Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 15:51:21 (3159)


[15:51]
     Frsm. meiri hluta landbn. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég má til að minna hv. 2. þm. Suðurl. á það að utanrrn. á ekki fulltrúa í þessari samráðsnefnd. Það eru þau ráðuneyti sem fjalla um viðskiptamál og fjármál en ekki utanríkismál svo að menn mega ekki vera allt of glámskyggnir og sjá vofur í öllum hornum án tilefnis.
    Út frá því sem þessi sami hv. þm. spurðist fyrir um og saknaði í ræðu sinni að ég skyldi ekki fjalla um áhrifin frá þessari samningsgerð og þessari löggjöf, þá minni ég á að sú umræða hefur farið fram á Alþingi. Það hefur verið fjallað um EES og það hefur verið fjallað um GATT og það er á þeim vettvangi sem hafa komið fram skýringar um áhrif þessara samninga. Ég minni enn einu sinni á þátt landbn. Alþingis í þeirri umræðu þannig að ég held að það sé ekki mikið upp á þá virðulegu nefnd að klaga.

    Ég vil svo að lokum aðeins geta þess að á þessu hausti og á þessum vetri hefur landbn. fjallað ítarlega um málefni landbúnaðarins og stöðu hans, ekki sérstaklega með tilliti til GATT og EES. Það er hárrétt að þar eru fyrir hendi þröngir kostir en enn þá er þó ekki um að kenna þessum alþjóðlegu samningum. Ég sé það fyrir mér að í þeim felist jafnvel leiðir til þess að ná fram nokkrum sóknarfærum í þessari atvinnugrein.