tímann í sumar. En einhvern veginn virðist eins og það hafi gleymst að í millitíðinni var búið að leggja til sparnaðartillögur upp á 400 millj. kr. sem áttu að nást með ýmsu móti. Og nú á að ná 180 millj. kr. sparnaði í viðbót. Hverjar eru þær tillögur, virðulegur forseti, sem koma fram í þessu ágæta bréfi? Þær eru nákvæmlega þær sömu og ég er búinn að lesa upp úr bréfinu frá 2. des. Nákvæmlega þær sömu nánast orðréttar.
    Það er auðvitað ágætt ef mönnum hefur tekist á þessum fjórum dögum að átta sig á því að af þessum liðum, sem ég hef verið að tíunda hér á undan, sé ekki bara hægt að spara 400 millj. kr. heldur 200 millj. kr. til viðbótar. En hér segir, með leyfi forseta, tölurnar eru að vísu aðeins breyttar en textinn nánast sá sami:
    ,,Hjálpartæki. Útgjöld vegna hjálpartækja verði lækkuð um 50 millj. kr. frá því sem fram kemur í töflu yfir sjúkratryggingar. Ráðuneytið telur að á grundvelli þríþættra aðgerða verði hægt að lækka kostnað vegna hjálpartækja um 50 millj. kr. en aðgerðirnar eru þessar:
    1. Á grundvelli upplýsinga um verð í nágrannalöndunum verði leitað magnafsláttar frá framleiðendum hjálpartækja.
    2. Hjálpartækin verði boðin út.
    3. Í ríkari mæli verði stuðst við upphaflega kostnaðaráætlun seljanda þegar til greiðslu kemur.``
    Nákvæmlega það sama og var í bréfinu fjórum dögum áður og átti þá að gefa af sér 100 millj. Hér er gert ráð fyrir að með þessum sömu aðferðum sé nú hægt að bæta við 50 millj. kr.
    En það á líka að grípa til fleiri aðgerða, virðulegur forseti. Það á að lækka erlendan sjúkrakostnað. Og það á að gera með því að fækka utanferðum vegna hjartaaðgerða og spara um 15 millj. kr. Í 400 millj. kr. sparnaðinum var gert ráð fyrir þessu sama. Ekki veit ég nú hversu margar utanferðir til hjartaaðgerða hafa verið farnar á þessu ári, ég hef það því miður ekki. En hér sýnist mér að gert sé ráð fyrir sparnaði við þessar utanferðir um líklega a.m.k. aðrar 15 í fyrri tölunni þannig að hér séu 30 millj. kr. eða kannski meira, því að það var ekki ítarleg sundurliðun í fyrra bréfinu á erlendum sjúkrakostnaði sem átti að lækka um 60 millj. kr.
    Síðan er gert ráð fyrir að lækka sjúkradagpeningagreiðslur, virðulegur forseti. Og hvernig ætti nú að gera það? Þar kemur nefnilega aftur nákvæmlega sami texti og var í fyrra bréfinu sem ég las áðan. Og til frekari áréttingar vil ég leyfa mér að lesa aftur, með leyfi forseta, úr hinu nýja bréfi sem er frá 6. des.:
    ,,Skerpt verði á eftirliti með greiðslum sjúkradagpeninga til einstaklinga sem dvelja um lengri tíma á stofnunum. Í slíkum tilvikum verði einungis greiddir vasapeningar. Stefnt er að því að hert eftirlit skili 15 millj. kr.``
    Í fyrra bréfinu átti þetta herta eftirlit að skila 20 millj. kr.
    Loks er gert ráð fyrir að spara enn í viðbót 100 millj. kr. í lyfjum. Hvernig á að gera það, virðulegur forseti? Það á að gera með sértækum aðgerðum til lækkunar á kostnaði vegna magasárslyfja. Það hefur verið mikill kostnaður við þessi magasárslyf. 100 millj. átti að taka 2. des. og aðrar 100 millj. kr. 6. des.
