Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 22:44:19 (3219)


[22:44]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :

    Virðulegur forseti. Það er engin leið að svara hæstv. utanrrh. í andsvari og mun ég því svara honum betur síðar. En ég tel það vera mjög slæmt af honum að reyna nú að koma ábyrgð á aðra í þessu máli. Hann reynir í fyrsta lagi að koma ábyrgð á Framsfl. sem ályktaði um þetta mál, að það yrði tekinn upp tveggja þrepa virðisaukaskattur þar sem helstu nauðsynjavörur heimilanna verði í lægra skattþrepi. Þessum árangri er hægt að ná, hæstv. utanrrh., án þess að taka upp nýtt þrep í virðisaukaskatti, þ.e. sömu leið og farin var 1988. Þannig að það er ekkert hald í því að vitna hér í stefnumál Framsfl. Hvernig stóð á því að ríkisstjórnin lét stilla sér upp í þessu máli þegar augljóst var, eins og utanrrh. hefur tekið fram, að önnur leið var hagstæðari? Af hverju getur ríkisstjórnin ekki tekið þá áhættu að gera þetta samkvæmt skynsamlegri leið þegar liggur ljóst fyrir að það tryggir meiri kaupmátt láglaunafólks? Hver ætlar að fara í verkfall út af því?