Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 21:05:43 (3206)


[21:05]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa óánægju minni með þessa tillögu sem var seinast gerð grein fyrir, þ.e. lækkunin til Kvikmyndasjóðs. Ég verð að nota þetta tækifæri til að vekja athygli þingheims á því að í annað sinn í þessari sömu fjárlagaafgeiðslu er verið að skera niður fjárveitingar til Kvikmyndasjóðs. Fyrst var það gert með því að samkvæmt fjárlagafrv. á ríkið ekki að taka neinn þátt í kostnaði við Kvikmyndasafnið. Sá kostnaður hefur numið um 9 millj. kr. á undanförnum árum og nú að taka allt fé sem þarf til Kvikmyndasafnsins af fé Kvikmyndasjóðs. Þetta kemur til viðbótar þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið síðustu tvö árin þar sem ákveðið var t.d. að lögbundið framlag ríkisins til Evrópska kvikmyndasjóðsins og framlag ríkisins til Norræna kvikmyndasjóðsins skyldu bæði tekin úr Kvikmyndasjóði. Hér bætist við þriðji niðurskurðurinn, þ.e. lækka á framlagið um 10 millj. Samtals verður því þarna um að ræða heildarniðurskurð á framlögum til Kvikmyndasjóðs upp á um 22 millj. kr. Það eru um 20% af lögbundnum framlögum til Kvikmyndasjóðs.
    Ég hélt að flestir hefðu gert sér grein fyrir því að starfsemi Kvikmyndasjóðs og íslensk kvikmyndagerð er einn merkasti vaxtarbroddurinn í íslenskri menningu í dag og væri frekar ástæða til að bæta þar við en að rífa niður. Ég hélt líka að menn hefðu gert sér grein fyrir að íslensk kvikmyndagerð er ekki bara menningarfyrirbrigði sem ber að styðja til eflingar íslenskri menningu heldur er hún líka betur til þess fallin en flest annað að vekja athygli á landi og þjóð og íslenskar kvikmyndir hafa mjög orðið til þess að auka ferðamannastraum til landsins. Ég sé að í tillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir að verja 40 millj. kr. til landkynningar. Þetta er í 6. gr. fjárlaga. Ég er alveg sannfærður um að með því að spara svo verulega við Kvikmyndasjóð sem raun ber vitni er einmitt verið að vinna heilmikið skemmdarverk í landkynningu og að þær 40 millj. sem áætlað er að nýta til landkynningar og til að auka ferðamannastraum munu nýtast verr en það sem hér er skorið af Kvikmyndasjóði. Þetta mál hefur því margar hliðar. Bæði menningarlega hlið og fjárhagslega hlið auk þess sem framleiðsla kvikmynda skapar verulegan tekjustraum til landsins í gegnum styrki og framlög frá erlendum kvikmyndasjóðum og erlendum meðframleiðendum.
    Þetta mál hefur margar hliðar og það er enginn vafi á því að íslenskt þjóðarbú er að tapa margfaldri þeirri upphæð sem hér er verið að skera niður í framlögum til Kvikmyndasjóðs. Ég mótmæli mjög eindregið þessari grófu árás á íslenska kvikmyndagerð sem birtist í þessum seinustu tillögum. Þær koma mér mjög á óvart. Ég hafði ekki heyrt þeirra getið fyrr. Ég hélt að menn mundu láta sér nægja að skera niður um 9 millj. með því að Kvikmyndasjóður verði að taka að sér þetta olnbogabarn, Kvikmyndasafnið. En ég sé að það á að ganga miklu lengra og hér er um mjög hastarlegan og grófan niðurskurð að ræða.
    Ég mótmæli þessu mjög eindregið og mælist að sjálfsögðu fastlega til þess að ríkisstjórnin endurskoði þessa ákvörðun sína. Ef ekki nú við fjárlagaafgreiðsluna þá á nýju ári.