    Nú, ekki er allt upptalið, virðulegur forseti, því að 16. des. berst fjárln. enn bréf, nú frá fjmrn. Þar er komið í ljós að horfið sé frá að eignatekjutengja lífeyrisgreiðslur almannatryggingakerfisins þannig að hækka þarf útgjöld til lífeyristrygginga um 200 millj. kr. og reynt er að ná þessum 200 millj. kr. innan heilbrigðisþjónustunnar. Helmingnum af í sjúkratryggingunum og hinum helmingnum á ýmsum öðrum smærri liðum sem ég ætla ekki að eyða tíma í að telja upp en 100 millj. kr. á að ná í sjúkratryggingum með því að lækka greiðslur til lækna í tengslum við nýja samninga Læknafélags Reykjavíkur og Tryggingastofunarinnar, annars vegar um 70 millj. kr., sem eru trúlega greiðslur til sérfræðinga, og síðan um 30 millj. kr. í samningum við heilsugæslulækna.

    Ég vil ítreka það aftur, virðulegi forseti, eins og ég sagði áður en ég hóf að rekja sögu þessara mála að ég fagna því sannarlega ef hægt er ná svo mikilli hagræðingu eða sparnaði og ef það er raunin þegar upp er staðið að þetta ár sem nú er að líða komi út með miklum sparnaði umfram það sem fjárlög ársins í ár gerðu ráð fyrir. Þá er ekki nema gott eitt um það að segja ef hægt er að lækka kjarasamninga við einhverjar stéttir sem menn telja að hafi verið ofhaldnar, trúlega er það það sem menn eru hér að gera ráð fyrir.
    Ef þessar tölur eru teknar saman, virðulegur forseti, og einstakir liðir sem hér hafa verið nefndir þá á að lækka kostnað við hjálpartæki um 150 millj. samtals, 100 millj. vegna heilsukortanna sem töpuðust og 50 millj. vegna 180 millj. kr. áætlaða sparnaðarins.
    Greiðslur til lækna á að lækka um 250 millj. kr., það eru 30 millj. í frv., það eru 120 millj. vegna röntgen- og rannsóknaþjónustunnar sem er kannski ekki eingöngu til lækna. Það geta auðvitað líka verið greiðslur til sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana sem eru innifaldar í þeim lið og svo með 100 millj. kr. sparnaði vegna nýrra samninga. Og lyfin eiga enn að taka á sig stærstu upphæðina, upp á 350 millj. kr., það er í endurskoðun á verðlagningu, 150 millj., það er til þess að mæta niðurskurðinum vegna heilsukortanna, 100 millj., og það á einkum að nást af magasárslyfjum og svo aftur 100 millj. af þessum 180 millj. á sama hátt.
    Greiðslur til tannlækna eiga að lækka um 130 millj. samtals, 30 millj. sem á að ná með því að bjóða út þjónustu þeirra við gamla fólkið eða aldraða og öryrkja og 100 millj. sem á að ná með því að lækka ferðakostnaðinn, tannviðgerðirnar og þessa endurnýjun tanngóma, þetta þrennt á að spara 100 millj.
    Síðan voru aðrir smærri liðir eins og erlendi sjúkrakostnaðurinn upp á 75 millj., sjúkradagpeningarnir upp á 35 millj. og sjúkraþjálfunin upp á 20 millj. Samtals eru þetta 1.010 millj. kr.
    Þegar frv. var lagt fram í haust þá var gert ráð fyrir því að sparnaður með breytingum með því að draga úr greiðslum fyrir hina ýmsu þætti væri 330 millj. kr., þegar heilsukortin eru talin frá, 330 millj. kr., þannig að viðbótarsparnaður, sem nú er ráðgerður og hefur verið að mótast í heilbrrn. þessa haustmánuði, er 700 millj. kr. til viðbótar.
    Enn ítreka ég það, hæstv. forseti, að það er ánægjulegt ef þetta tekst án þess að það dragi verulega úr þeirri þjónustu sem við viljum sannarlega að heilbrigðiskerfið okkar veiti þeim sem á því þurfa að halda. Ef þetta er hægt að gera með því að hér hafi verið illa farið með fé og í sumum tilfellum kannski bruðlað með fé, þá ber að fagna því. En ég verð að segja það eins og er að ég mér finnst þessar tillögur, eins og þær eru lagðar fram, og það sem er á bak við þær eins og fram hefur komið í þessum tveimur bréfum sérstaklega sem ég hef borið saman, virðulegi forseti, og eytt nokkrum tíma í að ræða, ekki mjög traustvekjandi og ég óttast það og tel að þetta raunar undirstriki enn betur en nokkru sinni fyrr það álit sem við stjórnarandstæðingar höfum oft haldið fram að hinir ýmsu þættir þessa fjárlagafrv. séu því miður ekki á nógu traustum grunni reistir.
