Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 15:02:59 (3148)


[15:02]
     Frsm. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nota andsvaraformið til að skýra frá mínu sjónarmiði hvað þetta snertir. Hér er um EES-samninginn að ræða og fáa vöruflokka til þess að gera. Það er hluti af sýrðum mjólkurvörum, smjörlíki með 10--15% smjörinnihaldi, ef ég man rétt, og aðrar vörur úr landbúnaðarhráefni sem heimilt er að leggja verðgjöfnunargjöld á. Ég lít þannig á að þarna verði um ákvörðun að ræða sem stendur til lengri tíma og ekkert um það að ræða að verið sé að fjalla um þetta mál í hvert skipti ef kemur sending á hafnarbakkann. Það er verið að ræða um hvaða reglur gilda um jöfnunargjöld og síðan fer framkvæmdin á því fram alveg eins og að taka á hverjum öðrum vörugjöldum við innflutning.