Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 22:30:48 (3218)


[22:30]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Austurl. beindi til mín þeirri spurningu: Hvers vegna leggur ríkisstjórnin fram tillögu um að hverfa frá markaðri stefnu um virðisaukaskatt í einu þrepi?
    Ég vil ekki láta hjá líða að svara honum hreinskilnislega. Ég vil taka það fram strax í upphafi að ég virði það við hv. þm. Halldór Ásgrímsson að hann hefur beitt sér fyrir því í sínum flokki að fá fram stefnubreytingu í Framsfl. í skynsemisátt og ég óska honum til hamingju með það. Það gefur mér vonir til að segja að þótt orrusta hafi tapast í stríðinu fyrir því að viðhalda traustum, auðframkvæmanlegum tekjustofnum velferðarríkisins á Íslandi, þótt orrusta hafi tapast sé það stríð ekki tapað heldur megi enn vinnast.
    Ég sagði að ég mæti það við hv. þm. að hann hefði komið fram stefnubreytingu í þessu máli hjá Framsfl. Ég byggi það á því að á sínum tíma fékk ég sent með áritun frá sendanda þennan bækling sem ég hér held á sem heitir Átak til endurreisnar. Framsóknarflokkurinn, tillögur í efnahags- og atvinnumálum. Dags. í mars 1993.
    En þar segir um fyrstu aðgerðir þeirra framsóknarmanna sem þeir leggja til til tekjujöfnunar í 4. tölul., með leyfi forseta:
    ,,Tekinn verði upp tveggja þrepa virðisaukaskattur. Helstu nauðsynjavörur heimilanna (matvörur) verði í lægra skattþrepi.``
    Nú lái mér hver sem vill að ég stóð í þeirri trú að hér væri stefnuplagg Framsfl. sem boðaði þá stefnubreytingu sem hér er lýst frá því sem var í reynd þegar við störfuðum saman í ríkisstjórn að skattkerfisbyltingunni 1987--1988. Það er hverju orði sannara sem hv. þm. sagði að á þeim tíma snerum við bökum saman í erfiðri pólitískri baráttu fyrir því að koma á fyrst undanþágulitlu söluskattskerfi og síðan eins þreps virðisaukaskattskerfi og höfum vafalaust báðir skilið það á þann veg að hér væri um að ræða veigamesta skattstofn velferðarríkisins sem þyrfti að framkvæmast með þessum hætti og væri skilvirkastur með þessum hætti. Um þetta erum við báðir sammála vænti ég. Þess vegna er sú spurning afar eðlileg sem hv. þm. ber fram, þessi: Hvernig stendur þá á því, úr því að við erum sammála um hin efnislegu rök og úr því að vitna má til stefnuyfirlýsingar núv. ríkisstjórnar um að rétt stefna sé að fækka undanþágum og breikka skattstofninn, að þetta er engu að síður niðurstaðan? Og svarið við því er mjög einfalt. Það hefur verið beygt af leið. Ástæðan er sú að forustumenn verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi gerðu það að úrslitakröfum við gerð kjarasamninga að þessi leið yrði farin. Jafnvel þegar reynt var að bjarga stöðu mála með því að bjóða annan kost á sl. hausti þá var því ítrekað hafnað af hálfu forustumanna verkalýðshreyfingarinnar. Þannig að svarið við spurningu hv. þm. er þetta:
    Í ljósi þess að annars vegar var um það að ræða að ná þjóðarsamstöðu í þessu þjóðfélagi um að innsigla þann árangur stöðugleika og lágrar verðbólgu og lækkandi vaxta, þann árangur sem náðst hefur. Annars vegar var um það að ræða að varðveita þennan árangur eða taka þá áhættu að efnt yrði til ófriðar á vinnumarkaðnum, kjarasamningum sagt upp í nafni þessarar kröfu og þar með stefnt í tvísýnu öllum þeim árangri sem mestu máli skiptir fyrir almenning í landinu, fyrir heimilin í landinu, fyrir atvinnuöryggið í landinu, stöðugleika, lága verðbólgu og lækkun fjármagnskostnaðar. Þegar menn standa frammi fyrir slíkum kostum þá verður stundum að gera annað og meira en gott þykir.