    Hv. 4. þm. Suðurl. fór ítarlega yfir stöðu mála hjá stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík og ætla ég því ekki að eyða löngum tíma, virðulegur forseti, í að fjalla mikið meira um það en langar þó aðeins til að geta þess að ég tel að þar hefði mátt lagfæra nokkra þætti án þess að verja í það mjög stórum upphæðum sem hefði verið afar mikils virði, afar þýðingarmikið. Mig langar t.d. að nefna úr erindi frá stjórnarnefnd Ríkisspítalanna beiðni þeirra um að fjölga sérfræðingum kvennadeildar um tvo. Þetta vil ég taka fram sérstaklega vegna þess að landlæknir hefur m.a. í sínu erindi til nefndarinnar einnig lagt áherslu á þennan þátt eða þetta atriði og talið að það væri nauðsynlegt til þess að öryggis sængurkvenna á kvennadeild sé gætt að fullu eða svo sem kostur er. Kostnaður við þetta er af stjórnarnefndinni áætlaður 8 millj. kr. og hefði kannski mátt komast af með helminginn af því og ráða þá ekki nema annan þennan sérfræðing sem hér var beðið um.
    Hinn þátturinn sem mig langar sérstaklega að nefna úr þessu erindi, sem er ítarlegt og tekur á ýmsum þáttum, varðar hugmyndir stjórnarnefndarinnar um að efla eða styrkja vísindastarfsemi á vegum Landspítalans og undirstrika á þann hátt eða með því móti

mikilvægi Landspítalans sem háskólasjúkrahúss og undirstrika líka með því móti mikilvægi þess að við reynum að stefna fram á við í þessum mikilvæga málaflokki. Þó að á bjáti eða erfiðlega gangi í okkar efnahagsmálum um sinn. Við megum ekki missa sjónar á því sem er okkur mikils virði og mikilvægt og stefnir til framtíðar. Við höfum einnig oft og tíðum horft til heilbrigðisþjónustunnar sem eins af þeim þáttum sem getur verið vaxtarbroddur í okkar atvinnulífi, hugsanlega aukið gjaldeyristekjur okkar ef vel er á málum haldið en það gerist auðvitað ekki ef stöðugt er skorið niður og stöðugt dregið úr þessari starfsemi í stað þess að reyna að treysta hana og styrkja og efla hana til þess að geta orðið þáttur í okkar gjaldeyrisöflun.
    Þetta vildi ég nefna einnig, virðulegur forseti. Umsóknin til þess að framfylgja þessari stefnu hljóðaði upp á 9,4 millj. en auðvitað hefði líka verið hægt að mæta þar í einhverju óskum með lægri upphæð en sótt var um.
    Borgarspítalinn lagði einnig fram ítarlegt erindi fyrir fjárln. og rakti þar ýmsa þætti sem talið var nauðsynlegt að skoða ef spítalinn ætti ekki að fara yfir á næsta ár með verulegan skuldahalla eða rekstrarhalla sem þeir áætla að kunni að verða um 120 millj. kr. og áætla reyndar að til þess eins að halda óbreyttri starfsemi á næsta ári þurfi sjúkrahúsið á um 180 millj. kr. að halda í viðbót við þær upphæðir sem eru í fjárlagafrv. og ég segi aftur að þó ekki hefði verið hægt að verða við því öllu saman þá eru hér nokkrir liðir sem ég hefði talið nauðsynlegt og eðlilegt að líta á og álít að nauðsynlegt hefði verið að skoða og lagfæra. Þar er t.d. greint frá því ítarlega að það séu ekki líkur á því að sjúkrahúsið nái þeim sértekjum sem því eru áætlaðar. Hvaða tilgangur er í því að áætla sjúkrahúsinu að innheimta miklu meiri sértekjur en nokkur von er til þess að það nái?
