Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 14:48:28 (3145)


[14:48]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég komst ekki þannig að orði að hér væri um nýmæli að ræða heldur kom það fram í máli Sigurðar Líndals prófessors að þetta væri mjög sjaldgæft og undantekning enda kveði bæði stjórnarskráin og lögin um Stjórnarráð Íslands á um að mikilvæg mál skuli bera upp í ríkisstjórn þannig að þetta ákvæði hér er óþarft, samkvæmt því er það óþarft ef ráðherrann lítur þannig á að málið sé það mikilvægt. Hins vegar er hér verið að lögfesta það að ráðherranum sé skylt að fara með þessi mál inn í ríkisstjórn og út úr því lesum við auðvitað ákveðin, pólitísk skilaboð vegna forsögu málsins. Það er alveg augljóst mál. Þetta eru ákveðin skilaboð sem í þessu felast og spurningin er auðvitað sú hver sé skilningur manna á þessari síðustu setningu. Það er alveg ljóst að ráðherrann hefur hið endanlega orð, um það er ekki deilt. En hver er ástæðan fyrir því að menn vilja taka þessi mál inn í ríkisstjórnina. Að mínum dómi er hér ekki um svo stórvægilegt mál að ræða að þess þurfi.