Skattamál

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 11:02:17 (3119)

[11:02]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Við þingmenn Framsfl. erum andvígir því að taka þá ákvörðun nú að taka upp tvö þrep í virðisaukaskatti um þessi áramót. Við leggjum það til að allt þetta mál verði sett í nefnd sem kosin verði til að taka allt málið upp. Við teljum að sá undirbúningur sem farið hefur fram sé allsendis ófullnægjandi, það muni verða mikið öngþveiti eftir áramótin í þessum málum þar sem verslanir muni ekki hafa ráðrúm til að framkvæma breytinguna með sómasamlegum hætti. Jafnframt teljum við að ríkisstjórnin hafi staðið þannig að málinu að framkvæmdin muni fara úr skorðum.
    Við erum því andvígir þessari breytingu en viljum taka þátt í því að skoða málið betur með öðrum flokkum og aðilum vinnumarkaðarins samkvæmt ákvæði til bráðabirgða eins og kemur fram í brtt. okkar.