Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 14:46:53 (3144)


[14:46]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Mér finnst sérkennilegt að heyra þannig tekið til orða að hér sé eitthvað undravert að lögfest sé samkomulag eða málamiðlun milli manna. Yfirleitt byggist lagasetning á samkomulagi eða málamiðlun þannig að það er ekkert sérstakt við það að menn lögfesti samkomulag sitt. Það er þvert á móti reglan og lög eru yfirleitt byggð á samkomulagi sem betur fer.
    Varðandi málsmeðferðina í þessu tilviki finnst mér það einnig mjög einkennilegt að menn skuli gera athugasemdir við að það sé sett í lögin hvernig með þessi mál skuli farið og ég skil ekki þá gagnrýni. Þetta eru alls ekki nýmæli. Ríkisstjórnir hafa getað komið sér saman um það án þess að það stæði í lögum að með mál skuli farið með ákveðnum hætti og þau skuli borin upp í ríkisstjórninni ef ekki er samkomulag um það í nefndum sem fjalla um mál á vegum ríkisstjórnarinnar. Hér er þetta sett í lögin sem ég tel mjög skynsamlegt og alþingismenn ættu frekar að fagna heldur en gagnrýna.
    Ég get nefnt eina nefnd sem starfaði á vegum ríkisins og ríkisstjórnarinnar á sínum tíma þegar menn höfðu trú á því að verðlagshöft leystu allan vanda. Það var svokölluð gjaldskrárnefnd opinberra stofnana sem starfaði á vegum ýmissa ráðuneyta og voru síðan mál hennar ef það var ekki samkomulag í henni

borin upp í ríkisstjórninni. Það er alls ekkert nýmæli að svona sé að málum staðið og það er hins vegar mjög skynsamlegt og fagnaðarefni að um þetta skuli vera sett ákvæði í lög þannig að alþingismenn geti tekið afstöðu til málsins.