Fjárlög 1994

70. fundur
Laugardaginn 18. desember 1993, kl. 21:17:05 (3101)


[21:17]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þá erum við komin að því að ræða við 3. umr. um fjárlög og það

hefur verið rakið allvel í þeim þremur umræðum sem við höfum haft um þessi fjárlög hvernig þau eru tilkomin og hvernig ástandið verður á fjárlögum næsta árs að óbreyttu. Það er útlit fyrir mikinn halla þar og þrátt fyrir það að útlit sé fyrir betra ástand á næsta ári í þjóðarbúskapnum í heild þá er ekki hægt að sjá að það muni skila sér í fjárlögunum, því er nú verr og miður.
    Mér finnst samt rétt að vekja sérstaklega athygli á einu í sambandi við teknahliðina af því að það er teknahliðin sem við erum að ræða hér, teknahlið, B-hluta fjárlaga og 6. gr. Að mestu leyti er umræðunni um gjaldahlið fjárlaga lokið við 2. umr. en í frv. hér eftir 2. umr. kemur það fram að í teknahlið fjárlaga er virðisaukaskattur 37 milljarðar 950 millj. kr. Með þeim breytingum sem nú er verið að leggja til kemur raunar í ljós að virðisaukaskatturinn verður heldur meiri og það finnst mér skjóta nokkuð skökku við þar sem hér hefur einmitt verið rætt um það að lækka virðisaukaskattinn og það mundi hafa þau áhrif að það mundi innheimtast miklu minna af honum á næsta ári þannig að hann yrði minna vægi í tekjuöflun ríkissjóðs en samkvæmt áætlunum á hann að gefa 38 milljarða og 815 millj. kr., þ.e. um það bil einum milljarði meira en gert var ráð fyrir við fyrri umræðu.
    Það eru, e.t.v. bara þessar betri forsendur í þjóðarbúskapnum sem valda því að nú virðist vera hægt að innheimta aðeins meira og að tekjuhlið fjárlaga líti svona heldur skár út.
    Frsm. minni hluta fjárln. lýsti því mjög vel í sinni framsöguræðu þegar hún gerði grein fyrir nefndaráliti minni hlutans hvernig staðan er í ríkisbúskapnum. Það er 10 milljarða halli. Hann hefur ekki minnkað í meðförum fjárln., síður en svo, og við stöndum frammi fyrir því að hann er orðinn í kringum 30 milljarðar á tveimur árum í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þetta höfum við svo sem rakið hér margoft og þarf ekki að margendurtaka það, en það sem ég að öðru leyti vildi nefna eru nokkrir liðir, þ.e. að í brtt. meiri hlutans er gert ráð fyrir auknu framlagi í það sem merkt er atvinnumál kvenna. Það er í yfirstandandi fjárlögum 15 millj. kr. en verða 20 millj. á næsta ári samkvæmt fjárlagafrv. og þetta var liður sem hét Atvinnumál kvenna á landsbyggðinni. Þessum texta hefur verið breytt í Atvinnumál kvenna þannig að hann nái þá yfir konur á öllu landinu en því miður tókst ekki í meðförum fjárln. að hækka þennan lið um nema 5 millj. kr. og verður það að teljast allt of lág upphæð þegar mið er tekið af því að atvinnuleysi kvenna er tvöfalt hærra en karla og það er margfalt hærra hér á Reykjavíkur- og höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og er það þó nóg þar. Ég vil því gagnrýna það að ekki skuli hafa fengist meiri fjármunir til atvinnumála kvenna heldur en þetta því að vissulega hefði verið full þörf á því a.m.k. að tvöfalda þennan lið.
    Þá vil ég einnig gagnrýna það að ekki hefur fengist fullkomin niðurstaða á framlagi til vistheimilisins að Sólheimum. Þar hefur ekki enn tekist að gera þann samning sem lofað hefur verið í heilt ár og kom fram í umræðu um fjárlög á síðasta ári þar sem þáv. formaður fjárln. taldi að nú yrði gerður samningur til lengri tíma og komið á föstum skorðum á þeim fjárveitingum sem vistheimilið mundi fá. Það hefur ekki enn gerst. Því hefur verið vísað til fjárln. en hv. fjárln. hefur ekki enn náð að koma því í verk að gera þann samning. Þess gjalda nú vistmenn að Sólheimum að ekki er búið að ganga frá þessu nægilega tryggilega.
    Eitt verð ég þó að hrósa meiri hlutanum í fjárln. fyrir, að loksins sé fyrir einhvern vott af því að farið sé eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í niðurgreiðslu á húshitun þar sem nú hefur allt í einu verið hækkaður sá liður sem heitir niðurgreiðsla á rafhitun um 50 millj. kr. og er það þó alla vega vottur í þá átt að halda áfram niðurgreiðslu á húshitun eins og lofað hafði verið í upphafi en hefur ekki verið staðið við í tæp tvö ár. Ríkisstjórnin reið á vaðið nokkuð myndarlega með þetta 1. júní 1991 og síðan ekki söguna meir fyrr en það sést núna vottur af þessu, eins og ég sagði, í væntanlegum fjárlögum.
    Ég ætla ekki að taka frekar brtt. meiri hlutans. Ég áskil mér að sjálfsögðu rétt þó að ég standi ekki að þeim tillögum til að greiða atkvæði með þeim þar sem mér þykir það eðlilegt og ég get stutt þær sumar hverjar, aðrar alls ekki og get þá gert grein fyrir því í

