Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 23:03:37 (3227)


[23:03]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 484 við brtt. á þskj. 483, um skattamál, en það er þingflokkur Kvennalistans sem flytur þessa brtt.
    Í fyrsta lagi er lagt til að á eftir orðinu menningarmál í brtt. komi þróunarhjálp, þ.e. að framlög til þróunarhjálpar séu einnig frádráttarbær á sama hátt og framlög til annarra þátta sem um getur í brtt.
    Á 113. löggjafarþingi fluttu þingkonur Kvennalistans sem þá voru í neðri deild frv. til laga um að framlög til þróunarmála væru frádráttarbær frá skatti og er það á þskj. 783 frá því þingi. Það frv. náði ekki fram að ganga og þess vegna er þessi tillaga flutt hér. Vegna þess að verið er að flytja brtt. við þessa grein, þá þykir rétt að bætta þessu orði þarna inn.
    Að vísu var sú brtt. gerð þannig í það skipti að þetta væri heimilt bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki, ekki eingöngu fyrirtæki eins og hér er gert ráð fyrir. En þar sem mjög lítill tími vannst til að vinna þetta mál hér, þar sem tillögurnar komu fram mjög seint, þá treystum við okkur ekki til þess að fara að undirbúa víðtækari brtt. en á þessu eina ákvæði.
    Mig langar til að lesa örstutt úr greinargerðinni með þessu frv. á sínum tíma, með leyfi forseta:
    ,,Markmiðið er að hvetja fólk og fyrirtæki til að leggja sitt af mörkum til þróunarhjálpar. Ráðherra ákveður síðan með reglugerð hvaða hjálparstofnanir falla undir þessar lagagreinar. Gengið er út frá að það verði fyrst og fremst viðurkenndar alþjóðlegar hjálparstofnanir, svo sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Rauði krossinn, Hjálparstofnun kirkjunnar, UNIFEM o.fl. Flutningskonur frumvarpsins telja að samþykkt þess yrði almenningi hvatning til aukinnar liðveislu við fólk í þróunarlöndum.``
    Þetta stóð í þessu frv. sem Málmfríður Sigurðardóttir var 1. flm. að.
    Ég þarf varla að gera frekari grein fyrir þessu ákvæði svo sjálfsagt sem ég tel að það sé að meiri hluti Alþingis geti fallist á þessa brtt.
    Í öðru lagi leggjum við til að orðið stjórnmálaflokkar falli brott úr brtt. á þskj. 483. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hefur þegar gert grein fyrir afstöðu okkar kvennalistakvenna í sinni ræðu og eins og fram kemur í nál. 2. minni hluta þá styður hún ekki þetta ákvæði inni í brtt. og þess vegna er þessi tillaga okkar eðlilegt framhald af því.
    Hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, sagði áðan í umræðunni að aðeins sé verið að staðfesta framkvæmd. Þetta þótti mér mjög merkileg yfirlýsing. Mér þótti mjög merkilegt að það hafi í raun verið framkvæmt með þeim hætti að framlög til stjórnmálaflokka hafi verið frádráttarbær frá skatti. Til hvers er þá verið að hafa þetta ákvæði í lögum yfirleitt, í 31. gr.? Til hvers er verið að hafa ákvæði í lögum þar sem sérstaklega er tekið fram að einstaka gjafir til menningarmála, vísindalegra rannsóknastarfa, viðurkenndrar líknarstarfsemi og kirkjufélaga séu frádráttarbærar ef það er síðan meiningin að það skipti engu máli og að framlög til stjórnmálaflokka geti verið frádráttarbær? Þetta þykir mér mjög einkennileg yfirlýsing frá hv. 5. þm. Norðurl. v., sem jafnframt er framkvæmdastjóri Verslunarráðs, að það skipti í raun engu máli hvað stendur í lögunum. Til hvers var Alþingi að samþykkja að það ættu bara að vera einstakar gjafir til ákveðinna mála, ef það hefur síðan verið frjálst að draga framlög til stjórnmálaflokka og þá væntanlega til hvers sem er frá skatti? Mér þótti mjög sérkennilegt að hann skyldi segja það hér fyrr í umræðunni og reyndar endurtók hv. 5. þm. Vestf. þessi ummæli 5. þm. Norðurl. v. Ég átti mjög erfitt með að skilja að þetta sé í raun engin breyting frá því sem hafi verið í framkvæmd. Það getur ekki verið að það hafi verið talið eðlilegt að framlög til stjórnmálaflokka séu frádráttarbær með sama hætti og til menningarmála og líknarmála.
    Eins og þingmönnum er væntanlega kunnugt hafa kvennalistakonur einnig lagt fram tillögu til þál. hér á þessu þingi. Hv. 6. þm. Vestf., Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, er 1. flm. og hefur reyndar ekki gefist tækifæri til að mæla fyrir þessari tillögu, en hún er á þskj. 163 um fjárframlög til stjórnmálaflokka. Þar er gert ráð fyrir að skipuð verði nefnd til þess að undirbúa löggjöf um fjárframlög til stjórnmálaflokka og stjórnmálasamtaka. Nú hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir að slíka nefnd eigi að skipa og hún eigi að koma með tillögur í þessa veru, vænti ég, eins og við kvennalistakonur höfðum gert ráð fyrir. Það er auðvitað til mikilla bóta og ef þessi tillaga verður samþykkt koma væntanlega niðurstöður þessarar nefndar hér inn á borð sem fyrst. En ég tel að þarna sé algerlega byrjað á öfugum enda. Fyrst á að ákveða hvernig þessum málum eigi að koma fyrir og svo hugsanlega að breyta lögum síðar.
    Ég ætla mér, frú forseti, ekki að ræða þessi mál hér frekar þar sem langt er liðið á kvöld og mikið verk enn eftir. En ég vænti þess að þingmenn sjái að það er rétt að styðja þessa brtt. sem kvennalistakonur leggja hér fram og byrja nú á réttum enda. Fyrst að setja á stofn þessa nefnd og síðan að koma með brtt. í þingið eftir því sem nefndin þá hugsanlega ákveður, ef niðurstaða hennar er að það þurfi að breyta lögum.