Lánsfjárlög 1994

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 12:57:59 (3136)


[12:57]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi það atriði að létta sköttum af fyrirtækjum þá er auðvitað spurningin sú hvort það hafi verið nauðsynlegt og eðlilegt að létta sköttum af öllum fyrirtækjum, algjörlega óháð því hvernig staða þeirra var. Ríkisstjórnin iðkar þessa stefnu að lækka skattana á alla línuna eða leggja skatta á alla línuna, allan almenning í landinu, en ég get ekki séð að það hafi verið sérstök ástæða til að lækka skatta hjá Eimskipafélaginu og öðrum fyrirtækjum sem skila miklum gróða.
    Varðandi það að stefnubreyting eigi sér stað úti í Evrópu gagnvart almannatryggingum og slíkum greiðslum þá er mér fullkunnugt um það og er það mikil frjálshyggja í bland sem breytir samt ekki því að auðvitað þurfa kerfi af þessu tagi alltaf að vera til endurskoðunar þannig að menn skilgreini og kanni hverjum þau þjóna og hvort þau þjóna þeim sem mest þurfa á að halda. Þetta er svo stór umræða að það er ekki hægt að fara út í hana hér og spurning hvort menn halda sig við þá stefnu sem mörkuð var eftir síðari heimsstyrjöldina, Beveridge-stefnan sem hér hefur verið stuðst við, eða hvort menn vilja fara aðrar leiðir í þeim efnum.
    Varðandi Atvinnutryggingarsjóðinn hjá Byggðastofnun þá var það sem ég var að vekja athygli á að það eru breytingar að eiga sér stað í starfsemi Byggðastofnunar án þess að menn hafi sest eitthvað yfir það hvað menn ætla sér með þá stofnun. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég held að það sé full þörf á því að skoða hlutverk Byggðastofnunar í ljósi þessara breytinga og kanna hvort við viljum hugsanlega skilgreina hlutverk hennar og verkefni upp á nýtt.