atkvæðagreiðslu.
    Þá er þess að geta að við umfjöllun um B-hluta fjárlaga kom í ljós það sem menn svo sem höfðu vitað áður í sambandi við Ríkisútvarpið að það er í raun og veru mjög fjársvelt stofnun, þ.e. þeir hafa ekki getað fengið hækkuð afnotagjöld á síðasta ári og þeir hafa ekki neina von um að þau verði hækkuð á næsta ári. Það kemur alla vega ekkert fram í fjárlögum eða fjárlagafrv. að það sé neitt fyrirhugað og þeir horfa fram á erfiðleika í sínum rekstri ef ekki verður úr bætt.
    Þá má einnig geta þess sem kemur fram í áliti okkar í minni hluta fjárln. að hjá Ríkisútvarpinu eru árlega felld niður afnotagjöld hjá almannatryggingaþegum og það mun jafngilda á næsta ári 190 millj. kr. tekjutapi fyrir Ríkisútvarpið og að þeir hafa verið með beiðni um að þetta mál væri skoðað og a.m.k. komið til móts við þetta með helmingagreiðslum frá almannatryggingakerfinu en þeir hafa eftir sem áður alltaf orðið að taka þetta tekjutap á sig.
    Rafmagnsveitur ríkisins standa í miklum framkvæmdum til þess að reyna að styrkja rafdreifikerfi í sveitum og þrátt fyrir það að framlög ríkisins hafi á undanförnum 14 árum lækkað úr tæpum 195 millj. á föstu verðlagi í um 15 millj. Það hefur margoft verið gagnrýnt hér úr þessum ræðustól á síðustu tveimur þingum að ekki er nógu vel að þessum málum staðið og hefur það oft sýnt sig í óveðrum sem ganga yfir landið að rafdreifikerfi í sveitum er á fallanda fæti, þarfnast mikils viðhalds og samkvæmt því sem Rafmagnsveitur ríkisins sögðu okkur í fjárln. þarf á næstu 5 árum að verja 900 millj. kr. til þess að dreifikerfin geti talist rekstrarhæf.
    Rafmagnsveiturnar hafa þess vegna séð sig tilneyddar til þess að leggja verulegt fé úr rekstri í þessi verkefni á hverju ári eða í kringum 75 millj. á ári. Á næsta ári áætla þær 85 millj. í þessi verkefni en ríkisvaldið kemur að engu leyti til móts við þetta. Það eru aðeins 15 millj. kr. ætlaðar í þetta verkefni af hálfu ríkissjóðs og Rafmagnsveitunum jafnframt gert að greiða 50 millj. kr. arð til ríkisins á næsta ári svo að þarna skýtur aldeilis skökku við.
    Ég ætla aðeins að gera hér líka grein fyrir Pósti og síma. Það er í raun og veru mikil gróska í þeirra starfi. Þeir standa í miklum fjárfestingum vegna ljósleiðara og eru nú að sjá fram á lok þess verkefnis og mér finnst ástæða til að vekja athygli á því að þeir skila árlega hundruðum millj. í arð í ríkissjóð og er ætlað að skila á næsta ári 850 millj. kr. og það er þrátt fyrir það að hér sé ekki um einkafyrirtæki að ræða og heldur ekki um hlutafélag að ræða, heldur er hér opinbert fyrirtæki. Póstur og sími er opinbert fyrirtæki, vel rekið og afsannar algerlega kenninguna um það að fyrirtækin þurfi að vera rekin í hlutafélagaformi eða einkarekin til þess að skila arði. Póstur og sími hefur þar af leiðandi staðið sig mjög vel.
    Í 6. gr. fjárlaga eru ýmsar heimildargreinar eins og venja hefur verið í fjárlögum árlega og ég geri ekki sérstakar athugasemdir við það annað en að það er mjög einkennilegt það heimildarákvæði sem nú er frá samgrn. þar sem það tekur á og breytir öllum liðum í sínum stofnunum sem nýlega var búið að fara yfir í fjárln. og ræða um og setja niður. Síðan kemur 6. gr. heimild þar sem flatur niðurskurður er áætlaður á öllum liðum samgrn. til þess að afla 40 millj. kr. sem ráðherra ætlar að ráðstafa til sérstaks markaðsátaks. Þó að markmiðið sé gott tel ég þetta ekki rétta aðferð til þess.
    Að öðru leyti tel ég að vel sé búið að gera grein fyrir afstöðu minni hlutans í fjárln. og ætla ekki að lengja mál mitt frekar.