Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 22:16:08 (3216)


[22:16]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um skattafrv. ríkisstjórnarinnar eins og það er nú orðið eftir 2. umr. og jafnframt að gera grein fyrir afstöðu minni og Kvennalistans til ákveðinna brtt. sem eru hér á ferð í upphafi 3. umr.
    Það er vert að velta því fyrir sér eins og oft áður hvernig vinnubrögðum er háttað á Alþingi. Hér erum við enn eitt kvöldið að ræða þessi alvarlegu og mikilvægu fjármál ríkisins og maður hefur það oft á tilfinningunni að maður viti varla hvað er verið að gera. Og það gildir um sumar þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram. Það er í raun og veru afar slæmt að standa frammi fyrir því að það sé verið að leggja til breytingar og það gefst ekki tími til þess að kanna hvað þær fela í sér. Það gildir bæði um þá breytingu sem . . .  
    ( Forseti (SalÞ) : Það er svolítill órói í salnum.)
    Já, það er rétt hjá forseta, það er mikill órói hér í salnum og hefur verið í kvöld og skýrist af ákveðnu máli sem hér er í farvatninu og hefur valdið miklum æsingi meðal þingmanna Reykjavíkur og mun væntanlega skýrast hér seinna í kvöld. En ég var þar komin ræðu minni að ég ætlaði að nefna þá brtt. sem hér er og snertir málefni Búseta. En sannleikurinn er sá að Búseti hefur sótt það mjög fast að fá inn þá breytingu sem hér er á ferð og snertir vaxtabætur en því miður hafði nefndin engan tíma til þess að kanna hvað þetta þýðir í raun og veru fyrir þá einstaklinga sem eru félagar í Búseta eða samtökin í heild. Það ber auðvitað alltaf að harma það þegar verið er að koma inn svona breytingum og maður hefur sterklega á tilfinningunni að það viti í rauninni enginn raunverulega hvað er verið að gera. Ég held að við getum mikið lært af þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið við lýði undanfarna daga.
    Fyrsta brtt. sem hér er lögð fram af hálfu meiri hlutans snertir það atriði að framlög til stjórnmálaflokkanna verði frádráttarbær til skatts, þ.e. fyrirtæki sem veita stjórnmálaflokkum stuðning geti dregið þau framlög frá skatti. Við kvennalistakonur teljum eðlilegt að fyrst séu settar reglur um starfsemi stjórnmálaflokka, þær skyldur sem þeir hafa gagnvart sínum umbjóðendum og löggjafanum, bókhaldsskyldu og

annað slíkt áður en farið er að taka ákvarðanir um framlög af þessu tagi, að framlög af þessu tagi séu undanþegin skatti, okkur finnst það eðlilegra að sá framgangsmáti eigi sér stað. En okkur er það ljóst að lýðræðið kostar peninga og það er bæði nauðsynlegt og eðlilegt að stjórnmálaflokkar og samtök njóti stuðnings af hálfu opinberra aðila til þess einmitt að tryggja lýðræðið í landinu og lýðræðislega umræðu. Og ég veit það t.d. að á Norðurlöndum eru veittir miklu meiri styrkir en hér. M.a. var mér sagt að í Noregi þurfi menn engu að kosta til framboða, það er allt borgað af ríkinu. Það þætti nú Sjálfstfl. líklega góður stuðningur sem ver miklum kostnaði í prófkjör. En mergurinn málsins er sá að við gátum ekki sætt okkur við þessi vinnubrögð sem hér eru viðhöfð og hefðum talið eðlilegra að sú nefnd, sem verið er að leggja til að kanni þetta mál og semji reglur, eða komi sér saman um reglur að hún hefði fyrst skilað af sér áður en farið er að breyta lögum eins og þessum.
    Ég minntist aðeins á þá tillögu sem hér er og 2. liður þessara brtt. sem snerta málefni Búseta og það er svo sem ekki mikið um það að segja. En það tengist einmitt þeirri brtt. sem 2. minni hluti hv. efh.- og viðskn. hv. leggur til um að það hefði í raun og veru átt að fresta öllum þessum vaxtabótaútfærslum og skoða málið betur í samhengi. Þá hefði Búseti komið þar inn í. Vandinn snýst um að það er búið að gera samkomulag um húsaleigubætur eftir því sem okkur skilst af fréttum þó allt sé óljóst um útfærsluna í þeim efnum og þeir sem búa í búseturéttaríbúðum eru í nokkuð sérkennilegri stöðu, þeir eiga hluta af þessum íbúðum, þeir kaupa sér búseturétt. En þær íbúðir sem byggðar hafa verið á vegum Búseta hafa ýmist fengið lán í félagslegri kaupleigu eða almennri kaupleigu þannig að þarna er svona blandað kerfi á ferð og erfitt að gera sér grein fyrir hvorum megin fólk lendir. Í mínum huga er þetta mjög óljóst og hefði þurft að skoða miklu betur. Ég er nú fremur hlynnt þessum samtökum og hefði talið það mikinn kost að hér væru fleiri valkostir í húsnæðismálum og síst af öllu vildi ég að við í einhverri fjóðtfærni værum að skaða þessa starfsemi. En við hljótum að treysta því að þeir viti hvað þeir eru að gera því að Búseti hefur sjálfur þrýst mjög á að þessar breytingar nái fram að ganga.