    Ég gæti því svarað hv. þm. með spurningu. Spurningin er þessi: Treystir hv. þm. sér til þess að ná því fram, sem mér tókst ekki og samherjum mínum, að koma vitinu fyrir verkalýðsforustuna þannig að hún fallist á skynsamlegri leiðir í þessu efni, án þess að hóta griðrofum á vinnumarkaði og ófriði á vinnumarkaði til að knýja fram þessa leið? Ef hv. þm., sem er formaður efh.- og viðskn. og hefur vafalaust kallað fyrir sig flesta aðila sem koma að framkvæmd þessa máls, hefði við það komist að þeirri niðurstöðu að unnt væri að ná þessari samstöðu um málið þá hefði hann vissulega unnið þarft verk. Ef svar hans við þessari spurningu er hins vegar það þrátt fyrir öll rök málsins að þetta gæti hann ekki tryggt þá stendur hann

í sömu sporum og ríkisstjórnin, stjórnarflokkarnir, nefnilega að verða að velja á milli vondra kosta. Annars vegar að innsigla stöðugleikann, atvinnuöryggið og árangurinn með kjarasamningum til langs tíma ellegar að taka afleiðingunum af því að þetta fari allt saman forgörðum.
    Ég hef heyrt að í umfjöllun hér á hinu háa Alþingi og sérstaklega í efh.- og viðskn. hafi enginn aðili sem kallaður var til nefndarinnar og beðinn að taka afstöðu til þessa máls stutt þessa leið utan þá forseti Alþýðusambandsins og hagfræðingur Alþýðusambandsins. Allir aðrir hafi varað við henni.
    Nú vil ég taka það fram að þetta mál er ekki nýtt. Þetta mál var ekki að gerast í gær og þetta mál er ekki þannig vaxið að engin könnun liggi fyrir um hvaða leiðir væru hentugastar til að ná markmiðinu um tekjujöfnun fyrir hina lægst launuðu í þjóðfélaginu. Þetta mál er þvert á móti þaulkannað. Það liggja fyrir niðurstöður athugana, ekki bara í fjmrn. Íslendinga heldur í fjármálaráðuneytum allra helstu grannlanda okkar, frá Noregi frá Svíþjóð frá Finnlandi, frá Bretlandi frá sl. áratug og niðurstöðurnar hafa alltaf verið hinar sömu. Um þetta þarf ég ekki að hafa mörg orð því um þetta erum við hv. þm. sem mig spurði vafalaust sammála. Niðurstöðurnar eru í stórum dráttum þær að skattalækkun í krónum talin sem er af þessari leið er mest til þeirra sem eru með mesta neyslu og hæstar tekjur.
    Í annan stað að aðrar leiðir að sama marki til tekjujöfnunar eru beinskeittari, áhrifameiri, og markvissari og ódýrari út frá sjónarmiðum ríkissjóðs.
    Í þriðja lagi að lækkun á hinu almenna skatthlutfalli í virðisaukaskatti gefur svipaða niðurstöðu án þess að boðið sé heim hættu á skattundandrætti í stórum stíl.
    Í fjórða lagi að áhrifameiri tekjujöfnunaraðgerðir felast í því að beita tekjuskattskerfinu eins og ríkisstjórnin reyndar bauð forustu Alþýðusambandsins upp á á sl. hausti eða með beinum greiðslum til barnafjölskyldna og tekjulágra. Staðreyndin er sú þrátt fyrir öll þessi rök að ítrekað hefur því verið hafnað og því til svarað af hálfu forustumanna Alþýðusambandsins að verði þessi leið farin, hin skynsamari leið, sem tryggir betur hagsmuni hinna lægst launuðu og er ódýrari frá sjónarmiði ríkissjóðs og er mun skynsamlegri út frá sjónarmiði þeirra sem vilja viðhalda traustum tekjustofnum sem fjárhagsgrundvelli velferðarkerfisins, þrátt fyrir öll þessi rök, þrátt fyrir ítrekuð tilboð um að fara aðrar leiðir, þ.e. að beita sér þá frekar fyrir lækkun tekjuskatts og hækkun skattfrelsismarka og eingreiðslum til hinna lægst launuðu. Þrátt fyrir öll þessi boð var þessum boðum ítrekað hafnað. Þannig að menn stóðu frammi fyrir því: Vilja menn þá halda þessum tillögum, sem hinar skynsamlegri eru, til streitu og taka áhættuna af því að kjarasamningum verði sagt upp, vinnufriður rofinn og efnt til þess konar átaks í þjóðfélaginu að þeim árangri sem náðst hefur í tæpri vörn þessa þjóðfélags á erfiðum tímum verði spillt?
