Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 22:45:48 (3220)


[22:45]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hafi hv. þm. skilið orð mín á þann veg að ég væri að varpa ábyrgð af mér, Alþfl. eða ríkisstjórninni yfir á aðra þá er það misskilningur. Ég fór viðurkenningarorðum um þá stefnubreytingu af hálfu Framsfl. sem fram er komin og vek athygli á því að það var ekki verið tala um endurgreiðslukerfi í þessari ályktun, hún var alveg skýr. Tekinn verði upp tveggja þrepa virðisaukaskattur. En látum það liggja á milli hluta. Ég hef sagt: Það er virðingarvert að Framsfl. hefur fallið frá þessu og tekið upp skynsamlegri stefnu.
    Í annan stað. Það er staðreynd að þrátt fyrir úrslitakröfu verkalýðshreyfingarinnar um að fara þessa leið þá reyndi ríkisstjórnin á sl. hausti einróma að fá því hnikað til, að fá verkalýðsforustuna til að fallast á skynsamlegri leið og þá voru fram reiddar ítarlegar greinargerðir sem ég hef ekki tíma til að gera grein fyrir. Eftir stendur sú niðurstaða að því var hafnað. Þeir verða að bera ábyrgð á því, við berum sameiginlega ábyrgð á því, stjórnarflokkarnir og forustumenn ríkisstjórnarinnar, að fara þessa leið. Ég ætla ekkert að skorast undan því. En það breytir ekki því að skýringin er sú að við áttum aðeins þeirra kosta völ að taka annars vegar áhættuna af því að fórna mikilsverðasta árangrinum fyrir heimilin, atvinnulífið og atvinnuöryggið í landinu eða halda til streitu þessum tillögum.