Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 22:47:32 (3221)


[22:47]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tel að það sé á engan hátt hægt að koma pólitískri ábyrgð á þessu máli á verkalýðshreyfinguna. Pólitíska ábyrgðin er hjá ríkisstjórninni og meiri hlutanum á Alþingi. Það er Alþingi sem þarf að taka þessa ákvörðun. En því miður hafa ýmsir útreikningar í þessu máli ekki verið mjög haldgóðir. Ég nefni sem dæmi útreikninga sem eru hér í ritinu Vinnunni á bls. 6, um lækkun matarskatts sem kjarabót til hinna tekjulægstu, þeir útreikningar standast ekki.
    Ég vildi spyrja hæstv. utanrrh.: Voru dæmin svona hjá ríkisstjórninni? Á hverju byggði ríkisstjórnin sína ákvörðun? Hvaða upplýsingar fóru til verkalýðsforustunnar um það hverju þetta skilaði? Því það er ekki aðferðin sem skiptir máli, það hlýtur að vera árangurinn og það er hægt að ná meiri árangri með öðrum aðferðum. En mér sýnist að ríkisstjórnin hafi alls ekki komið slíku á framfæri við verkalýðshreyfinguna.