    Og hvað er ég að tala um? Ég er að tala um að það liggur fyrir á næsta ári að verðbólga á Íslandi verður sennilega lægri en víðast hvar annars staðar í Evrópu. Í annan stað að gengisskráning krónunnar er nú með þeim hætti að samkeppnisskilyrði íslenskra atvinnuvega hafa ekki verið betri á undanförnum áratugum vegna þess að raungengi er lægra, hvort heldur er metið á mælikvarða launa eða verðlags. Ég er í þriðja lagi að tala um það að atvinnuöryggi hefur verið styrkt á Íslandi með því að færa til skattbyrði frá fyrirtækjum yfir í neyslu og það hefur borið þann árangur þrátt fyrir allt að baráttan við að hamla gegn atvinnuleysi á Íslandi hefur skilað betri árangri en víðast hvar í grannlöndum okkar. Ég er í fjórða lagi að tala um þann stöðugleika sem leitt hefur til þeirrar niðurstöðu að vextir hafa loksins lækkað. Allt þetta sameiginlega skapar forsendur fyrir enn frekari vaxtalækkun á næsta ári.
    Þetta er umtalsverður árangur. Staðreyndirnar tala sínu máli. En ég hef af því áhyggjur og hafði af því áhyggjur, að ef ekki væri unnt að innsigla þennan árangur með kjarasamningum til lengri tíma þá værum við í raun og veru að tefla þessu öllu í tvísýnu. Ég vildi ekki bera ábyrgð á því. Og ég þykist vita að ef hv. 1. þm. Austurl. stæði í þeim sömu sporum, þá mundi hann hugsa sig um tvisvar áður en hann héldi hinum skynsamlegri tillögum til streitu ef þær kynnu að kosta þessa áhættu.
    Þetta eru ástæðurnar, þetta eru skýringarnar og menn verða að taka þær eins og þær eru.
    Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika það að ég hef í engu skipt um skoðun frá því að við sameiginlega beittum okkur fyrir því að endurreisa tekjustofnakerfi velferðarkerfisins á Íslandi á árunum 1987 og 1988. Ég tel þetta miður, ég tel þetta vera tapaða orustu, ég tel að ríkisstjórninni hafi verið þarna stillt upp frammi fyrir vondum kostum af hálfu forustumanna verkalýðshreyfingarinnar. Ég ætla ekki að vera með neinar ásakanir í þeirra garð, þeir hafa birt sín rök og menn hafa getað kynnt sér þau. Ég met þau rök haldlítil vegna þess að ég tel það sannað mál að ef leið B hefði verið farin, þ.e. sú leið sem í því fólst að lækka fremur tekjuskatt og hækka skattleysismörk og skila launagreiðslum í launaumslag launþega, beingreiðslum, --- ég tel að sú leið hafi ótvírætt skilað betri árangri, skilið meira eftir í vasa launþega. Fyrir utan það grundvallarsjónarmið að með þessari leið hefði ekki verið boðið upp á það að leiða menn í freistni, til enn frekari undandráttar í virðisaukaskatti til ríkissjóðs.
    Ég endurtek hins vegar að ég lít á þetta sem tapaða orustu, en ég lít jafnframt svo á að stefnubreyting Framsfl. styrki mig í þeirri trú að við getum aftur náð vopnum okkar, að stríðið sé ekki tapað þótt orusta hafi tapast.