Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 21:02:40 (3205)


[21:02]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir brtt. 465 við frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994 frá meiri hluta efh.- og viðskn.
    Fyrsta tillaga er við 9. gr. frv. eins og það er eftir 2. umr. en það er við fyrrverandi 11. gr. frv. Greinin er um heimild til að ákveða í reglugerð að sjúkratryggður taki þátt í kostnaði vegna dvalarinnar. Tillagan á þskj. 465 er um að greinin falli brott.
    Í öðru lagi er brtt. við 24. gr. Í stað ,,37,5`` komi 40,1. Hér er um að ræða skerðingu á framlagi ríkissjóðs til héraðsráðunauta. Framlagið er lækkað um 2,6 millj. kr. Ástæða þess er að héraðsbúnaðarsambönd fengu sérstakt viðbótarframlag vegna lífeyrisskuldbindinga héraðsráðunauta. Áður átti að fjármagna þær með skerðingu á þessum lið.
    Í 3. lagi. Við II. kafla bætist tvær nýjar greinar er orðist svo:
    ,,a. (36. gr.) Þrátt fyrir ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, skal á árinu 1994 heimilt að ráðstafa allt að 20 millj. kr. af sérstökum eignarskatti samkvæmt lögunum til framkvæmda við Þjóðskjalasafn.``
    Hér er framlag til Þjóðarbókhlöðu og annarra menningarbygginga, skv. lögum nr. 83/1989, skert um 20 millj. kr. og fé það veitt til Þjóðskjalasafns. Áætlað var að hinn sérstaki þjóðarbókhlöðuskattur gæfi 340 millj. kr. í frv. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun á hann að gefa 360 millj. kr. og er viðbótinni varið til Þjóðskjalasafnsins.
    ,,b. (37. gr.) Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 5. gr. laga 94/1984, um kvikmyndamál, skal framlag ríkissjóðs til Kvikmyndasjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 99,4 millj. kr. á árinu 1994.``
    Samkvæmt sparnaðartillögum fjárln. var framlag til Kvikmyndasjóðs skorið niður um 10 millj. kr. og verður 99,4 millj. og er þetta í samræmi við það.