Skattamál

72. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 00:49:57 (3248)


[00:49]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það liggur fyrir í þeim hugmyndum sem framsóknarmenn hafa sett fram að við leggjum til að virðisaukaskattur verði lækkaður í 23%. Kemur það ekki íslenskum barnmörgum fjölskyldum að gagni? Við leggjum til að barnabótaauki verði aukinn stórlega. Kemur það ekki íslenskum barnmörgum fjölskyldum að miklu gagni? Þannig að okkar tillögur eru mjög ítarlegar hvað þetta varðar og við gerum okkur grein fyrir því að þessi skattkerfisbreyting er ekki framkvæmanleg núna um áramótin og þess vegna eiga menn að setjast yfir málið og fara yfir það.
    Þessi hv. þm., Ingi Björn Albertsson, kemur af fjöllum og segist ekki vita um nein skattsvik. Þó liggja fyrir upplýsingar um að það er talið að í neðanjarðarhagkerfinu séu í dag 10--15 milljarðar sem ekki komi fram og þetta er náttúrlega það atriði sem skapar hér stríð í þessu þjóðfélagi og er óásættanlegt. Og þetta er það atriði sem íslensk verkalýðshreyfing hlýtur að verða að fara að berjast gegn því að þessar tvær þjóðir geta ekki haft frið í litlu landi. Það er of þekkt í íbúðahverfunum hverjir það eru sem njóta þjónustu ríkisins en gjalda ekki keisaranum það sem keisarans er.