    Við sáum og höfðum fyrir okkur dæmi um þetta eða hliðstætt atriði varðandi sértekjuáætlun Ríkisspítalanna á þessu ári sem nú er að líða þar sem þeim var áætlað að innheimta miklu meiri sértekjur en mögulegt var. (Gripið fram í.) Út af þessu innskoti eða inngripi hv. þm. Egils Jónssonar sem gekk hér hjá ræðustólnum þá vil ég segja það við þann ágæta þingmann að ég tel að ég hafi hér í ræðu minni, sem að vísu er orðin líklega um klukkutíma löng eða svo, farið yfir liðina sem ég vildi nefna og árétta mjög málefnalega og rakið þá lið fyrir lið mjög greinilega án þess að eyða nokkrum tíma, varla nokkurri mínútu í það sem mætti kalla málþóf eða endurtekning. Ég hef verið að fara yfir þau atriði sem ég vildi leggja sérstaka áherslu á, hv. þm. og virðulegur forseti, og er nú senn að ljúka máli mínu því ég er senn að verða búinn að rekja þá þætti sem ég vildi undirstrika. En ég leyfi mér að andmæla alveg ákveðið þessari fullyrðingu hv. þm. Egils Jónssonar að hér sé uppi eitthvert málþóf enda hef ég ekki lagt það í vana minn að stunda það í þessum ræðustóli.
    Ég var að tala um málefni Borgarspítalans og ætla aðeins að hverfa að því aftur þar sem ég var truflaður af hv. þm. og hafi einhver leitt til málþófs þá var það auðvitað þetta frammíkall hans en það getur varla talist málþóf þó maður svari með einni eða tveimur setningum, svona óverðskulduðu frammíkalli. Ég var að tala um að það væru ekki líkur á því að Borgarspítalinn næði að innheimta þær sértekjur sem honum eru áætlaðar í fjárlagafrv. og undirstrika að ég tel að það sé óskynsamlegt að leggja til í fjárlagafrv. eða fjárlögum að stofnanir innheimti miklu meiri sértekjur heldur en þær telja mögulegt öðruvísi en gera þá grein fyrir því hvað vakir fyrir þeim sem tillögurnar leggja fram, þ.e. hæstv. heilbrrh. í þessu tilviki og hæstv. ríkisstjórn, og gera þá stofnununum grein fyrir því með hvaða hætti þær eigi að afla þessara viðbótarsértekna.
    Ég hef a.m.k. ekki orðið var við það í störfum fjárln. á þessu hausti að það hafi verið ítarlega farið ofan í þetta mál eða yfir þessar óskir sjúkrahúsanna en undirstrika að auðvitað getur það hafa verið gert og vonandi hefur það verið gert í störfum meiri hluta nefndarinnar en það hefur ekki verið gert á sameiginlegum fundum nefndarmanna allra.
    Þá er aðeins ónefnt þriðja sjúkrahúsið af þessum sem oft eru kölluð stóru sjúkrahúsin í Reykjavík, þ.e. St. Jósefsspítalinn á Landakoti og þarf varla að fara mörgum orðum um það, virðulegur forseti, hversu illa er farið með það sjúkrahús í fjárlagatillögunum vegna þess að þar er gert ráð fyrir gríðarlegum niðurskurði sem mun auðvitað gjörbreyta rekstri þeirrar stofnunar ef ekki hreinlega, eins og stjórnendur sjúkrahússins sögðu á fundi fjárln. þegar þeir komu þar og gerðu grein fyrir sínu erindi, rústa starfsemi spítalans svo notuð séu þeirra eigin orð. Þar á að skera niður um 150 millj. kr. Gert er að vísu ráð fyrir að flytja til verkefni frá því sjúkrahúsi en ekki hefur enn þá verið lögð fram tillaga um það hvert eigi að flytja þau verkefni og hvaða fjármunir eigi að standa undir þeim kostnaði sem af því kann að leiða annars staðar og engar upplýsingar veittar stjórnendum sjúkrahússins, a.m.k. hafði það ekki verið gert þegar þeir gengu á fund fjárln., þá höfðu engar viðræður farið fram af hálfu ráðuneytisins við forsvarsmenn stofnunarinnar og engar hugmyndir eða tillögur verið sendar þeim um það hvernig að þessu ætti að standa.
    Síðan langar mig, virðulegur forseti, að minna aðeins á erindi þau sem landlæknir lagði fyrir nefndina og þó auðvitað væri ekki hægt að verða við þeim öllum frekar en öðrum erindum sem ekki er hægt að sinna að fullu þá fagna ég því að meiri hluti nefndarinnar hefur lagt það til að færðir verði til fjármunir eða hliðrað verði til á einstaka fjárlagaliðum þannig að hægt sé að sinna tveimur af þeim erindum sem landlæknir lagði kannski hvað mesta áherslu á í sínu erindi, þ.e. svokallaðri fjargreiningu með símsendingu röntgenmynda og slysavörnum eða með því að leggja nokkra fjármuni til slysavarna og rannsókna á því sviði.