    Ég vil fagna því hér eins og aðrir að ríkisstjórnin sá að sér og ákvað að fella niður eða hætta við þær hugmyndir að leggja virðisaukaskatt á flutninga og ýmsa þjónustu sem tengist flutningum. Ég er alveg sannfærð um að þarna er ríkisstjórnin að stíga rétt skref og hefði auðvitað átt að ganga lengra og hætta við öll áform sem snerta ferðaþjónustu í landinu. Ég þarf svo sem ekki að rifja það upp hér að Svíar gerðu gríðarleg mistök í þessum efnum fyrir allnokkrum árum og það tók þá mörg ár að vinna upp þann skaða sem sænsk ferðaþjónusta varð fyrir þegar hún var skattlögð á einu bretti. Það tók þá mörg ár að vinna það upp. Menn verða einfaldlega að hugsa svona mál til enda en hér er gistingin að nokkru skilin eftir og tengist auðvitað veitingastarfsemi og það verður nú býsna flókið mál við að fást.
    Við höfum í þessari umræðu rætt mikið um virðisaukaskattinn á matvæli og er svo sem óþarfi að vera að endurtaka það sem þar var sagt. Ég er enn þá jafnsannfærð um það og ég hef verið að það sé ekki verið að fara bestu leiðina til kjarajöfnunar í þessum tillögum sem hér hafa verið samþykktar þó það sé fyrst og fremst verið að færa fjármagn til þeirra sem betur standa og að aðrar leiðir hefðu verið betri til að jafna kjörin í landinu. Má þar margt nefna í því sambandi. Þó að vissulega sé það ávinningur allra að matvæli lækki þá var það tilgangur þessara kjarasamninga að bæta kjör hinna lægst launuðu en það er verið að bæta kjör allra og meira fer til þeirra sem meira hafa og meira eyða í matvæli. Þannig að ég er mjög ósátt við þessa leið sem hér er verið að fara og ég vil bara ítreka það.
    Hér á eftir munum við taka afstöðu til ýmissa brtt. sem dregnar voru aftur til 3. umr. Það er kannski ekki mikið um þær að segja en ég vil þó minna stjórnarmeirihlutann á að þeim gefst enn þá tækifæri til að styðja hér tillögur til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð í stað þess að skilja hann eftir í sárum með mikinn halla. Það er auðvitað ekki hægt að afsaka það á nokkurn hátt að ríkisstjórnin skuli hafa gefist upp við fjármagnstekjuskatt ár eftir ár. En í kvöld gefst tækifæri til að bæta úr því. Nú skora ég á stjórnarmeirihlutann að nýta sér það gullna tækifæri til að rétta örlítið hallann á ríkissjóði. Þetta eru nú ekki nema um það bil 600 millj. sem nást með þessu að mati Þjóðhagsstofnunar. En jafnframt þeirri tillögu þá gefst Sjálfstfl. líka gullið tækifæri á því að fella niður hinn margumrædda ekknaskatt sem Þuríður Pálsdóttir sjálfstæðiskona og varaþingmaður hefur barist ötullega gegn og verður fróðlegt að sjá hvernig sjálfstæðismenn reynast henni hér í kvöld þegar sú tillaga verður borin upp að fella niður þennan skatt.
    En virðulegi forseti, þrátt fyrir að vinnubrögð í þessu máli hafi nú verið heldur hraðsoðin þá höfum við þó séð dæmi um að lýðræðið virkar í þessum efnum. Aðilar koma á fund efh.- og viðskn. og skýra sín sjónarmið og senda frá sér ýmis gögn. Og sem betur fer þá sjá menn að sér þegar menn falla frá alls konar vitlausum hugmyndum. Það hefur gerst í þessu frv. og því ber vissulega að fagna þó að ég hefði óskað þess að lengra hefði verið gengið. Ég bið þingmenn að gleyma því ekki að í þessu frv. er verið að leggja auknar álögur á almenning í landinu. Það var samþykkt í dag hækkun á tekjuskatti. Og í þessu frv. er ýmislegt annað sem veldur því að við kvennalistakonur getum ekki stutt þetta frv.