Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 21:11:06 (3207)


[21:11]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Vegna 1. tölul. í brtt. á þskj. 465 vil ég gefa yfirlýsingu. Ef þessi brtt. verður samþykkt er ljóst að nokkuð mun vanta á að hægt verði að innheimta áformaðar sértekjur samkvæmt fjárlögum sem væntanlega verða samþykkt síðar í kvöld. Ríkisstjórnin mun þess vegna beita sér fyrir því að afla heimilda á næsta ári í fjáraukalögum þar sem það þarf og að því marki sem talið er þurfa til að koma til móts við þá fjárvöntun sem verður í fjárlögum verði þessi töluliður samþykktur.
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að kæmi hér fram. Reyndar er hægt og kannski eðlilegt að segja jafnframt frá því að ef samþykkt verður tillaga, sem mér skilst að komi frá meiri hluta nefndarinnar ef ekki nefndinni allri, í öðru máli sem verður til umræðu síðar, þ.e. máli sem fjallar um breytingar á ýmsum skattalögum, um endurgreiðslur að hluta til gistihúsa vegna fjárfestingarkostnaðar á sl. 3 árum þá mun einnig vanta annaðhvort á tekju- eða gjaldahlið fjárlaga fjármuni sem nema þessum endurgreiðslum.
    Með sama hætti tel ég eðlilegt þar sem 3. umr. fjárlaga er lokið og ekki hægt að koma því við að breyta áætlunartölum fjárlaga að ríkisstjórnin segi frá því hér og nú að hún sé tilbúin til að beita sér fyrir breytingum á fjárframlögum eða breytingum á tekjuhlið á næsta ári með þeim tækjum sem viðeigandi er. Sýnist mér þá eðlilegast að það gerist með því að fjárhæðir komi fram á fjáraukalagafrv. sem væntanlega verður lagt fram næsta haust. Mun þá þingið geta tekið afstöðu til þess á þeim tíma.
    Það skal tekið fram varðandi gistihúsin að útgreiðsla þessara endurgreiðslna getur beðið þar til þing hefur samþykkt slíkt en vænta má að meiri erfiðleikar verði hjá þeim sem taka sjúklinga til áfengismeðferðar, einkum þeim aðilum sem starfa ekki á vegum ríkisins eða Ríkisspítala.