Framleiðsla og sala á búvörum

71. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 15:53:25 (3160)


[15:53]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. svör hans en ég veit að sjálfsögðu að í eftirlitsnefndinni á utanrrn. ekki fulltrúa. Þess vegna þarf málefnið að koma fyrir ríkisstjórn til þess að hæstv. utanrrh. geti fjallað um málið. Það er það sem ég held að sé augljóst öllum.
    Það er rétt að landbn. hefur fjallað um ýmsar hliðar landbúnaðarstefnunnar þó að hún hafi ekki verið rædd hér í sambandi við þetta frv. en ég saknaði þó sérstaklega hjá hæstv. landbrh. að hann gerði það ekki. Og því miður er það ekki rétt að áhrif af EES-samningnum eða samningi tengdum honum séu ekki farinn að hafa áhrif. Garðyrkjubændur sumir hverjir skáru niður allt í sínum gróðurhúsum nú í síðasta mánuði vegna innflutningsins á grænmetinu og ætla að reyna að fara af stað aftur í febrúar í þeirri von að þá verði verðið eitthvað farið að hækka á innflutningnum. En því miður eru það dapurlegar horfur hjá þeim og það mundi hv. þm. heyra ef hann ræddi við þá.