Skattamál

72. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 00:30:38 (3242)

[00:30]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að svara þessu andsvari. Ég er alveg sammála öllu því sem þar kom fram. Hafi það verið slík afglöp sem hér hefur verið lýst í kvöld af hæstv. utanrrh. og hv. 1. þm. Austurl., aðalforingja Framsfl. nú um þessar mundir á Alþingi, að ákveða lægri skattprósentu á virðisaukaskatti bar mönnum að segja það strax í vor, segja það í sumar og segja það í haust, en ekki þá fyrst

að nefna það í nóvember. Þetta var ekki nefnt fyrr en í nóvember hvorki af hæstv. utanrrh. né forustu Framsfl. Og það vita menn auðvitað sem þekkja til í íslensku þjóðlífi að með slíkum aðferðum að hvetja nú til þess að þessari meginforsendu kjarasamninganna verði svipt í sundur er ekki hægt að stjórna landinu. Það er nú bara svona einfalt. Með slíkum aðferðum er ekki hægt að stjórna landinu.
    Alþb. fagnar því að Framsfl. ákvað í mars að breyta sinni fyrri stefnu. Það var mér fagnaðarefni þegar ég frétti það af flokksþingi Framsfl. að í bókinni sem birtist í mars þó að flokksþingið hefði verið haldið fyrr er Framsfl. nú orðinn okkur alþýðubandalagsmönnum sammála. En ég harma það hins vegar að þessi mikla stefnubreyting Framsfl. skyldi ekki endast árið.