Skattamál

72. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 00:53:29 (3250)


[00:53]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Einungis út af þeim kafla ræðu hv. þm. Inga Björns Albertssonar þar sem hann fjallaði um frádrátt vegna framlaga til stjórnmálaflokka þá veit hann fullvel að stjórnmálaflokkar eru í dag bókhaldsskyldir. Þeir eru í dag framtalsskyldir af öllu því sem snertir skatta. Þeir eru skyldugir til þess að telja fram laun sinna starfsmanna, gefa út á þá launamiða. Þeir eru líka skyldugir til þess að greiða fasteignagjöld af því húsnæði sem þeir nota. Þeir eru hins vegar ekki tekjuskattsskyldir, þeir borga ekki tekjuskatt og þeir borga ekki eignarskatt. Allt þetta liggur fyrir í lögunum eins og er í dag.
    Það sem hefur gerst og ég veit að hv. þm. getur tekið undir með mér er að það er afar óheppilegt þegar menn hafa framkvæmt skattalögin með ákveðnum hætti áratugum saman, þá kemur skattstjóri eða skattstjórar og fara allt í einu að snúa við þeirri framkvæmd og láta menn greiða stórar fjárhæðir langt aftur í tímann vegna hluta sem þeir töldu sig gera í góðri trú. Stjórnmálaflokkar hafa verið skyldugir til þess að opna sitt bókhald fyrir skattyfirvöldum að því leyti að svara öllum spurningum sem þau hafa beint til þeirra vegna t.d. hvert fjárframlög hafa runnið og ég er alveg sannfærður um það að það nefndastarf sem mun fara hér í gang, mun setja um þetta skýran og afmarkaðan lagaramma sem mun nýtast vel fyrir allt stjórnmálastarf í landinu og gera þetta allt saman betur úr garði heldur en er. En á meðan er alveg ótækt að það skuli vera komið svo í bakið á þeim sem hafa lagt fé af mörkum til stjórnmálaflokka sem raun ber vitni.