Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 15:23:00 (3150)


[15:23]
     Frsm. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hlýt að fagna þeirri yfirlýsingu formanns nefndarinnar að hann telji að það beri að hafa samráð við bændasamtökin á grundvelli 52. gr. Það er þó alla vega ljóst að það er vilji meiri hluta nefndarinnar að svo verði gert. Ég er hins vegar ekki sammála því að 52. gr. taki yfir þetta samráð einfaldlega vegna þess að í upphafi 1. gr. frv. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir önnur ákvæði laga þessra veitir landbrh. heimild til innflutnings á landbúnaðarvörum í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.``
    Það kemur hérna fram að þrátt fyrir aðrar greinar sem banna slíkan innflutning nema með ákveðnum skilyrðum, nema með því samráði sem þar er rætt um, þá geti landbrh. heimilað innflutning. Það er því mín túlkun að 52. gr. nái alls ekki yfir þessar greinar hér og hefði verið æskilegt að slíkt ákvæði væri í frv. En ég segi hins vegar að mér finnst það þó miklu betra að hér sé kominn fram sá vilji meiri hluta nefndarinnar að þetta samráð sé við haft.
    En fyrst menn voru tilbúnir til þess að lögfesta í þessari grein á svo nákvæman hátt hvernig ætti að fara með málið á framkvæmdastiginu, allt upp í það að menn ættu að tala saman í ríkisstjórn ef ekki næðist samstaða, þá hefði ekki verið ofrausn að skjóta inn í lagatextann eins og einni setningu um að einnig yrði haft samráð við bændasamtökin í landinu.