Skattamál

72. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 00:48:01 (3247)


[00:48]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Enn kemur það fram hjá Framsfl. að þeir vilja fresta og þar með setja kjarasamninga í uppnám og óróa á vinnumarkaðinn. Það er mjög athyglisverð yfirlýsing af hálfu framsóknarmanna.
    En ég held að hv. þm. sé ekki alveg klár á þeirri tillögu sem Framsfl. er að leggja fram í matarskattsumræðunni. Hann er að leggja fram eitt þrep í virðisaukaskatti þar sem endurgreiðslur verða á innlendar matvörur. Gerir þingmaðurinn sér ekki grein fyrir því að í helstu nauðsynjavörum fjölskyldnanna, í matvörunum, er 50% innflutt vara? Það er sá þáttur sem ég var að tala um, það er sá þáttur sem Framsfl. vill hækka. Það liggur alveg fyrir. En endurgreiðslukerfið og það allt er auðvitað þekkt innan þeirra raða.
    Ég vil biðja virðulega þingmenn Framsfl. að fara nú að færa einhver rök fyrir þessari skattsvikaumræðu allri. Þeir fela sig á bak við hana sí og æ. Hvar eru skattsvikin? Í hvaða greinum eru þau? Hvernig skiptist það? Við höfum heyrt þjónustu, verslun, iðnað. En hafa menn hér talað um landbúnað? Hafa menn talað um hinar mismunandi greinar landbúnaðarins? Ætli þær séu alsaklausar? Hafa menn talað um sjávarútveginn? Ætli hann sé alsaklaus? Ég er ansi hræddur um að þetta sé víða.
    En að koma hér upp í svona umræðu og slá um sig með einhverjum tölum sem engin rök eru færð fyrir, engin, og notaður heill milljarður, þá verða menn, það er réttmæt krafa, að rökstyðja mál sitt.