    Þá langar mig einnig, svo hv. meiri hluti fjárln. njóti a.m.k. sannmælis um þá þætti sem ég get verið ánægður með í þeirra starfi, til að þakka þeim fyrir brtt. sem lagðar hafa verið fram við 6. gr. fjárlagafrv. Önnur þeirra varðar mál sem ég hef nokkuð barist fyrir á undanförnum árum og það er að fá fjármuni til þess að aðstoða nokkrar smærri hitaveitur sem eiga í fjárhagserfiðleikum eða hafa orðið að leggja svo há gjöld á notendur sína í heimtaugargjaldi og gjaldskrá að varla er hægt að bera þær saman við hitunarkostnað hjá hliðstæðum veitum annars staðar. Auk þess sem ég tel að með því að fá í þetta fjármuni væri gætt jafnræðis milli hitaveitna sem áður hafa fengið aðstoð á fjárlögum eða fjáraukalögum og hafa verið í svipaðri stöðu eins og þær sem hér er verið að tala um. Hv. formaður fjárln. gerði ítarlega grein fyrir þessu í framsöguræðu sinni og þarf ég því ekki að orðlengja um það mál frekar en þó ekki sé sett hér inn ákveðin fjárupphæð þá er þó komin heimild fyrir fjmrh. í samráði við iðnrh. og með samþykki fjárln. að koma til aðstoðar.
    Í öðru lagi tel ég að hér hafi einnig náðst fram mikilvægt mál þar sem í síðustu brtt. við 6. gr. er gert ráð fyrir því að fjmrh. hafi heimild til þess að leggja fjármuni í svokallaðan vinnumatssjóð Háskólans á Akureyri. Fyrir þessu hafa starfsmenn við Háskólann á Akureyri barist á undanförnum árum og reynt að leita réttar síns í samræmi við það sem gerst hefur hjá Háskóla Íslands. Vissulega er þetta hluti af kjarasamningi og hefur þegar verið undirritaður kjarasamningur við starfsmenn Háskólans á Akureyri þar sem rætt er um vinnumatskerfi en það hins vegar ekki komist endanlega á og ég vona að þessi heimild verði til þess að ýta á þá vinnu og að það verði áður en langt líður samþykktar reglur um vinnumatskerfi við Háskólann á Akureyri þannig að þeir sem þar starfa sitji við sama borð og starfsfélagar þeirra hjá Háskóla Íslands.
    Þetta vildi ég hafa nefnt hér, virðulegur forseti, og tel mikilvægt að hafa fengið þessar heimildir inn í brtt. og gef mér það þá að sjálfsögðu að þær verði samþykktar við atkvæðagreiðslu að lokinni þessari umræðu.
    Nú hef ég, virðulegur forseti, farið yfir þau atriði sem ég hafði mestan áhuga á að undirstrika og ræða sérstaklega eða ræða nánar við þessa 3. umr. um fjárlagafrv. fyrir næsta ár en ítreka þó og undirstrika í lokin að það er auðvitað ótal margt fleira sem hefði verið ástæða til að draga fram og benda á í þessari umræðu til þess að sýna fram á hversu ég tel og við minnihlutamenn teljum að þetta fjárlagafrv. sé á veikum grunni reist. Við ræddum það nokkuð við fjárlagagerð fyrir ári síðan hvernig við litum á fjárlagafrv. sem þá var til meðhöndlunar og höfðum efasemdir um að þær tölur sem þar voru settar fram og sá fjárlagahalli sem þar var að lokum samþykktur mundi standast. Og hvað hefur gerst? Þá sögu þarf ekki að rekja, hún er kunn öllum hv. þm. og reyndar þjóðinni allri og verður auðvitað ekki sagt um það nema eitt að hún ber þess glöggt vitni að efnahagsstefna

hæstv. ríkisstjórnar hefur beðið skipbrot og ég óttast það mjög, virðulegur forseti, að svo verði einnig með það fjárlagafrv. sem við erum nú að ræða við lokaumræðu, að það muni einnig eiga eftir að koma í ljós að þar séu ekki öll kurl komin til grafar.