Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 22:50:17 (3223)


[22:50]
     Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig ekki skrýtið að hin sögulegu hlutverkaskipti Framsfl. og Alþfl. í þessu máli verði tilefni orðaskipta. Framsfl. sem hefur tvö skattþrep í virðisaukaskatti í sinni síðustu landsfundarsamþykkt ólmast nú gegn því hér, en Alþfl. sem barist hefur fyrir einu þrepi gerir hvað? Stendur að tilboði af hálfu ríkisstjórnar inn í kjaraviðræður um það mál, flytur stjfrv. um það mál og greiðir því frv. atkvæði sitt. Auðvitað eru tilraunir ráðherra Alþfl. og forustumanna til að þvo hendur sínar í þessu máli einhver allra ömurlegasti kattarþvottur og dugar þó varla það orð, nær er að tala um hræsni, sem maður hefur séð í seinni tíma stjórnmálasögunni. Nægir til að mynda að vitna í ummæli hæstv. viðskrh. í Morgunblaðinu þar sem hann segir að þessi breyting sé ávísun á skattsvik. Og svo koma ráðherrar Alþfl. og ætla að varpa af sér allri ábyrgð og greiða atkvæði --- með hverju? Því sem þeir telja vera ávísun á skattsvik og vitlausa aðferð í skattamálum. Hvert er slíkur flokkur kominn?